11.11.1981
Neðri deild: 11. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

72. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. skuli nú vera komið fram. Sannleikurinn er sá, að það hefur allt of lengi dregist að Alþingi tæki afstöðu til þess hvort taka eigi upp staðgreiðslu opinberra gjalda eða ekki.

Það skattalagafrv., sem samþykkt var vorið 1978, var samið með hliðsjón af því, að staðgreiðslukerfi yrði komið á. Þannig var skattalagafrv. samþykkt sem lög. Í beinum tengslum við það frv. var svo lagt fram frv. um staðgreiðslukerfi skatta af þáv. fjmrh., Matthíasi Á. Mathiesen.

Það má segja, eins og hæstv. ráðh. gat um áðan, að aðdraganda að framlagningu þess frv. mætti rekja allt til loka stríðsins eða til 1947. Síðan þá hafa ýmsar nefndir starfað og yfirlýsingar verið gefnar af ríkisstj. um upptöku staðgreiðslukerfis.

Frv. var lagt var fram í apríl 1978, en varð ekki afgreitt, enda seint fram komið. Ríkisstj., sem tók við sumarið 1978, ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar, gerði ekkert í þessu máli og þess vegna varð að breyta öllum innheimtukafla hinna nýju skattalaga með tilliti til þess, að við skyldum búa við óbreytt kerfi.

Nú hefur nýtt frv. verið lagt fram. Við fljótan yfirlestur og samanburð við fyrra frv., frá 1978, sýnist mér það í meginatriðum samhljóða því. Það byggir á sama kerfi og fyrirmyndir eru einkum sóttar til Vestur-Þýskalands og Bandaríkjanna, þar sem staðgreiðslukerfið hefur reynst vel. Ýmsar orðalagsbreytingar eru þó gerðar, eðlilegar sýnist mér flestar. Efnisbreytingar eru einnig gerðar, t. d. að því er tekur til staðgreiðslu þeirra, sem stunda eigin atvinnurekstur, vegna nýrra reglna um reiknuð laun.

Við þessa 1. umr. ræði ég ekki efnisatriði einstakra greina. Ég hef fyrirvara um fylgi við einstaka liði, en ég tek fram að ég er fylgjandi því, að staðgreiðslukerfi verði tekið upp.

Staðgreiðslukerfinu fylgja ótvírætt ýmsir kostir og suma nefndi hæstv. ráðh. áðan: Öryggi fyrir gjaldendur. Staðgreiðsla stuðlar að jafnvægi milli skattheimtu eða endurgreiðslu og greiðslugetu gjaldenda á teknaári. Innheimtan verður öruggari og jafnari og ætla má að það hafi jafnvægisáhrif á efnahagslífið. Álag á launagreiðendur vegna innheimtunnar ætti að verða minna. Síðast en ekki síst nefni ég það, að hagur þeirra, sem hætta verða vinnu, er miklu betur tryggður. Þar á ég við þá sem verða að hætta fyrir aldurs sakir eða af öðrum orsökum, t. d. vegna veikinda. Þeir lenda oft í hinum mesta vanda þegar greiðslugetan minnkar og skatturinn kemur eftir á. Ég þarf ekki að lýsa því. Þótt heimild sé í skattalögum til að lækka skatta þeirra, sem verða fyrir slíkum áföllum eða hætta að vinna af öðrum orsökum, fylgir slíku fyrirhöfn og ekki er alltaf leyst greiðlega úr þeirra vanda af hendi skattyfirvalda.

Ýmsir gallar hafa verið tíundaðir í sambandi við upptöku staðgreiðslukerfis sem ég hirði ekki um að rekja. Ég held að flest þau atriði, sem talin eru sem gallar, byggist á misskilningi.

Ég tek fram að þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ekki tekið efnislega afstöðu til þessa máls, en er að sjálfsögðu fylgjandi því að frv. þetta fái ítarlega umfjöllun í þingnefnd og verði sent til umsagnar hinna ýmsu aðila sem sérstakra hagsmuna hafa að gæta — ég nefni þar Samband ísl. sveitarfélaga, samtök vinnuveitenda og verkalýðshreyfingu — og það fái síðast enn ekki síst umfjöllun í þinginu sjálfu.