12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum forseta og vera ekki svo langorður sem síðasti ræðumaður.

Það er sennilega rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að það er mikil ótrú á Rússum þessa dagana. Hv. þm. taldi upp að þeir gætu ekki stjórnað Pólverjum og ekki Afgönum. Allt er það rétt. En það mætti kannske spyrja á móti hvers vegna Rússar séu að reyna að stjórna þessum þjóðum. Hvers vegna eru þeir að reyna það? Það er sannarlega komið á daginn að það er ótrú á getu Rússa þegar þeir geta ekki einu sinni stjórnað einum kafbáti öðruvísi en svo, að hann steyti á skeri í hlutlausu landi með kjarnorkuvopn innanborðs. Með þessu strandi hafa Sovétmenn afhjúpað með eftirminnilegum hætti athafnir sínar á höfunum og þ. á m. á því hafi sem þeir hafa gefið nafnið „haf friðarins“.

Það var sannarlega tímabært að fá umr. hér á Alþingi um hvort utanrrh. teldi vera tilefni til að kanna hvernig viðleitni Sovétmanna til að grafa undan Atlantshafsbandalaginu innan frá kæmi fram gagnvart Íslandi, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir orðaði það í ræðu sinni á þriðjudaginn. Tilefni spurningarinnar var njósnamálið í Danmörku og tengsl Rússa við friðarhreyfinguna þar og svo strand sovéska kafbátsins við Karlskrona. Stundum hefur verið spurt af minna tilefni á hv. Alþingi.

Í þessum umr. hefur nokkuð verið rætt um endurnýjun kjarnorkuvopnabirgða í Evrópu, — eðlilega hefur verið um það rætt, — og menn hafa velt fyrir sér af hverju Atlantshafsríkin eru að endurnýja þessar vopnabirgðir sínar? Á síðasta áratug, tímabili slökunarstefnu, drógu Bandaríkjamenn úr hernaðarútgjöldum sínum og minnkuðu herafla. Sovétmenn juku herafla sinn um þriðjung á sama tímabili. Kostnaður þeirra jókst um 50%. Skriðdreka hafa þeir 50 þús. talsins á móti 11 þús. skriðdrekum Bandaríkjamanna. Þeir breyttu flota sínum úr strandvarnarflota í flota sem siglir um öll heimsins höf. Meðan Atlantshafsbandalagsríkin komu engum eldflaugum fyrir settu Sovétmenn yfir 750 kjarnaodda í SS-20 flaugar sínar, sem að mestu er beint á skotmörk í Evrópu, og þeir setja upp eina nýja á viku, að því er sagt er. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að endurnýja þarf kjarnorkuvopnabirgðir í Evrópu.

Þjóðir, sem einhvers meta sjálfstæði sitt, eru jafnframt reiðubúnar að leggja eitthvað af mörkum til þess að verja það. Þar getum við ekki leyft okkur að treysta á góðvild þeirra sem vilja tortíma sjálfstæðum þjóðum, en það er gert ef ekki er snúist til varnar. Og hvernig hafa Sovétmenn notað vopn sín? Þeir hafa notað þau til að rjúfa friðinn, en ekki til að verja hann, eins og Atlantshafsríkin gera. Við höfum um það mörg dæmi. Við höfum dæmi frá Kampútseu, Angóla, Eþíópíu og Afganistan. Þetta eru allt ný dæmi. Og við höfum dæmi frá fyrri tímum: Eystrasaltslöndin, Ungverjaland, Pólland o. fl., o. fl. Þessi lönd glötuðu sjálfstæði sínu þar sem þau réðu ekki yfir þeim ráðum sem ein duga móti þeim sem fara vilja með ófriði á hendur þeim sem minna mega sín. Vestræn ríki hafa brugðist við með þeim eina hætti sem Sovétmenn virðast skilja. Þau hafa endurnýjað vopnabirgðir sínar.

Yfirburðir eins ríkis í hernaðarlegu tilliti, það misvægi sem þannig verður, hefur í för með sér vantraust, öryggisleysi og óstöðugleika í alþjóðasamskiptum. Þess vegna verður jafnvægi að nást og það auðvitað helst með sem minnstum vígbúnaði, og samkomulag verður að takast um takmörkun vopna. Fyrir stjórnir Evrópulanda er það lamandi á friðartímum og það er hættulegt á hættutímum og nánast útilokað á átakatímum að taka ákvarðanir í þeirri stöðu sem þau eru í, þegar yfirgnæfandi afl sovéthersins ógnar þeim öllum. Það er misvægið sem stofnar friðnum í hættu nú í Evrópu, eins og það hefur alls staðar gert á öllum tímum.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því, hvernig Evrópuþjóðir hafa brugðist við til að tryggja frið, koma í veg fyrir stríð. Þær hafa neyðst til að endurnýja vopn sín. Þetta er ef til vill og vonandi lykillinn að því að fá Sovétmenn að samningaborðinu.

