11.11.1981
Neðri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

73. mál, Framkvæmdasjóður aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef lagt á það áherslu við nefndina, að hún skili frv. á þessum vetri, eins og ég sagði bæði í minni fyrstu og annarri ræðu og get gjarnan endurtekið í þriðja skipti.

Í annan stað var spurt varðandi nefndarskipunina. Í nefndinni á sæti stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, þessir: einn fulltrúi tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, einn fulltrúi tilnefndur af Öldrunarfræðafélagi Íslands og einn fulltrúi tilnefndur af ráðh., sem er formaður þeirrar stjórnar, og hann er jafnframt formaður þessarar nefndar. Síðan eru í nefndinni fulltrúi tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, sem er Þórarinn Þórarinsson lögfræðingur. Tilnefndur fulltrúi þar af Alþýðusambandi Íslands er Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir. Auk þess eru tveir fulltrúar tilnefndir af ráðh. í nefndina, auk Páls Sigurðssonar, þ. e. Pétur Sigurðsson alþm. og Hrafn Sæmundsson prentari. Þetta er nefndin. Ég gerði grein fyrir henni í fréttatilkynningu sem ég sendi út til blaðanna 25. júlí s. l. og birtist í öllum blöðum, en á mjög lítið áberandi stöðum.