12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þessar umr. eru nú orðnar nokkuð langar og ég skal reyna að tengja þær ekki að marki. Samt langar mig til þess að segja hér fáein orð.

Hér hafa verið látin falla nokkuð þung orð í garð stórvelda eða risavelda. Ég geri ráð fyrir að þau standi það af sér svo að við þurfum ekki að hafa áhyggjur þeirra vegna. En það hefur bryddað á því í þessum umr., að menn hafa látið að því liggja að heimboð og heimsóknir til þessara risavelda og kannske annarra þjóða almennt væru af hinu illa. Ég er þessu sjónarmiði andvígur. Ég held að það sé eitt hið þýðingarmesta, að menn hittist og talist við, að menn, sem hafa mismunandi skoðanir og mismunandi sjónarmið, beri saman bækurnar. Ég held að það sé alltaf fræðandi að koma til annarra landa og sjá, hvað þar gerist, og fá upplýsingar. Ég álít að slíkt eigi ekki að þurfa að vera skaðlegt, einkanlega þegar menn ganga til þessara ferða vitandi vits um að þeir þurfa ekki að kokgleypa allt sem þeim er sagt þar, vegna þess að þeir vita að þeir mæta þar alltaf einhverjum áróðri. Ég held að Íslendingar verði að hafa þann manndóm og það stolt að geta tekið á móti slíku með viðeigandi hætti. Einu sinni sagði góður Íslendingur: „Heyra má ég erkibiskups boðskap“, og það held ég líka að við eigum að segja við menn af öðrum þjóðum, þó að ég vilji ekki á hinn bóginn gera framhald orða hans að mínum, þ. e.: „staðráðinn er ég í því að hafa hann að engu“. Þvert á móti eigum við að vega og meta það sem við heyrum og segja álit okkar á því. Við eigum ekki að vera neitt feimnir við það eða haldnir neinni minnimáttarkennd. Ég veit það vel, að sjálfsagt lætur rödd okkar í eyrum þessara risavelda sem lítið tíst, en tíst samt og getur haft einhver áhrif.

Ég er þess vegna mjög andvígur því að menn séu að hugsa til þess að byggja upp einhvern Kínamúr utan um okkur. Við eigum að taka vel heimboðum, hvort sem er til Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna, fara þangað og skyggnast um og draga okkar lærdóma af því sem fyrir augu ber. Við vitum að okkur verður fyrst og fremst kannske sýnt það sem þykir þess eðlis, að æskilegt sé að við sjáum það, og okkur verður kannske fyrst og fremst sagt það sem þeir gera ráð fyrir að hafi áhrif í þá átt að hneigja okkur til þeirra skoðana.

Sem sagt, við skulum umgangast útlendinga sem frjálsbornir menn. Við skulum ekki fylgja neinni þjóð í utanríkismálum í blindni. Við skulum segja hverjum sem er okkar skoðun. Það er trú mín, að ekki verði minni virðing borin fyrir okkur ef við erum ekki alltaf jábræður þeirra sem við tölum við, heldur segjum okkar skoðun hreinskilnislega. Það verð ég t. d. að segja af reynslu minni af Bandaríkjamönnum, að þeir eru hreinskilnir menn. Mér liggur við að segja að stundum finnist manni þeir barnalega hreinskilnir. En ég hygg að þeir kunni að meta hreinskilni líka, ef þeim er sagt alveg hreinskilnislega hverja skoðun við höfum á málum.

Um stefnu Íslands í utanríkis- og öryggismálum hefur hér verið rætt og það er gott. Það er mikið mál og þegar allt kemur til alls eru kannske örlög þessarar þjóðar og framtíð komin undir framvindu þeirra mála öðrum málum fremur. Það er því vissulega þess virði að þeim málum sé gaumur gefinn og Alþingi Íslendinga láti sig þau mál varða og ræði þau. Stundum hefur mér jafnvel virst ríkja hér á Alþingi of mikið tómlæti um þau mál.

Auðvitað er ekki sama hvernig um málin er rætt, og kannske hættir okkur til að fara út í nokkuð mikið pex í sambandi við slík mál. En ég álít að við eigum fyrst og fremst — og það hefði átt að vera kjarni þessarar umr., fyrir utan það tilefni sem hratt henni af stað — að gera grein fyrir og gera okkur grein fyrir hver ætti að vera stefna Íslands í utanríkis- og öryggismálum. Auðvitað þarf alltaf að hafa vakandi auga í þeim efnum. Þar verður áttavitinn ekki stilltur í eitt skipti og látinn eiga sig. Það verður auðvitað að gefa gaum að vandamálum, sem uppi eru á hverjum tíma, og taka afstöðu samkv. því.