Það hefur verið talað um Norðurlönd til þessa sem kjarnorkuvopnalaust svæði og þess hefur verið krafist að þau yrðu svo um aldur og ævi og það yrði gert með einhliða yfirlýsingu. Slíkt er uppgjöf og ekkert nema uppgjöf. Norðurlönd eru kjarnorkuvopnalaus nú og hafa ætíð verið, en einhliða yfirlýsing um að svo muni verða um aldur og ævi kemur ekki til greina. Slíkt dettur engum í hug nema þá helst útsendurum Sovétríkjanna, sem eru reiðubúnir að ganga erinda þeirra, enda sjálfsagt allur útlagður kostnaður greiddur.

Skinhelgi Sovétmanna gagnvart Norðurlöndum strandaði við Karlskrona, sagði Magnús Torfi Ólafsson í ágætri grein sem hann skrifaði um þennan atburð, og hitti þar naglann á höfuðið með fyrirsögninni einni.

Á Eystrasalti einu eru taldir vera á sveimi 60 kafbátar Sovétríkjanna og allir búnir kjarnorkuvopnum. Það er ekki að undra þótt Sovétmenn vilji kalla þetta haf, Eystrasalt, „haf friðarins“. Hvar voru friðarhreyfingarnar á síðasta áratug þegar Sovétmenn voru sem óðast að auka vígbúnað sinn? Hvar voru friðarhreyfingarnar þá? Sú friðarhreyfing, sem telur sig eiga samstöðu með sovéska heimsfriðnum, er verri en engin, segir varaformaður Alþb. í leiðara í blaði sínu á sjálfan byltingardaginn. Þangað hafa þeir þó sótt línuna allt til þessa. En það þykir sjálfsagt ekki gott nú um sinn. Og hvað með sovétagentana hér á landi? Hver greiðir kostnaðinn af gönguferðum þeirra hér, auglýsingum, útgáfustarfseminni, ferðalögum á friðarþing o. fl., o. fl.? Hvernig væri að íslensk yfirvöld athuguðu það mál? Ég vil taka undir þau orð hæstv. utanrrh., sem hann sagði hér á þriðjudaginn, að það væri eðlilegt að menn veltu því fyrir sér hér á landi hvernig við erum undir það búin að mæta hliðstæðum atburðum og þeim sem gerst hafa í Svíþjóð og Danmörku. Hæstv. ráðh. taldi að við værum ekki vel undir það búnir. Því væri sjálfsagt að fylgjast vel með og fá upplýsingar um hvernig þessu sé háttað í Danmörku. Treysta þurfi árvekni borgaranna og löghlýðni þeirra. Allt er þetta rétt. En þessar athafnir kommúnista í öðrum löndum gefa tilefni til að spyrja hvernig sé háttað árvekni þeirra sem með Alþb. sitja í ríkisstjórn hér á Íslandi.

Af þessu friðarins hafi villst hrörlegur kafbátur upp í landsteina í Svíþjóð, sagði hv. þm. Guðrún Helgadóttir í umr. um daginn. Þetta atvik, strand kafbátsins, verður þm. tilefni til að ítreka kröfuna um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og að Ísland segi sig úr NATO. Vitað er, eins og hæstv. utanrrh. sagði í ræðu sinni, að eftirlit með kafbátaferðum umhverfis Ísland er stundað frá varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli með hinum fullkomnustu tækjum, eins og hæstv. ráðh. sagði. Það er því ekki að undra þótt þeir Alþb.-menn vilji þetta eftirlit í burtu svo ekkert þurfi að trufla kafbátaferðir Sovétmanna umhverfis Ísland. Þeir þyrftu þá ekki einu sinni að afsaka sig með biluðum kompás þegar þeir renndu hér upp í landsteinana.

En það mætti kannske í þessu sambandi spyrja hvernig þeim framsóknarmönnum líkar að hafa Alþb.-mennina standandi á tánum á sér svo þeir geri engar vitleysur í utanríkismálum, eins og þeir Alþb.-menn hafa orðað það. Ég veit að vísu að hv. þm. Guðrún Helgadóttir vegur kannske ekki mikið, en það er þungt í sumum Alþb.-mönnunum pundið. Það hlýtur að vera óþægilegt að hafa þá alltaf ofan á tánum á sér þegar framsóknarmenn hreyfa sig eitthvað í sambandi við utanríkis- eða varnarmál.

