12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er okkur Alþb.-mönnum ánægjuefni að fá tækifæri til að fjalla um utanríkismál á hv. Alþingi jafnítarlega og hér verður gert. Við teljum að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að koma á framfæri við þjóðina og þingið ýmsum upplýsingum um þessi mál vegna þeirrar miklu umræðu sem fram hefur farið um utanríkismál á undanförnum mánuðum og Alþb.-menn hafa beitt sér mjög fyrir ásamt blaði sínu, Þjóðviljanum.

Í þeim umr., sem hér hafa farið fram, hefur verið vitnað nokkuð til Þjóðviljans. Er það vel að menn lesi hann og geymi hjá sér og lesi aftur, eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gerði áðan og sömuleiðis nýkjörinn varaformaður Sjálfstfl., hv. þm. Friðrik Sophusson, sem las upp úr forustugrein sem Kjartan Ólafsson varaformaður Alþb. skrifaði í Þjóðviljann fyrir nokkrum dögum og er að sjálfsögðu í samræmi við meginsjónarmið Alþb. og þær flokkslegu samþykktir sem þar gilda.

Dæmin, sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson nefndi áðan um tilraunir Sovétríkjanna til að hafa áhrif á skoðanir einstaklinga á Norðurlöndum, eru sláandi. Þau eru til marks um það, að stórveldin reyna alls staðar að véla menn til fylgis við málstað sinn, og þau eru til marks um þær umræður einnig, sem fram hafa farið að undanförnu, að friðarhreyfing, sem ekki er óháð hagsmunum stórveldis, er engin friðarhreyfing.

Herra forseti. Á fundi Alþingis á þriðjudaginn hóf málið hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, en hún er eins og kunnugt er þekktari fyrir ofstæki í utanríkismálum en flestir aðrir forvígismenn Sjálfstfl. og er þá langt til jafnað. Þannig var hún ein þeirra örfáu sem snerust gegn hugsanlegu stjórnarsamstarfi Sjálfstfl. við Alþb. þegar jafnvel Morgunblaðið, einkamálgagn Geirs Hallgrímssonar, beitti sér mjög fyrir slíku stjórnarsamstarfi á síðari hluta ársins 1979. Af þessum ástæðum, að ég þekkti til sjónarmiða hv. þm., komu mér ummæli hennar ekki á óvart á dögunum. En hitt var engu að síður alvarlegt, að í ræðu hennar voru flutt viðhorf, sem ekki hafa heyrst hér á Alþingi um áratugaskeið, og einnig komu fram hjá þm. mjög alvarlegar dylgjur og getsakir í garð Alþb. Það var þess vegna sem við kröfðumst þess á þingfundi s. l. þriðjudag, að þessari umr. yrði haldið áfram þegar í upphafi reglulegs fundar þingsins í dag, fimmtudag.

Ræða hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, átti að vera fsp. til utanrrh. Áður en hún kom fsp. frá sér tókst henni að koma að mjög alvarlegum rangfærslum og þess vegna tel ég nauðsynlegt að taka fram eftirfarandi:

1. Alþb. hefur aldrei haft nein flokksleg samskipti við Kommúnistaflokk Ráðstjórnarríkjanna né aðra kommúnistaflokka sem báru ábyrgð á innrásinni í Tékkóslóvakíu. Það er skoðun okkar, að til Sovétríkjanna sé enga fyrirmynd að sækja fyrir sósíalista í heiminum því lýðræði sé óaðskiljanlegur þáttur sósíalismans. Þar sem þessar forsendur skortir í Sovétríkjunum er þar ekki um raunverulegan sósíalisma að ræða að okkar mati. Alþb. hefur mjög takmörkuð flokksleg samskipti við erlenda stjórnmálaflokka. Þau samskipti eru þá helst við verkalýðsflokka á Norðurlöndunum, en um eiginleg flokkasamskipti er vart að ræða. Grundvallarstefna Alþb. í þessum efnum var ákveðin 1968 eftir innrásina í Tékkóslóvakíu og henni hefur ekki verið breytt og engin áform eru uppi á vegum flokksins um breytingar í þessum efnum.

2. Heimsfriðarráð það, sem svo er nefnt í ræðu hv. þm., á ekkert skylt við það sem nefnt hefur verið friðarhreyfing í daglegri umræðu að undanförnu. Með friðarhreyfingu er átt við þau öfl sem vilja berjast fyrir friði, öfl sem eru óháð stórveldunum. Það er einnig fráleitt að taka afstöðu til friðarmála á Íslandi nema á íslenskum forsendum. Það er fráleitt að ætlast til þess, þótt Íslendingar séu í Atlantshafsbandalaginu, að þeir hætti að hugsa og draga ályktanir sem Íslendingar, en sú tilætlunarsemi kom fram í máli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur í þessum ræðustól á dögunum.

