11.11.1981
Neðri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hygg að allir séu sammála um þá brýnu þörf sem er fyrir byggingu dvalarheimila aldraðra, um það þurfi ekki að deila. Á síðasta ári féllst heilbr.- og trn. á að sérstakt gjald yrði lagt á hvern skattþegn, á því tekjuári 100 kr. Þá var litið á það sem bráðabirgðaákvörðun sem ætti að gilda þetta eina ár. Ég studdi þessa till. ásamt fjölmörgum öðrum þm., og innan nefndarinnar studdi ég hana eingöngu vegna þess að hér væri um bráðabirgðaákvörðun að ræða til að fá tekjur til þessa verkefnis, en nýtt frv. ætti að liggja fyrir að loknu starfi þeirrar nefndar sem hæstv. ráðh. skýrði frá. Ég tel ákaflega hæpið að fallast á að tvöfalda þetta gjald á hvern skattþegn í landinu, hækka það í 200 kr., þó að hér sé um brýnt verkefni að ræða. Hins vegar tel ég að ríkið verði að sinna þessum verkefnum af sameiginlegum tekjum sínum eins og það hefur gert.

En það er annað sem ég hrekk nokkuð við að sjá í þessu frv. um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er í sambandi við hlutverk sjóðsins, orðalag 5. gr. núgildandi laga. Hér segir m. a. að hlutverk sjóðsins sé að greiða hlutdeild ríkissjóðs, sbr. 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 57/1978, í byggingum sveitarfélaga á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 3. gr. stafliði a og b. Er verið með þessu að létta af ríkinu útgjöldum og færa yfir á verkefni sjóðs sem þessa, sem á að standa undir að verulegu leyti með nefskatti? Ég fyrir mitt leyti get ekki fellt mig við þetta. Annars á ég sæti í þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar, og þar má ræða þetta frekar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðh.: Hefur verið úthlutað af tekjum þessa árs til Framkvæmdasjóðsins af þessum nefskatti? Hvernig hefur sú úthlutun verið framkvæmd, hverjir eru það sem hafa fengið þessi framlög og þá hvaða upphæð til hvers um sig? Mér leikur forvitni á að vita um þetta áður en málið fer til meðferðar í nefnd.

Ég tek það fram aftur, að ég tel að þetta verkefni eigi fyllsta rétt á sér og að auka þurfi framkvæmdahraða. En ég tel það varhugaverða stefnu — þó að fallist væri á það í algerri tímaþröng að leggja á bráðabirgðaskatt — að tvöfalda hann nú. Þetta er alveg gagnstætt stefnu ríkisstj. sem hefur staðið á bremsunum allt árið, — hún linaðist aðeins á þeim núna síðustu daga, enda eru mennirnir orðnir þreyttir í fótunum, — að fara fram á það við þingið að tvöfalda þessa skattbyrði sem var fallist á, eins og ég sagði, í algerri tímaþröng og með þeim hætti að þetta átti að gilda aðeins þetta ár. Ég tel að eins og var um þessi mál rætt hér á síðasta þingi, í maímánuði á þessu ári þegar lögin voru samþykkt, þá hafi verið reiknað með að þessi tekjuöflun yrði endurskoðuð. Það var látið í veðri vaka af öllum að hér væri um bráðabirgðaákvörðun að ræða.