Það mætti líka spyrja hvernig hæstv. forsrh. líði. Hann er að vísu ekki hér í salnum frekar en stundum áður, en boðin berast kannske til hans. Ég mætti kannske spyrja hæstv. dómsmrh., af því að ég veit að hjörtu þeirra slá oft í takt: Hvernig líður þessum hæstv. ráðh. með neitunarvald Alþb. yfir sér, sennilega í hverju því máli sem þeim sýnist, alla vega í öllum þeim málum sem varða öryggis- og varnarmál? Ég veit að vísu að forsrh. er alveg kominn á skoðun þeirra Alþb.-manna að því er varðar flugstöðvarbygginguna á Keflavíkurflugvelli. Ég hef heyrt hann segja í ræðu,— að vísu ekki hér á þingi, en hún á sjálfsagt eftir að koma, — að þar skuli ekkert gert. En hvað með önnur atriði sem varða beina öryggishagsmuni Íslands? Á Alþb. að ráða þar ferðinni líka?

Ég verð að segja það alveg eins og er, að ég hef varla geð í mér til að svara mörgu úr ræðum þeim sem þeir Alþb.-menn hafa flutt hér í dag.

Hæstv. félmrh. Svavar Gestsson sagði það ánægjuefni fyrir Alþb.-menn að fá tækifæri til að ræða ítarlega um utanríkismál. Það er okkur sjálfstæðismönnum líka ánægjuefni, þannig að ánægja okkar er gagnkvæm að þessu leyti. En það voru stórkostlegar og þó kannske öllu heldur stórkostulegar yfirlýsingar hæstv. ráðh. um að til Sovétríkjanna væri enga fyrirmynd að sækja. Heimsfriðarráðinu er afneitað. Öðruvísi mér áður brá. En spurningar ráðh. um fyrirætlanir Sjálfstfl. voru svo gjörsamlega út í hött að þær eru alls ekki svaraverðar. Í stuttu máli sýndist mér koma fram sama skinhelgin í máli ráðh. og hjá Sovétmönnum gagnvart Norðurlöndum. Öll var ræðan í raun vörn fyrir athafnir Sovétmanna og njósnanet þeirra þótt hann afneitaði með vörunum öllum tengslum við þá þjóð.

Það vantaði heldur ekki skinhelgina í ræðu hv. þm. Stefáns Jónssonar þegar hann var að þakka fyrir að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir skyldi hefja þessar umr. Alveg eins og hæstv. félmrh. kepptist þm. við að afneita öllum tengslum við Sovétríkin og kommúnistaflokka yfirleitt. Þetta er nýja linan hjá Alþb. Hún er til orðin einmitt vegna þess, hversu afleitlega Sovétmönnum hefur vegnað með njósnir sínar á Norðurlöndum að undanförnu, eins og hv. þm. orðaði það.

Svo er í örvæntingu, bæði af þessum hv. þm. og öðrum Alþb.-mönnum, reynt að dreifa athyglinni frá staðreyndum með ágiskunum um njósnir Bandaríkjamanna hér á landi. Um hvað ættu þeir að vera að njósna? Herstöðvar NATO kannske? Umsvif annarra ríkja á sviði hernaðar á Íslandi? Hvað halda menn að — ég veit ekki hvað margir — 70–80 manns á snærum sendiráðs Sovétríkjanna sé að gera hér? Hvað ætli Rússarnir séu að gera?

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson tekur náttúrlega undir þakkirnar líka til hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur. Það hefur aldeilis hlaupið á snærið hjá þeim þm. Alþb. að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir skyldi koma til þings núna þessa dagana. (Gripið fram í.) Já, ég veit að það hefur farið fyrir brjóstið á ykkur Alþb.-mönnum, því var rækilega lýst hér áðan, enda var mjög fróðlegt að heyra af vörum hv. þm. Ólafs Ragnars um frambjóðendur Alþb. á landsfundi Sjálfstfl. Við höfum vitað ósköp vel, sjálfstæðismenn, um áhrif Alþb.-manna á einstaka þm. Sjálfstfl., þá sem ganga erinda þeirra Alþb.-manna með því að sitja í ríkisstj., — ríkisstj. sem er hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni svo þóknanleg sem allir vita, — en með falli frambjóðanda þeirra Alþb.-manna á landsfundi Sjálfstfl. sýnist mér sannast að áhrif þeirra eru ekki meiri í Sjálfstfl. en þegar hefur komið í ljós, og er það vel.