3. Hv. þm. gat þess, að Sjálfstfl. hefði gert sérstaka samþykkt um utanríkismál, þar sem segir orðrétt: „Jafnframt þarf að huga að örygginu inn á við og gera ráðstafanir til þess að erlend ríki grafi ekki undan öryggi ríkisins og sjálfstæði þjóðarinnar innan frá.“

Það er rétt hjá þm., að koma verður í veg fyrir að útsendarar erlendra ríkja grafi undan öryggi þjóðarinnar innan frá. En slíkt verður aðeins gert með því að komið verði í veg fyrir að nokkur maður geti hugsað sér að ganga erinda erlendra ríkja hér á landi. Það þarf að gera með því að efla með þjóðinni þjóðlega vitund, reisn og sjálfstæð viðhorf gagnvart öllum erlendum ríkjum. Það þarf að gerast þannig, að enginn leyfi sér nokkru sinni að taka við mála úr hendi stórveldis. Enda þótt hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir telji að betra sé að ganga erinda Bandaríkjamanna en Rússa er skoðun mín fyrst og fremst sú, að þjóðin þurfi öll, hver einasti Íslendingur, að vera á varðbergi andspænis stórveldunum hvar sem er og hvenær sem er og í hvaða formi sem afstaða stórveldanna kemur fram. Hvers konar þjónkun við erlend ríki ber að fordæma.

Hinu er hins vegar ekki að neita, að ályktun Sjálfstfl. minnti óhugnanlega á þá tíma þegar McCarthy réð lögum og lofum um bandaríska utanríkisstefnu, — eða hvernig ætlar Sjálfstfl. að gera „ráðstafanir“ sem hindra áhrif útsendara erlendra ríkja með öðrum hætti en að leggja á það áherslu, að öll þjóðin, hver einasti Íslendingur, sé samtaka í þessum efnum? Hvaða ráðstafanir hefur Sjálfstfl. gert til að hindra þetta þegar hann hefur farið með yfirstjórn utanríkismála á Íslandi? Er Sjálfstfl. að hóta hér lögregluríki, þar sem eru njósnarar á hverjum bæ, þar sem allir njósna um alla í þágu herraþjóðarinnar? Ætlar Sjálfstfl. að tölvuskrá þá sem ekki gera eins og honum þóknast, eins og gert var í undirskriftasöfnun „Varins lands“, sem er einhver umsvifamesta skráningarherferð gegn sjálfstæðum skoðunum einstaklinga sem sögur fara af á Íslandi?

4. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir dylgjaði um það, að ég hafi farið til Sovétríkjanna í opinbera heimsókn á vegum Kommúnistaflokks Sovétríkjanna. Það er rangt. Ég hefði aldrei þegið boð frá þeim flokki. Ég fór í boði ríkisstjórnar Sovétríkjanna rétt eins og Geir Hallgrímsson, sem þangað fór á sínum tíma sem forsrh. Eins og tekið var fram í Morgunblaðinu nýlega fékk Geir Hallgrímsson þar mjög höfðinglegar móttökur og hann hefur æ síðan tönnlast á því, að á Íslandi séu ekki kjarnorkuvopn samkv. þeim upplýsingum sem hann fékk hjá Kosygin. hefur Geir Hallgrímsson aftur og afturgetið þessa og mér kæmi ekki á óvart að Morgunblaðið hafi einhvern tíma haft þetta eftir honum. Allir sjá nú hve upplýsingar Sovétmanna um þessi efni eru varhugaverðar. Kannske er Geir Hallgrímsson eini maðurinn á Íslandi sem eftir atburðinn í Svíþjóð trúir því sem Rússar segja um kjarnorkuvopn.

5. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir innti ríkisstj., væntanlega þann hluta hennar sem ekki tilheyrir Alþb., eftir því, hvort ekki væri ástæða til að endurskoða afstöðu stjórnarinnar til Alþb. Ég svara ekki fyrir hina stjórnaraðilana, en þessi krafa hv. þm. er vissulega til marks um að þar á bæ ráða þau öfl enn ferðinni sem eru í viðjum kaldastríðsofstækisins, — eða hvert er tilefni þessarar kröfu hv. þm. til Gunnars Thoroddsens og Steingríms Hermannssonar, hæstv. ráðh.? Tilefnin eru þessi:

1. Að danskur rithöfundur hefur verið handtekinn og ásakaður fyrir erindrekstur í þágu Sovétríkjanna.

2. Að 30 ára gamall sovéskur kafbátur hlaðinn kjarnorkuvopnum hefur siglt upp í skerjagarðinn við Svíþjóð.

Þessi eru tilefnin til kröfu hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, og er langt síðan seilst hefur verið jafnlangt til lokunnar í þessum ræðustól og er þá langt til jafnað.