Að þessu leyti var í ræðu hæstv. heilbrmrh. komið í raun og veru að kjarna málsins, þar sem hann fjallaði um stefnuna í öryggismálum og sagðist vera henni andvígur, hún væri röng. Það er ekkert leyndarmál, að þessi er skoðun hans. Ég er alveg á öndverðum meiði í þessu efni. Ég held að við höfum í okkar utanríkis- og öryggismálum valið skynsamlegustu leiðina sem völ er á. Við verðum að athuga það, að valkostir okkar í þeim efnum eru takmarkaðir vegna legu landsins. Ég held að það sé ekki rétt og hefði ekki verið heppilegt að Ísland væri hlutlaust. Lega þess er þannig. Auk þess vitum við að hlutleysi hefur aldrei verið virt af ófriðaraðila þegar hann að eigin mati telur sér henta að brjóta það. Þess mætti nefna ótal dæmi. Þrátt fyrir það eru til hlutlaus ríki, við skulum segja eins og Svíþjóð, og það getur verið ágætt. Ég tel heppilegt að það séu til hlutlaus ríki á milli þessara tveggja bandalaga. En til þess að hlutleysi þeirra verði virt ef til átaka kæmi — það getur vel verið að það verði virt — þarf annað tveggja að vera fyrir hendi, að þau hafi sjálf svo sterkar varnir að þau geti varið sitt hlutleysi, eða þá hitt, að báðir aðilar telji það henta sínum hagsmunum að hafa einhver hlutlaus svæði á milli sín. En við erum bara ekki þannig í sveit settir. Þó okkur líki það illa þýðir ekki annað en að horfast í augu við staðreyndir í því efni. Við erum á krossgötum.

Ef til átaka kæmi á milli stórvelda held ég því miður að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að við mundum ekki látnir í friði. Þá er spurningin hvort við teljum ekki heppilegra að hér sé þó fyrirstaða og varnir sem hafi þau áhrif ef til vill, skulum við segja, á gagnaðilann, að hann láti vera að leggja í þá áhættu að gera árás. Í þessum efnum er vitaskuld ekkert öryggi til og enginn getur fullyrt neitt í þessum efnum. En menn verða að draga þær ályktanir, sem þeir telja skynsamlegastar, af líkum sem fyrir hendi eru. Auðvitað geta menn lagt mismunandi mat á líkur og gera það. En stefna Íslands í öryggismálum er þessi, að við erum í Atlantshafsbandalaginu og tryggjum varnir okkar með samningi við Bandaríkin. Jafnframt er það viðhorf Íslands í öryggismálum, sem ég hef, held ég, lagt áherslu á í hverri einustu ræðu sem ég hef flutt á alþjóðavettvangi, að þetta víg. búnaðarkapphlaup á milli risaveldanna mundi enda með skelfingu ef ekki verði tekið í taumana. Og það er ekki aðeins að það muni enda með skelfingu, heldur er það laukrétt, sem hv. þm. Eiður Guðnason benti á, að það er nánast svívirðing að verja þeim ósköpum til vígbúnaðar sem raun ber vitni þegar milljónir manna svelta í heiminum. Slíkt fær ekki staðist, slíki er ekki stjórn af viti á heimsmálunum. Þess vegna höfum við alltaf lagt á það áherslu að það yrði að stefna að afvopnun, gagnkvæmri afvopnun — eða kannske réttara sagt gagnkvæmri takmörkun á vígbúnaði, því að ég er ekki svo bjartsýnn að það gerist skjótt, að með öllu verði afvopnast.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að kjarninn er þessi, að það eru risaveldin sem verða að setjast niður og semja um gagnkvæma afvopnun. Annað er alveg óraunhæft vegna þess að mikill hluti af vopnabirgðum heimsins er í vopnabúrum þessara tveggja risavelda. Ef þau taka ekki þátt í þessu og semja um þetta, þá er framtak annarra, þó það væri fyrir hendi, í þessu efni haldlítið. Á þetta hefur Ísland einmitt lagt áherslu, og á þetta skulum við hver og einn leggja áherslu í þeim viðtölum sem við kunnum að eiga við menn frá öðrum hvorum þessara aðila. Þetta er það sem við viljum og það skulum við segja þeim alveg umbúðalaust. Og þess vegna bind ég vonir við viðræður þær sem hafa verið ákveðnar milli risaveldanna tveggja og hefjast 30. þ. m. Við skulum vona að þær beri árangur. Beri þær ekki árangur er dökkt fram undan, þá er alvara á ferðum. En ef þar tækist að stíga einhver skref í rétta átt þarf að endurvekja slökunarstefnuna og umfram allt að byggja upp traustvekjandi aðgerðir, því að tortryggnin, sem á milli þessara aðila ríkir, er ekki lítil undirrót að því sem er að gerast. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að Madrid-ráðstefnan beri árangur.

