12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Á fundi Evrópuráðsins í haust hóf einn ræðumaður ræðu sína eitthvað á þann veg: „Við viljum allir frið. Það eru aðeins heimskingjar og glæpamenn sem ekki vilja frið. Spurningin er bara: Hvernig eigum við að ná friði?“ Mér virðist allir þeir, sem um þessi mál fjalla, á einu máli um það, að friði verðum við að ná. En spurningin er hvernig. Sú spurning er rík í huga manna og þar eru sjálfsagt ekki allir á einu máli.

Í Evrópulöndunum hefur myndast fjöldahreyfing, friðarhreyfing, sem hefur sínar skoðanir á því, hvernig eigi að ná þessum friði. Ég vil segja það, að þessi hreyfing hlaut að verða sett á stofn meðal frjálsra þjóða, eins og ástandið er í heiminum í dag. Í heimi ógnvekjandi vígbúnaðar, þar sem hervopn kjarnorkunnar eru næg til þess að eyða öllu lífi á jörðinni mörgum sinnum, hlaut að verða sett á stofn friðarhreyfing meðal frjálsra þjóða. Í heimi, þar sem staðan í kjarnorkumálum er slík að við erum nánast á tímamótum vegna þess að vígbúnaðarkapphlaupið er að margfaldast, hlaut einmitt að verða sett á stofn slík hreyfing meðal frjálsra þjóða. Ekki hvað síst í heimi þar sem kjarnorkuvopnum er dreift víða og hættan á óhöppum, hættan á því, að jafnvel skæruliðasamtök komist yfir slíkar bombur, fer stöðugt vaxandi, hlaut slík hreyfing að verða sett á stofn. Það kann að vera að mörgum Íslendingum þyki slík hreyfing fjarlæg, en ég hygg að ef uppi væru áform um að setja hér á Íslandi upp eins og þrjátíu, fjörutíu eldflaugar með kjarnaoddum, þá yrði þessi umræða glettilega mikið nálægari Íslendingum eða álíka nálæg og hún er mörgum Evrópuþjóðum nú.

Það er sjálfsagt rétt að þeir atburðir, sem nú hafa skeð í Danmörku, hafa dregið úr trausti manna á þessari hreyfingu. En ég held samt að tortryggni manna sé óþarflega mikil, og það er mitt mat að það sé algjörlega fráleitt að ætla sér að stimpla þessa hreyfingu frjálsra manna í hinni frjálsu Evrópu sem kommúnistíska eða einhverja þjónkun við Rússa. Það er enginn vafi á því að það er mikið skot yfir markið. Ég er alveg sannfærður um að þessi friðarhreyfing á rétt á sér. Og ég er alveg sannfærður um að hún getur unnið mikið gagn. En auðvitað þarf í þeim málum eins og öllum öðrum aðgæslu. Skilji ég markmið þessara friðarhreyfinga rétt eru þær að berjast fyrir gagnkvæmri afvopnun en ekki einhliða.

Strand rússneska kafbátsins hefur auðvitað vakið nokkurt umrót í hugum manna, og það er eðlilegt. Það er áfall fyrir þær afvopnunarviðræður, sem menn eru nú að fara af stað með, og það er áfall fyrir þann málstað, sem menn hafa verið að berjast fyrir um afvopnun, vegna þess að fulltrúar Sovétríkjanna hafa haldið margar ræður um haf friðarins, Eystrasalt, en verða uppvísir að því að vera sennilega með hafið fullt af kjarnorkuvopnuðum kafbátum. Sovétmenn, sem hvað eftir annað hafa lýst yfir stuðningi við kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og vilja til að leggja sitt af mörkum til að koma slíku svæði á, þeir virða ekki hlutleysi meira en það, að þeir eru komnir með kjarnorkuvopnaðan kafbát upp í landsteina í Svíþjóð. Og auðvitað spyrja menn: Er hægt að taka nokkurt mark á orðum þessara manna? Hvaða áform hafa þeir varðandi kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, ef reynt er að lesa á milli línanna í tengslum við þennan atburð sem þarna er? Þetta er auðvitað freklegt brot og þeim mun alvarlegra sem þarna er um að ræða hlutlaust ríki. Þetta sýnir hvers Sovétríkin virða hlutleysið, og það hlýtur að verða okkur Vesturlandabúum mikil lexía að fylgjast með því.

En það er annað sem ekki hvað síst vekur athygli okkar í sambandi við þetta strand, og það er að þessi þrjátíu ára gamli kafbátur skuli vera með kjarnorkuvopn. Það beinir augum okkar að því, að Sovétríkin muni vera vopnuð kjarnorkuvopnum í miklu ríkara mæli en menn hefur órað fyrir áður. Það beinir augum okkar að því, að sennilega erum við umkringd kjarnorkuvopnum í miklu, miklu ríkara mæli en okkur hefur í rauninni dottið í hug.