Um þessa tvo viðburði vil ég enn fremur segja þetta: Ákæran á hendur rithöfundinum er alvarleg og vonandi er það ekki til hér á landi að tilefni sé til slíkrar ákæru. Hins vegar er ljóst að hætta er á slíku þegar stærsta blað landsins og stjórnmálaflokkur þess fylgir þeirri stefnu að Íslendingar eigi að hneigja sig og beygja fyrir erlendu stórveldi. Sífelldar utanstefnur þessara aðila samkv. skipulagðri stefnuskrá Bandaríkjastjórnar til að heilaþvo íslenska sendimenn eru varasamar í þessum efnum. Í mínum huga gildir hér einu hvoru stórveldinu menn kunna að þjóna. Allir þeir, sem taka erlend viðhorf fram yfir íslensk, eru hugsanleg fórnarlömb erlendra hagsmuna stórvelda og stórfyrirtækja. Varðandi hið síðar nefnda, stórfyrirtækin, er skemmst að minnast Alusuisse-málsins frá þessu ári þar sem Morgunblaðið gekk fram fyrir skjöldu í þágu stórfyrirtækis útlendinga gegn íslenskum hagsmunum.

Í öðru lagi vil ég að fram komi varðandi sovéska kafbátinn, að í rauninni afhjúpar hann betur en allt annað hræsni Sovétríkjanna í boðskap þeirra fyrir kjarnorkuvopnalausum svæðum og friðlýsingu. Ég tel enga ástæðu til að rengja upplýsingar sænsku ríkisstjórnarinnar um kjarnorkukafbát þennan, en þessi tíðindi verða mér fyrst og síðast tilefni til að staldra við og til að hvetja landsmenn til að velta því fyrir sér, hvaða hætta er hér á ferðum. Er ekki ljóst að allt Norður-Atlantshafið virðist vera morandi í kjarnorkuknúnum kafbátum? Er ekki ljóst að Ísland er í vaxandi mæli að tengjast kjarnorkuvopnakerfi Bandaríkjanna á liðnum árum? Því miður er svar við þessum spurningum báðum játandi. Er þá ekki kominn tími til þess að við snúum bökum saman í þessum efnum? Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er uggandi vegna þessara staðreynda. Hann er uggandi um lif þjóðarinnar í sviptingum stórveldanna. Það er ekki hræðsluáróður að benda fólki á vígbúnað stórveldanna, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og fleiri talsmenn Sjálfstfl. héldu fram. Hér hefur aðeins verið bent á blákaldar staðreyndir. Ástæðan til þess ofstækis, sem heltekur Sjálfstfl. í þessu máli nú, er fyrst og fremst sú, að hann áttar sig á að vaxandi fjöldi Íslendinga gerir sér ljóst að núverandi öryggismálastefna tryggir ekki öryggi. Hún býður hættunni heim. Hún setur Íslendinga fremst á svið stórveldaátaka um leið og ljóst er að vaxandi líkur eru á að stórveldin sjálf sleppi skaðlítil.

Forseti Bandaríkjanna talar um takmarkað kjarnorkustríð í Vestur-Evrópu. Frammi fyrir þessu stöndum við. Ég er sannfærður um að í þetta skiptið mistekst íhaldinu hér að nýta bandamann sinn í Moskvu til að þyrla upp moldviðri skilningsleysisins. Það hefur aftur og aftur gerst á liðnum árum að íhaldið á Íslandi hefur tekið ákvörðun Sovétstjórnarinnar, þeim sem háskalegar virðast, beinlínis fagnandi til að geta höggvið að andstæðingi sínum hér heima fyrir. Tilraun hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur í fyrradag til að fá samstarfsaðila Alþb. í ríkisstj. til að víkja Alþb. til hliðar er sláandi dæmi um þessa afstóðu ákveðins hluta Sjálfstfl. Það, sem tókst ekki í síðustu Alþingiskosningum, á nú að pína fram í skjóli sovétkafbátsins í sænska skerjagarðinum.— Það er annars ekkert nýtt að ofstækisöfl láti á sér kræla og hagi sér með þessum hætti. Hvað eftir annað hafa utanríkismál verið notuð í sama skyni gegn íslenskum sósíalistum. Um það eru ótalmargar sannanir.

Herra forseti. Alþb. telur að tíðindin frá grannlöndum okkar undanfarna daga staðfesti að stefna okkar í utanríkismálum hefur verið rétt. Núverandi öryggismálastefna skapar ekki öryggi, heldur hættur. Það þarf þess vegna að leggja aukna áherslu á kjarnorkuvopnalaus svæði undir alþjóðlegu eftirliti, t. d. aðila eins og Sameinuðu þjóðanna. Það þarf að berjast fyrir friðlýsingu Norður-Atlantshafsins og Eystrasaltsins. Það á ekki að láta útsendara stórveldanna eyðileggja góðan málstað, sem nú nýtur stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar. Við skulum vera vel á verði því að hætturnar eru hvarvetna og í þeim efnum hefur Alþingi skyldur framar öllum öðrum.