Í stuttu máli má segja að þeirri stefnu, sem ég hef lítillega drepið hér á, fylgjum við Íslendingar fram þar sem við getum og leggjum okkar lóð hvarvetna þar sem við getum til styrktar þessari stefnu. Um einhliða afvopnun þarf ekki að tala. Hún er auðvitað uppgjöf. Við þurfum að læra af reynslunni og sögunni. Ég held að við getum dregið okkar lærdóma af henni. Vilji menn ekki gera það gæti svo farið að menn þyrftu að endurlifa söguna. Það gæti orðið mönnum dýrkeypt. Þessari stefnu skulum við hvarvetna stuðla að. Auðvitað höfum við það jafnan í huga, að við erum aðilar í bandalagi og verðum að fullnægja og viljum fullnægja þeim skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur í því bandalagi. Það eru þess vegna engin tíðindi að ég er í þessum efnum alveg á öndverðum meiði við hæstv. félmrh. og get ekki fallist á þau ummæli sem hann lét falla, að herstöðin skapaði okkur ekki öryggi, heldur hættu. Ég held að þetta sé mesta þversögn.

Ég sagðist ekki ætla að lengja þessa umr. mikið. En ég vil aðeins leggja áherslu á þessi höfuðatriði í okkar utanríkis- og öryggisstefnu. Jafnframt vil ég lýsa því yfir að ég ætla ekki að ræða hér um kjarnorkulaus svæði né nifteindasprengju. Það liggur fyrir formleg fsp. frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni um þau efni og ég mun ræða þau í sambandi við hana.

Friðarhreyfingar eru auðvitað góðar ef þær eru einlægar. En það verður að segjast, að þegar t. d. friðarnefndir hafa komið hingað frá Sovétríkjunum hafa þær lagt mikla áherslu á friðargöngurnar í Vestur-Evrópu, en það verður fátt um svör ef þær eru spurðar um friðargöngur fyrir austan. Ég hygg að þær fari ekki fram. Þeir telja þess ekki þörf af því að þeir treysti sínum stjórnvöldum svo vel að það komi aldrei til mála að þeir muni hefja stríð, þeir hafi haft reynslu af stríði. Rétt er það. Það hafa fleiri haft reynslu af stríði. Það var ekki aðeins í Rússlandi sem menn féllu. Og sem betur fer muna margir síðustu heimsstyrjöld, sumir jafnvel tvær síðustu heimsstyrjaldir. Við skulum vona að það haldi aftur af mönnum og menn vilji ekki leggja út í slíkt. Ég hef þá von a. m. k. að menn hugsi sig rækilega um áður en þeir stofna til slíks.

Í sambandi við það, hvort stefnan í öryggismálum sé röng eða ekki, get ég bætt því við, sem reyndar hefur áður komið fram, að á þeim árum, sem NATO hefur starfað, hefur ekki orðið stríð í Evrópu nema fyrir austan tjald, ef þeir vilja kalla það styrjaldir sem þar hafa átt sér stað. Á þessum tíma hefur NATO ekki farið með stríð á hendur neinni þjóð og það stendur ekki til. Þetta er þó tími sem nálgast núna að vera tvöfalt lengri en leið á milli fyrri og síðari heimsstyrjaldar. Við skulum því ekki gera lítið úr árangri þessa varnarbandalags.

Hv. þm. Árni Gunnarsson villtist á stjórnarsáttmála og las stjórnarsáttmála þeirrar stjórnar sem ég stóð fyrir. Ég afsaka það náttúrlega þó mönnum sé sá stjórnarsáttmáli hugstæðari. En vegna þess að það er dálitið annað í þessum stjórnarsáttmála en var í hinum um utanríkismál, þá ætla ég nú, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það sem stendur í þeim stjórnarsáttmála sem nú gildir. Þar segir svo:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að framfylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu. Í því sambandi verði þátttaka Íslendinga í starfi Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandaráðs sérstaklega styrkt.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir samningum við Norðmenn til þess að tryggja fiskveiðiréttindi Íslendinga á Jan Mayen svæðinu og fullnægjandi vernd fiskstofnanna þar. Jafnframt verði hafsbotnsréttindi Íslendinga á svæðinu tryggð.

