15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

8. mál, fjarskiptalög

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Páli Péturssyni fyrir þær upplýsingar sem hann veitti hér. Hins vegar hefur þessi nefndarskipun farið eitthvað hljótt og ég minnist þess ekki að hafa heyrt sagt frá henni í blöðum eða annars staðar. Ég átti samtal við póst- og símamálastjóra um þessi mál fyrir fáeinum dögum og hann minntist ekki á þessa nefndarskipun. Hins vegar verð ég að lýsa þeirri skoðun minni, að mér finnst það óeðlileg vinnubrögð þegar skipuð er nefnd til að endurskoða löggjöf sem vissulega varðar alla þjóðina, varðar alla Íslendinga, að þá skuli það vera eitthvert sérmál stjórnarflokkanna. Það eru ekki lýðræðisleg vinnubrögð að gefa stjórnarandstöðunni ekki tækifæri til að starfa í nefnd á borð við þessa. Satt best að segja þykir mér miður að hæstv. samgrh. skuli ekki vera hér viðstaddur til að greina frá þessu, og ég lýsi enn furðu minni á þessum vinnubrögðum. Ég held að það hljóti að vera miklu vænlegra málinu til framgangs og hljóti að tryggja betri samstöðu um mál af þessu tagi ef fulltrúar allra stjórnmálaflokka eiga þar aðild. Það tryggir líka enn þá betur að fleiri sjónarmið heyrist við endurskoðun þessarar mikilvægu löggjafar. Satt best að segja skil ég ekki hvaða ástæða er til að fara með þetta sem eitthvert hálfgert pukursmál.