11.11.1981
Neðri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég ítreka og undirstrika stuðning minn við það málefni sem Framkvæmdasjóður aldraðra á að styðja. Ég saknaði þess í máli hæstv. félmrh., en ég vona að hann leggi fljótlega fram endurskoðað frv. sitt frá síðasta Alþingi um vistunarmál aldraðra, ekki bara endurskoðað, heldur mikið endurskoðað, og að það nái þá til heilbrigðis- og félagsmálaþjónustu fyrir aldraða, en ekki bara til vistunarmálanna. Ég vona líka að þar verði tekið fullt tillit til brtt. minna og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur frá síðasta Alþingi.

Ég taldi á síðasta þingi og tel enn að réttara væri að innheimta þetta gjald sem viðbót við tekjuskatt, sem ákveðinn hundraðshluta af tekjuskatti, heldur en fastan nefskatt á alla. Það væri miklu sanngjarnara, menn borguðu þá eftir efnum og ástæðum. Auk þess bendi ég á það, að eftir að staðgreiðslukerfi skatta verður komið á, væntanlega í byrjun ársins 1983, er innheimta nefskatta mjög erfið, en mjög auðvelt aftur á móti að innheimta viðbót við tekjuskatt. Ég er sammála um tekjuþörfina og styð því frv. hæstv. ráðh. þó að ég telji að skattinn hefði frekar átt að leggja á með öðrum hætti.

Ég vara mjög eindregið við því, eins og kom fram hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, ef einhver tilhneiging verður til þess að nota þetta fé til að greiða framkvæmdir sveitarfélaga og framkvæmdir ríkisins sem hefðu verið greiddar hvort eð er. Ég tel að þessi sjóður eigi alfarið bg einvörðungu að notast til viðbótar við það sem annars hefði verið greitt. Verkefni Framkvæmdasjóðs aldraðra verða sem sagt að vera hrein viðbót við það sem annars hefði verið gert í þessu máli.

Ég ítreka stuðning minn og ég vona að hæstv. félmrh. leggi sem allra fyrst fram frv. um heilbrigðis- og félagsmálaþjónustu fyrir aldraða.