Öryggismálanefndin hraði störfum sínum og gefi reglulegar áfangaskýrslur um störf sín.

Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstjórnarinnar.

Undirbúið verði öflugt átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

Athugað verði hvort rétt sé að breyta því skipulagi að utanrrn. hafi yfirstjórn allra málaflokka á Keflavíkurvelli.“ Í þessum stjórnarsáttmála stendur nefnilega ekki stafur um það, að það þurfi samþykki allrar ríkisstj. fyrir meiri háttar framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Það stóð í mínum stjórnarsáttmála. (ÓE: Hvað með neitunarvaldið?) Það hefur engin áhrif í þessu sambandi. Það gildir ekki um þetta. Þegar þetta er borið saman við það, sem áður gilti, er alveg ljóst að það er niður fallið. Þar fyrir hafa framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli verið í svipuðu horfi eða magni og að undanförnu. Þar hefur verið um að ræða einstakar stórframkvæmdir. Þar er auðvitað hitaveitan langsamlega mest. Utanríkismálanefnd hefur séð lista yfir framkvæmdir og þær eru í sjálfu sér ekkert leyndarmál. Það er rétt að þarna stendur ekkert um að Ísland skuli vera áfram í Atlantshafsbandalaginu og að varnarsamningnum við Bandaríkin skuli haldið áfram. En það tel ég að sé samþykki með þögninni alveg ótvírætt. Ekki meira um það.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði langt mál. Sumt mælti hann skynsamlega og ég er honum sammála um að við þurfum að halda vöku okkar í þessu efni. Það er mín stefna að ég vil ekki fyrir fram hafna eða útiloka neinar tillögur sem sjá dagsins ljós og geta hugsanlega stuðlað að þeim stefnumiðum sem við höfum: gagnkvæmri afvopnun og slökunarstefnu. Þær hugmyndir geta reynst fánýtar, en ég tel að við höfum ekki efni á að hafna neinum tillögum óskoðuðum, það er slíkur voði á ferðum og þetta er mikið alvörumál. Hins vegar fór kannske óþarflega langur tími í gulu bókina, af því hún var nokkur uppistaða í hans máli. Ég er alveg ósammála þeirri tilgátu sem kom fram áðan, að hv. þm. hefði brennt á sér fingurna þegar bomban hefði sprungið. Ég held nefnilega að hún hafi alls ekki sprungið, því að þessi skýrsla er ekkert leyndarmál, það kemur nú upp úr kafinu. Að vísu hef ég ekki séð hana áður, ég skal. játa það. En mér er sagt að það geti hver og einn fengið hana afhenta í Menningarstofnuninni. Þm. geta farið þangað og séð hana. (ÓRG: Það vantar blöð í þá sem var afhent í dag.) Nú, þá er sjálfsagt að bera það saman. Hvað sem því líður hefur hv. þm. unnið gagnlegt starf með því að íslenska þetta og útbýta því hér á þingi til þm. og spara þeim fyrirhöfnina með því. Það er þeim til hagræðingar. Ekki meira um það. Ég held líka að ég liti ekki frekar á þessi mál, geymi það þá heldur í sambandi við þær fsp., sem hv. þm. hefur lagt fram, og komi að því þar.

Ég var ekki alveg sáttur með ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Hún var að vísu flutt af trúarhita og sannfæringarkrafti. Nú er hv. þm. ekki hér, því miður. Það er skaði. Ég ætla aðeins að segja fallegt um hana. Eins og alkunna er, þá er þessi hv. þm. ágætt skáld. Mér finnst bera á því að fram komi í hennar stjórnmálaræðum líka nokkur skáldskapur. Sumt af þeim skáldskap er ágætt, en sumt er lakara, eins og gengur. Mér er sagt t. d. að hún hafi sagt í ræðu um daginn, — kannske hefur það verið í umræðunni um stefnuræðuna, ég var ekki viðstaddur, — að hún þyrfti að stíga á tær Framsóknarráðherranna, og þá ekki hvað síst líklega mínar tær, til að halda mér í skefjum í öryggis- og varnarmálum. Þetta þykir mér góður skáldskapur. Ég vona að hún standi sem lengst í þeirri trú, að með því að tipla á tánum á mér ráði hún stefnunni í öryggismálum og geti því unað glöð við sitt og skrifað sína ágætu skáldsögu.