Enn á ný hlýtur þetta að vekja menn til umhugsunar um það gríðarlega vígbúnaðarkapphlaup sem nú virðist vera í uppsiglingu. Það er erfitt að meta málstaðinn í því sambandi hjá hvorum fyrir sig. En það er alveg augljóst að risaveldin stefna í alveg ævintýralegt vígbúnaðarkapphlaup. Í Bandaríkjunum höfum við miklu, miklu betri möguleika á að fylgjast með því sem er að gerast, vegna þess að þar er tiltölulega opið þjóðfélag og þar fara fram opnar umræður um það sem stjórnvöld hyggjast gera. Við vitum minna um það sem gerist í Sovétríkjunum, en ýmsar vísbendingar sýna okkur þó að það er ekkert vafamál, að þar er geigvænlegur hraði í vígbúnaðarkapphlaupinu.

Það er stefnt að því að setja upp heil kerfi eldflauga í Evrópu, eldflauga með kjarnaoddum, — það er ekkert lítið mál — báðum megin frá, báðum megin járntjalds. Bandaríkjamenn telja sig neydda til þess að hefja smíði nifteindasprengju vegna þeirra gífurlegu yfirburða sem Sovétmenn hafi í skriðdrekaflota sínum í Evrópu. Og allir hafa fylgst með þeim miklu umræðum sem nú hafa orðið um hinar svokölluðu MX-eldflaugar sem Nixon hafði ákveðið að láta hefja smíði á.

Í því sambandi kemur þó einn þáttur sérstaklega fram, sem ég held að Íslendingar verði að hafa augun á. Í kosningabaráttunni lagði Reagan mikla áherslu á að glugginn væri opinn í Bandaríkjunum, opinn fyrir kjarnorkuárás frá Sovétríkjunum. Slagorð hans eða „slogan“ var nánast: „The window of vulnerability“. Þessum glugga verður að loka, sagði Reagan í sinni kosningabaráttu. Og markmiðið var að koma á fót þessum MX-eldflaugum sem geta flogið milli heimsálfa og hitt mark sitt með gífurlegri nákvæmni og eru að sjálfsögðu búnar mjög sterkum kjarnorkuvopnum. En vegna þess að í kjarnorkustyrjöld eru vopnin sjálf skotmörkin, vegna þess að sá, sem hefur kjarnorkuárás, verður að tryggja sér það að skjóta niður kjarnorkuvopn hins til þess að varnarárás þess síðarnefnda grandi honum ekki algjörlega, þá yrðu Bandaríkjamenn — sú áætlun er reyndar frá dögum Carters — að vera með þessar 200 MX-flaugar, sem hann ætlaði að láta smíða, í sífelldum flutningum á milli 4600 steyptra skýla þannig að Sovétmenn gætu aldrei vitað, hvar þessar eldflaugar væru, og þar af leiðandi ekki skotið þær niður, og þar af leiðandi væri unnt að skjóta þeim með mjög litlum undirbúningi á sovétríkin ef árás hæfist.

Þessari áætlun breytti Reagan. Hann helmingaði framleiðsluna þannig að hann ætlar ekki að framleiða nema 100 MX-eldflaugar. En það sem meira er, hann ætlar að hafa þær á ákveðnum stöðum. Og þá þykir mönnum að glugginn sé opinn áfram. En hver er lausnin? Lausnin er auðvitað sú að fara með meira af þeim út í hafið, vera með meira af eldflaugum í kafbátum úti í hafinu, kafbátum sem eru á hreyfingu, þannig að viðkvæmni þeirra fyrir árás sé minni en eldflauga sem geymdar eru á ákveðnum stöðum. Það hefur líka haft sín áhrif, að ákveðin fylki í Bandaríkjunum hafa gjörsamlega mótmælt því að taka við þessum eldflaugum öllum og öllum þeim steypubáknum sem í kringum þær eiga að vera. Lausnin er auðvitað að fara með þetta út í hafið. Og hvaða haf? Hafið hérna kringum okkur. Það eru ekki bara Rússar sem telja sér nauðsynlegt að vera með geysilega sterkan kafbátaflota vopnaðan kjarnorkuvopnum og hafa hann hérna í hafinu kringum okkur, heldur er nánast útlit fyrir að lausnin hjá Bandaríkjamönnum sé sú sama.

