11.11.1981
Neðri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram er að sjálfsögðu enginn ágreiningur um það, að tekna þarf að afla til þess að ráða bót á því geysilega vandamáli sem við blasir varðandi aðbúnað allan að öldruðum í landinu. Um það greinir menn ekki á, að nauðsyn er að afla tekna til slíks. En um hitt getur menn greint á, hvaða leiðir á að fara.

Ef ég man rétt var það frv., sem lagt var hér fram á síðasta Alþingi frá hæstv. ráðh. eða ríkisstj., það seint á ferðinni að lítill sem enginn tími gafst til að skoða aðrar leiðir til tekjuöflunarmöguleika en þar var lagt til, þ. e. flatan skatt á einstaklinga.

Ég teldi persónulega mjög æskilegt að breyta um skattlagningaraðferðina í þessum efnum. Það vekur að sjálfsögðu talsverða athygli mína, að það skuli vera hæstv. heilbrmrh., fulltrúi lýðræðissinnaðra sósíalista, eins og hæstv. forseti hér orðaði það einhvern tíma, ef ég man rétt, sem leggur til að þeir, sem verst eru settir, og þeir, sem best eru settir, skuli borga jafnmikið. Það er í mínum huga afskaplega ógeðfelld skattlagning, miðað við þá lífshugsjón sem ég starfa eftir. En okkur hæstv. ráðh. greinir bersýnilega á í þessum efnum. Ég hefði talið ólíkt skynsamlegra og raunhæfara að hér hefði verið um prósentuskattlagningu að ræða, annaðhvort í gegnum útsvarsálagninguna eða í gegnum tekjuskattsálagninguna, þannig að þeir, sem meira hafa úr að spila, borgi meira en hinir. En ég vil taka það sérstaklega fram, að þessi orð mín má á engan hátt skilja á þann veg, að ég sé andvígur því að skattleggja til þessa verkefnis, síður en svo. Hér getur menn greint á um leiðir til að afla þessara peninga, og um það snýst málið.

Í þeirri skattáþján, sem nú hvílir á skattborgurum þessa lands, hygg ég að það sé kannske hvað mest þörf á að líta til þeirra sem minnst hafa úr að spila, en borga eigi að síður talsvert stórar upphæðir til hins sameiginlega sjóðs, og það sé ástæðulaust að íþyngja þeim um of með svona leið til skattlagningar þegar hægt er að ná tekjunum inn á annan hátt og sanngjarnari, þannig að menn borgi frekar eftir efnum og ástæðum. Og það er kannske það sem málið snýst nú mest um.

Eins og hv. þm. Matthías Bjarnason kom inn á áðan var þetta afgreitt á síðasta Alþingi í nokkrum fljótheitum og þá gert ráð fyrir að frv. — að sjálfsögðu vandað frv., vel undirbúið í alla staði af hálfu hæstv. ríkisstj. og hæstv. heilbrmrh. — mundi liggja fyrir þingi í haust og þá að sjálfsögðu að betur athuguðu máli hvaða leiðir væru æskilegastar til að afla þessara tekna.

Það er mín skoðun, að menn ættu nú að athuga það í raun og veru af fullkominni alvöru, hvort ekki er ástæða til að breyta um aðferð til að innheimta þessar tekjur sem allir eru sammála um að þarf að afla til framkvæmdanna. Mér þykir a. m. k. undarlegt ef hæstv. heilbrmrh. er mér ekki sammála um það, að til sé æskilegri leið til skattlagningar í þessum efnum en sú sem hér er lagt til að fara, og þá hugsum við báðir að sjálfsögðu til hinnar hrjáðu alþýðu og lágtekjufólks þessa lands og í hönd farandi erfiðrar samningsgerðar og kjarabaráttu sem allir eru sammála um að eigi fyrst og fremst að byggjast á því að rétta hlut þeirra sem verst eru settir, en ekki íþyngja.

Þessu vildi ég koma á framfæri strax við 1. umr. þessa máls og beina því til viðkomandi aðila, að menn athuguðu þetta gaumgæfilega. Ég ítreka enn að ég er alveg sammála þörfinni og nauðsyninni á að afla þessara peninga. En til ítrekunar því, sem hér hefur komið fram áður, sýnist mér að það þurfi a. m. k. ekki mikla illgirni til að lesa það út úr þessu frv., að hér geti ríkissjóður verið að losa sig við skuldbindingar, sem hann á að standa við af eigin rammleik en ætlar sér að láta þennan væntanlega sjóð borga. Það þarf auðvitað að tryggja það alveg 100%, að hæstv. ríkisstj. takist ekki í þessu tilfelli eins og mörgum öðrum að seilast til þeirra peninga, sem verið er að skattleggja almúga þessa lands fyrir til sérstakra verkefna, að hæstv. ríkisstj. takist ekki að seilast til þeirra til þess að hún hafi enn frekar og meira úr að moða í sinni skattpíningarstefnu og skatthít, eins og ótalmörg dæmi eru til um að undanförnu. Ég tek þess vegna undir það og beini því til þeirrar hv. nefndar, sem málið til meðferðar, að þetta sé einnig mjög ítarlega kannað þannig að á engan hátt sé verið að létta byrði ríkissjóðs, að hann standi við sínar skuldbindingar. Þetta á að vera umframfjármagn til þess að mæta hinni brýnu þörf sem við blasir í þessum efnum.