Aftur á móti hefur hún stundum farið með lakari skáldskap, og ég held ég verði nú að nefna þess dæmi af því að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er við og getur athugað það. Í ávarpi, sem hún flutti 20. júní á útifundi á Lækjartorgi og birt er í Þjóðviljanum 25. júní þ. á., segir þessi hv. þm., með leyfi forseta: „Það var fyrst á síðasta þingi að fulltrúi Alþb. í utanrnm. þröngvaði utanrrh. til að afla ákveðinna gagna um framkvæmdir Bandaríkjanna í okkar landi.“ Ég er óánægður með þennan skáldskap. Ég veit ekki betur en ég hafi gert mér sérstakt far um það og sett jafnvel metnað minn í það að reyna að afla allra þeirra upplýsinga sem fulltrúi Alþb. hefur farið fram á í utanrmn. (Gripið fram í: Það hef ég staðfest hér í þingsölum.) Já. En það verður að fyrirgefa skáldum margt. Þetta hefur kannske hljómað vel í eyrum göngumóðra manna þarna á Lækjartorgi. Við skulum láta útrætt um það.

En það var sitthvað í ræðu hennar síðast sem mér líkaði ekki. Ég ætla aðeins að stikla á stóru, nefna tvö eða þrjú atriði.

Hv. þm. vildi ekki fallast á það, að stöðin í Keflavík væri eftirlitsstöð, og spurði þá: Hvers vegna í ósköpunum hafa ekki Norðurlöndin slíkar eftirlitsstöðvar? Þessu er því til að svara, að auðvitað hafa þau slíkar eftirlitsstöðvar. Þessu er þannig fyrir komið, að það er fylgst með kafbátum mjög nákvæmlega á öllu hafsvæðinu. Við skulum segja að kafbátur sé á hafsvæði Noregs fyrst. Þá fylgjast Norðmenn með honum um eftirlitsstöðvar hjá sér þangað til hann kemur að mörkum þar sem eftirlitsstöðin í Keflavík tekur við. Svo getur hann haldið áfram og farið út af því eftirlitssvæði og inn á eftirlitssvæði Breta og þá fylgjast þeir með honum. Þannig er samstarf þessara þjóða um þetta.

Hv. þm. sagði að Bandaríkjamenn hefðu lýst yfir að hér væru ekki kjarnavopn á landi og umhverfis landið. Ég hef lýst því yfir að það væru ekki kjarnavopn á Keflavíkurflugvelli og það hefur verið staðfest af Bandaríkjamönnum. Hins vegar hef ég aldrei nokkurn tíma látið það út úr mér, að það væru engin kjarnavopn í hafinu hér umhverfis okkur. Ég held að það sé ekkert leyndarmál, að þar séu á sveimi kafbátar bæði frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum sem hafa kjarnavopn. Það væri sannarlega æskilegt að hægt væri að ná samningum um að því skyldi aflétt. En þetta haf er stórt og það er opið haf. Það gæti því kannske orðið torsótt. Þetta vil ég sem sagt leiðrétta. Ég hef aðeins sagt þetta um Keflavíkurflugvöll, og það hafa Bandaríkjamenn staðfest, en engar yfirlýsingar hafa verið gefnar út um hafið umhverfis landið.

Þá spurði hv. þm. eitthvað á þá leið, hvort menn væru þau börn að augu þeirra hefðu ekki opnast við atburðina í Karlskrona. En mér fannst þær ályktanir, sem hún dró af þessu, vera dálitið kyndugar, að við ættum að ganga úr Atlantshafsbandalaginu, leggja niður varnarstöðina og lýsa yfir hlutleysi. Ætli það hefði haft nokkur minnstu áhrif á þennan atburð í Karlskrona? Það held ég ekki. Mér sýnist nærtækasta ályktunin, sem draga má af þessum atburði í Karlskrona, vera sú, að hlutleysi sé ekki nein vörn. Það er sú ályktun sem verður að draga af þessum atburði.

Herra forseti. Ég hef kannske syndgað upp á náðina og talað lengur en ég ætlaði, en ég vildi aðeins koma þessu á framfæri um ræðu hv. þm. Ég fagna því vitaskuld að þessar umr. fara fram, vegna þess að hér er um þvílík alvörumál að tefla að við tölum ekki um önnur meiri hér á Alþingi.