Norðurlöndin vilja vera kjarnorkuvopnalaus. Af hverju? Í og með vegna þess að kjarnorkuvopnin eru sjálf skotmörk og þau vita að það er minni hætta á kjarnorkuárás þar sem ekki eru kjarnorkuvopn. Kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd þýða auðvitað það, að vígbúnaðurinn í hafinu í kringum okkur verður meiri báðum megin frá. Þetta hlýtur að vekja Íslendinga til umhugsunar um það, að við erum staddir hér á eyju úti í Atlantshafi með þessa kjarnorkubúnu kafbáta alla í kringum okkur. Og það er enginn vafi á því, eins og þetta er að þróast nú, að það er einmitt þessi vígbúnaður sem á eftir að stóraukast.

Menn tala að vísu dálítið um að nokkur hætta sé á að í þessu vígbúnaðarkapphlaupi verði farið með kjarnorkuvopnaðar eldflaugar út í geiminn, að geimskutlan, sem nú er að fara sína aðra ferð, muni auðvelda mjög flutning stórra hluta út í geiminn og að Rússum verði ljóst að þeir verði að koma sér upp slíku farartæki líka. Ég vil aðeins biðja menn að staldra andartak við og velta þeim möguleika fyrir sér, að farið verði með eldflaugar með kjarnaoddum í einhverjum miklum mæli út í geiminn og þar fari deiluaðilar að miða þeim hverjir á aðra. Það er auðvitað svo skelfileg tilhugsun að ekki bara í ljósi þess, heldur alls dæmisins hljóta menn að skilja það að stofnaðar eru friðarhreyfingar. Ég held að menn hljóti að sjá að ógnunin af þessu öllu saman er geigvænleg.

En hvað eiga Íslendingar að gera? Hvað eiga Íslendingar að gera með alla þessa kafbáta í kringum sig, vopnaða eldflaugum með kjarnaoddum? Hvað eiga þeir að gera þegar Bandaríkjamenn segja heima hjá sér í sínum ríkjum: Við viljum ekki hafa þetta hjá okkur. Það er miklu betra að hafa þetta á kafbátum úti í hafi, norður við Ísland. Hvað eigum við að gera þegar við horfum upp á alla þessa rússnesku kafbáta, sem hér eru í kringum Ísland vopnaðir eldflaugum með kjarnaoddum? Þá er jafnvel að reka upp á land í Svíþjóð. Hvað eigum við að gera þegar Norðurlöndin segja: Við viljum hafa kjarnorkuvopnalaust svæði hjá okkur. Við viljum ekki eiga von á svona árás á okkur. Það verður bara að hafa þetta á kafbátum þarna út við Ísland. Hvað eiga Íslendingar að gera við því núna? Sjá menn ekki hvert þetta stefnir? Íslendingar verða auðvitað að láta til sín heyra í þessu máli. Það er alveg útilokað fyrir okkur hér úti í hafi að una slíkri þróun mála. Það er þess vegna mín skoðun að Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, hafi hitt naglann nákvæmlega á höfuðið þegar hann sagði: Íslendingar eiga að krefjast þess að sett verði upp ráðstefna þjóðanna þar sem rædd verði afvopnun á Norður-Atlantshafi.

Nú skal ég fyrstur manna viðurkenna að það er ekki líklegt að af slíkum tillöguflutningi yrði mikill árangur á stuttum tíma. Ég skal fúslega viðurkenna það, að afvopnunarviðræður hafa yfirleitt ekki borið svo mikinn árangur að við þyrftum að reikna með því að geta í einhverjum flýti friðað Atlantshafið hér í kringum okkur. Málin snúa ekki þannig. Hins vegar erum við í þeirri stöðu, að við hljótum að vekja athygli á því, að lífi þjóðarinnar er stefnt í voða með þessum vígbúnaði öllum í kringum okkur. Það má ekki liðast að vígbúnaðarstefna hinna risaveldanna taki þá stefnu að færa þetta allt yfir í hafið hér í kringum okkur. Það er alveg sama þó að við lýsum Ísland kjarnorkuvopnalaust. Í slíkri styrjöld yrði auðvitað skotið á þessa kjarnorkuvopnuðu kafbáta. Ég ætla ekki að reyna að rekja hvaða áhrif það kynni að hafa á fiskmiðin við Ísland að fá einhverjar slíkar sprengjur hér eða bara eitt óhapp í einum slíkum kafbáti, þegar þeir eru komnir kannske hundruðum saman umhverfis landið, — hvaða áhrif það kynni að hafa á lífsafkomu íslensku þjóðarinnar eða hvort yfir höfuð yrði byggilegt á þessu landi eftir slíkt.