Ýmsir þm. hafa flækst inn í áhrifanet stórveldanna, sagði hv. þm. Ólafur Ragnar. Og hann hampaði hér skjölum. Í fyrsta lagi var hann með ályktun um Ísland, held ég að að hann hafi þýtt það, og í öðru lagi leiðbeiningarit fyrir starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi. Við fengum loforð frá hv. þm. um að fá ljósrit, en að vísu ekki nema af öðru skjalinu. Við erum þakklátir fyrir það að sjálfsögðu. Mér sýnist þetta sýna að það eru stundaðar einhverjar njósnir hér á Íslandi, og mér sýnist það jafnframt sýna að formaður þingflokks Alþb. hafi þarna einhver ítök og sýnilegan góðan aðgang að þeim sem ná í plögg sem þessi. Það væri kannske út af fyrir sig athugunarefni. Að sjálfsögðu skiljum við vel að þingflokksformaðurinn getur ekki gefið upp nafn þess sem skjalið útvegaði. Það er aldrei gert í svona málum. Við vitum það ósköp vel. Ekki a. m. k. við þessar aðstæður og náttúrlega alls ekki þegar búist er við áframhaldandi útgáfu á plöggum sem þessum. Þá fara menn náttúrlega ekki að gefa upp heimildarmenn sína. Þetta skiljum við afskaplega vel og þurfti ekki að taka það fram.

En það var þetta með núllgrunnsáætlunina, sem hv. þm. lýsti hér með dramatískum hætti. Ég hélt satt að segja að sjálfur hagfræðingurinn vissi að núllgrunnsáætlunin er ekkert annað en hagfræði og hún á ekkert skylt við samskipti Bandaríkjamanna og Íslendinga — ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér sýnist einhvern veginn eins og þm. viti ekki að núllgrunnsáætlunin er notuð í dag af fjárlaga- og hagsýslustofnuninni undir öruggri forustu flokksbróður hans, hæstv. fjmrh. Ragnars Arnalds. Hvað er maðurinn að gera? Er hann kominn inn í njósnanet Bandaríkjamanna, sjálfur fjmrh., með því að vera að fikta eitthvað með núllgrunnsáætlunina sem hlýtur að vera alveg stórhættuleg fyrst hennar er getið í því leyniplaggi sem þm. hefur undir höndum frá bandaríska sendiráðinu? (Gripið fram í: Það sýnir best að þm. er saklaus og veit ekki um núllgrunnsáætlunina ef hann heldur að hún sé notuð af fjmrh.) Ég mælist eindregið til þess við þm., að hann fái viðtal við fjmrh. sinn og athugi hvort það er ekki eitthvað til í því að hún sé notuð í hagsýslustofnuninni.

Það er rétt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að við þm., sem höfum sótt þingfundi þingmannasambands Atlantshafsríkjanna, höfum ekki tekið þátt í störfum hermálanefndarinnar. Ég er hv. þm. alveg sammála um að við eigum að taka þátt í störfum þeirrar nefndar. Það mun áreiðanlega verða ráðin bót á þeirri vanrækslu sem hefur verið uppi á undanförnum árum af hálfu þeirra þm. sem þessa fundi hafa sótt. En það er ýmislegt fleira sem skortir í lífsreynslu okkar, þ. á m. verð ég að viðurkenna að ég hef aldrei sofið í flugvélamóðurskipi og ég finn sárt til þess, miðað við þá lýsingu sem við fengum hjá þm. á því, hvað það hlýtur að bæta mikið á allan hátt þó að það væri ekki nema ein nótt.

Eitt þarf ég að leiðrétta hjá þm. Hann var að tala hér um að Bandaríkjamenn hefðu verið neyddir að samningaborðinu vegna þrýstings frá friðarhreyfingunum. Þetta er ekki rétt. Ákvörðunin um viðræður um takmörkun kjarnorkuvopna er ekki tekin vegna einhverrar kröfu frá friðarhreyfingunum. Hún er tekin á fundi Atlantshafsráðsins 12. des. 1979 um leið og ákvörðunin um endurnýjun kjarnorkuvopnanna er tekin. Þetta eru staðreyndir. Þessar viðræður munu hefjast 30. þ. m. Þar kom hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ekkert nærri þótt hann hafi víða farið um lönd og sagt mönnum fyrir verkum.

Og svo þetta: Ég get ekki að því gert, að mér þykir hálf-óyndislegt þegar hv. þm. eru að nugga sér upp við kirkjuna þegar talað er um friðarhreyfinguna. Það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar að kommarnir á Íslandi skýldu sér sérstaklega á bak við kirkjuna.

Herra forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu. Niðurstaða mín af atburðum síðustu vikna er þveröfug við þá sem þeir Alþb.-menn komast að. Við þurfum að vera betur á verði en nokkru sinni fyrr vegna yfirgangsstefnu Sovétmanna. Njósnir þeirra í Atlantshafsríkjunum, kjarnorkukafbátarnir um allan sjó, yfirburðir þeirra á hernaðarsviðinu almennt, — allt þetta kallar á aukna árvekni Vesturlanda gagnvart aðsteðjandi ógnunum.