12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

76. mál, afnám tekjuskatts af almennum launatekjum

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þm. Alþfl. hafa margsinnis á undanförnum árum flutt hér á Alþingi frv. til l. sem ganga út á efni þessarar till. til þál., nefnilega afnám tekjuskatts af almennum launatekjum. Því miður hafa þær hugmyndir ekki enn náð fram að ganga.

Oft hefur verið um það fjallað, hvernig það megi vera að jafnaðarmannaflokkar hafi lagt áherslu á þetta efni svo tekjujafnandi sem tekjuskatturinn hljóti að vera. Alþýðuflokkurinn íslenski er raunar alls ekki sá fyrsti af jafnaðarmannaflokkum sem lagt hafa áherslu á þetta. Sá talsmaður jafnaðarmanna í Evrópu. sem fyrstur hóf umræður um þetta, mun vera Trygve Bratteli, fyrrv. forsrh. í Noregi. Hann lagði raunar grundvöllinn að röksemdarfærslu í þessa veru, nefnilega þann að þegar þjóðfélagsgerðin öll hefði breyst eins og hefur gerst bæði hér í Skandinavíu og víðast hvar í Vestur-Evrópu á undanförnum áratugum, þá þjónaði tekjuskatturinn alls ekki því jöfnunarhlutverki sem honum var ætlað í upphafi.

Þessar röksemdir hafa verið margraktar á undanförnum árum og hv. flm. kom raunar að þeim í sínu framsöguerindi. En kjarni málsins og ástæðan fyrir því, að jafnaðarmenn hafa lagt áherslu á þetta mál og í raun og veru snarskipt um skoðun frá því sem var fyrir 10–15 árum, er einnig sú — á þetta lagði hv. flm. einnig áherslu og mig langar til að undirstrika það enn frekar — að tekjuskatturinn hér á Íslandi er nær eingöngu launamannaskattur. Ástæður fyrir því, sem hann nefndi, eru mismunandi aðstæður manna til undanskota frá skatti, til skattsvika. Þessu hefur auðvitað verið marglýst bæði hér á hinu háa Alþingi og víðar í þjóðfélagsumræðum á undanförnum árum. En einhvern veginn hefur það verið svo, að sitjandi valdakerfi á hverjum tíma hefur verið feimið og viljalaust að kveða upp úr með aðferðir til að vinna gegn skattsvikum.

Ég er sammála hv. flm. um að það, hversu tekjuskatturinn hér á Íslandi hefur komið ójafnt niður og að hann hefur verið skattur launamanna fyrst og fremst, er mjög veigamikil, ef ekki höfuðröksemd fyrir því að stíga það spor að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum, hvernig svo sem þær eru skilgreindar. Það er auðvitað vandasamt mál og þarf að vera víðtækara og nákvæmara en gert er ráð fyrir í þessari grg. Þetta er sagt til þess að minna á það, að á undanförnum árum hafa verið flutt — ekki till. til þál., heldur beinlínis lagafrv. sem lotið hafa að þessum efnum, en hafa ekki náð fram að ganga. Engu að síður er full ástæða til að fagna fram kominni till. til þál. og vona að þar komi að þetta mál nái fram að ganga.