Og þá vaknar auðvitað spurningin: Hver mun vekja athygli á þessari hættu ef Íslendingar gera það ekki? Hver á að hafa frumkvæðið að því að berjast fyrir að þessari stefnu verði breytt? Það verða Íslendingar að gera sjálfir. Íslendingar verða þess vegna að hefja sína raust á málþingi þ jóðanna og lýsa yfir að þeir geti á engan hátt unað þessari þróun mála, þessi þróun mála stefni allri tilveru íslensku þjóðarinnar í hættu, hvorki meira né minna. Við eigum að krefjast þess, að haldin verði ráðstefna um afvopnun á Norður-Atlantshafi. Við eigum jafnvel að boða til hennar sjálfir. Við getum skýrt það út að það er framkvæmanlegt að friða Norður-Atlantshafið. Það er framkvæmanlegt vegna þess að auðvelt er að setja upp eftirlitsstöðvar sem fylgjast nákvæmlega með ferðum kafbáta um hafið. Eftirlitsstöðvarnar gætu vel verið undir alþjóðastjórn. Þær gætu tilkynnt allar niðurstöður reglulega til alþjóðastofnunar sem reglulega gæfi öllum upplýsingar um ferðir þessara kafbáta sem vita vildu. Íslendingar gætu að talsverðu leyti annast slíkt eftirlit sjálfir, enda eiga þeir allt í húfi.

Það kann að vera að mönnum þyki ekki líklegt að það verði hægt að fylgjast mikið með þessu. En ég fullyrði að það er ekki langt í það, að fylgjast megi mjög náið með ferðum allra kafbáta hér í kring, vegna þess að einmitt með þeirri þróun, sem nú er að verða í geimvísindum og með geimskutlunni, verður komið hér upp yfir okkur gervihnattaneti sem með innrauðri myndun mun geta fundið þessa báta nánast alla og fylgst með hvað er að gerast,

Talið er að þess sé ekki langt að bíða að slíkt gervihnattanet geti kortlagt nánast allar auðlindir jarðarinnar, slíkt gervihnattanet geti fylgst ekki bara með fiskstofnunum við Ísland, heldur göngum stofnanna, og að hægt verði að segja til hvar þorskurinn er hverju sinni, á hvaða leið hann er og hér um bil hver fjöldinn er. Þess vegna held ég að það sé ekkert gríðarlega langt í að við getum með slíkum tækjum fylgst nákvæmlega með ferðum um Atlantshafið. Þess vegna held ég að slíkt eftirlit sé raunhæft. Það er algjörlega útilokað fyrir Íslendinga að una þeirri þróun sem nú er að verða í vígbúnaði, þar sem viðkomandi þjóðir vilja í auknum mæli losna við þennan vígbúnað h já sér og færa hann yfir í hafið hérna í kringum okkur.

Það kann að vera að einhver segi: Við erum nú ekki nema 230 þúsund manns og ekki ráðum við gangi heimsmála. Jafnvel þó við krefðumst slíkrar ráðstefnu er ekki mikils árangurs að vænta. Kannske þýðir þetta ekki neitt. Við getum engum ógnað. En við gætum kannske sannfært einhverja, vegna þess að kjarnorkuvígbúnaðurinn, svo geigvænlegur sem hann er núna, er ekkert einkamál risaveldanna, langt frá því. Hann er mál alls mannkynsins. Hann er mál smáþjóðanna ekki síður en stórþjóðanna. Og ég er þeirrar skoðunar, að einmitt smáþjóðirnar verði að taka höndum saman og knýja risaveldin til afvopnunar. Íslendingar, sem eiga sér þá sögu að hafa sjálfir sótt frelsi sitt og sjálfstæði í hendur miklu stærri þjóða með ræðuhöldum og samningum, eiga ekki að láta fortíðina hræða sig í þessu efni. Íslendingar áttu engan Kossuth eða Garibaldi, sem óð fram með vopnum og vígbúnu liði, til þess að berjast fyrir frelsi þjóðarinnar. Þeir áttu sinn Jón Sigurðsson og sína menn sem náðu okkar frelsi með rökstuðningi, málflutningi, ræðuhöldum og samningum. Þess vegna eiga sporin aftur í tímanum ekki að hræða. Íslendingar eiga sjálfir að taka frumkvæði í þessum málum. Þeir eiga að krefjast afvopnunar á Norður-Atlantshafi og þeir eiga að gera öllum þjóðum grein fyrir þeirri gífurlegu hættu sem nú stefnir að tilveru íslensku þjóðarinnar með þeim vígbúnaði sem er í kringum okkur. Ég held að það mikið sé í húfi að ekki verði lengur beðið. Íslendingar eiga fyllilega að treysta sér í þann málflutning sem fyrir höndum er einmitt í þessu dæmi. Sagan sýnir það. Og þarna erum við vissulega að tala fyrir rödd lífsins.