15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að koma fyrirvaralítið með fsp. til hæstv. fjmrh., en það er gert með samþykki hæstv. ráðh.

Dagblöðin hafa undanfarið skrifað um vandamál sem sköpuðust í Tollvörugeymslunni í Reykjavík nýlega við það að sá eini tollvörður sem þar hefur starfað við stærstu tollstöð landsins undanfarin 6 ár, var fluttur úr starfi sínu við fyrirtækið án þess að annar tollvörður eða aðrir kæmu þar til starfa í hans stað. Ég vil taka það fram, að ég er hæstv. fjmrh. þakklátur fyrir hvernig hann hefur tekið á þessu máli, og eins og hv. þm. geta lesið í blöðunum í dag er sjálft vandamálið leyst á mjög viðunandi hátt fyrir Tollvörugeymsluna og alla aðila. Ég vil undirstrika að í öll þau 20 ár, sem Tollvörugeymslan hefur starfa og haft mjög náið samband að sjálfsögðu við tollgæslustjóra og tollstjóraembættið, hefur þar verið gott og skuggalaust samstarf. En út af þessu virðist nú ætla að bregða og ég vil vitna — með leyfi hæstv. forseta — í viðtal í dagblaðinu Tímanum 13. okt. s. l., en þar segir Kristinn Ólafsson tollgæslustjóri eftirfarandi — og ég les þá aðeins það sem ég vil undirstrika í greininni, en ekki alla greinina, — en hann segir þar:

„Þeir hjá tollvörugeymslunni geta haft lokað eins lengi og þeim sýnist eða lagt niður fyrirtækið án þess að það komi á nokkurn hátt við tollgæsluna.“

Þetta eru ummæli tollgæslustjóra, og ég vil taka það fram, að að mínu mati og ég hugsa fleiri talar hér sá maður sem fer með stjórn tollgæslunnar í landinu á vegum fjmrh. og verður því ekki hjá því komist að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort þessi fullyrðing tollgæslustjóra sé töluð í hans umboði og í samræmi við skoðanir hans sem æðsta yfirmanns tollgæslunnar í landinu. Ef ekki, þá vil ég undirstrika að mér finnst rétt að gera þær kröfur til hæstv. ráðh. að hann geri grein fyrir því, hvort hann hafi gert ráðstafanir til að þessi embættismaður dragi ummæli sín til baka og gæti þess í framtíðinni að gefa ekki yfirlýsingar sem þessa nema í samráði við fjmrh. eða rn. hans sem embætti tollgæslustjóra heyrir undir.

Ég ætla ekki að sinni að gera fleiri fsp. Þær voru upphaflega tvær sem ég ætlaði að gera, en vegna upplýsinga, sem hæstv. ráðh. hefur nú gefið mér, ætla ég aðeins að biðja hann um að sjá til þess, að eftirfarandi ummæli tollstjóra verði með í þeirri opinberu rannsókn sem mér skilst að tollstjórinn í Reykjavík hafi óskað eftir vegna ummæla þess tollþjóns sem lét af störfum og ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að vitna hér í, úr því að það er þegar búið að biðja um opinbera rannsókn. Í lok viðtals, — það er langt viðtal sem ég ætla ekki að lesa upp, — en í lok viðtals við Tímann miðvikudaginn 14. okt. s. l. segir þessi umræddi tollvörður:

„Ég var í ónáð hjá tollstjóranum, bæði vegna félagsstarfa og að mínu mati fyrir að taka smygl sem ekki mátti taka.“

Tollstjórinn í Reykjavík hefur þegar, að mér skilst, beðið um opinbera rannsókn á þessum ummælum, og ég ætla að fara hér fram á að hæstv. fjmrh. láti á sama tíma kanna þau ummæli tollstjóra, Björns Hermannssonar, sem hann lætur hafa eftir sér í Tímanum í dag og snerta launagreiðslur til þess tollvarðar sem hefur verið s. l. 6 ár í Tollvörugeymslunni, einn af fulltrúum tollgæslunnar, en þau eru — með leyfi hæstv. forseta — á þessa leið og eru með fyrirsögn sem þm. geta séð að segir ekki lítið: „Þáði laun sem honum voru með öllu óheimil.“ Þetta er fyrirsögnin. Greinin gefur til kynna eins og fyrirsögnin að viðkomandi tollþjónn hafi þegið peninga frá Tollvörugeymslunni í heimildarleysi, að Tollvörugeymslan hafi verið að múta manninum eða gera eitthvað slíkt. Ég óska eftir því við hæstv. ráðh., að hann láti þessi ummæli tollstjóra verða með í þeirri opinberu rannsókn sem fram á að fara á ummælum Matthíasar Andréssonar tollþjóns.

Ég vil með nokkrum orðum skýra það sem tollstjóri á hér við. Nú er það svo að opinberir starfsmenn vinna yfirleitt skemmri vinnutíma en almennt gerist í fyrirtækjum á vinnumarkaðinum. Tollvörugeymslan er því opin fleiri tíma á dag en tollgæslan, en Tollvörugeymslan er óstarfhæf ef tollgæsla er ekki á staðnum. Fyrir þann mismun á tíma opinberra starfsmanna og almenna vinnumarkaðarins fékk þessi maður að sjálfsögðu greidd laun. En ég skal viðurkenna að tollstjóri fékk ekki 20%, sem getið er um, af þessari eftirvinnugreiðslu til viðkomandi aðila. Hér á sér því miður stað deila sem Tollvörugeymslan á enga aðild að. Við ráðum ekki starfsmenn og ráðum ekki yfir starfsfólki Tollvörugeymslunnar, en við erum með visst þjónustuhlutverk sem Tollvörugeymslan hefur gegnt á þann hátt þau 20 ár, sem hún hefur starfað, að tollgæslan hefur séð ástæðu til þess að fækka tollvörðum niður í það að hún telur ekki þörf á neinum tollverði til eftirlits með vöruflutningum, hvorki inn né út. En við í Tollvörugeymslunni viljum ekki axla þá ábyrgð sem tollgæslan ættar þarna að koma alfarið yfir á herðar Tollvörugeymslunnar með því að að hafa engan til þess að fylgjast með því sem inn fer. Tollgæslan er til þess sett laggirnar upphaflega og það er hennar frumskylda að hafa eftirlit með þeim vörum og innflutning almennt sem berst til landsins hvort sem það er gegnum tollvörugeymslu eða annað.

Herra forseti. Þetta er mitt mál. Ég óska eftir að hæstv. ráðh. svari hvort tollgæslustjóri tali í hans umboði þegar hann gefur í skyn með embættishroka á versta stigi að stærsta tollstöð landsins sé gersamlega óþörf og þjóðinni óviðkomandi þrátt fyrir þann gríðarlega mikla sparnað, sem hún skapar á gjaldeyri þjóðarinnar, og einstætt öryggi, sem hún veitir með því að vörur eru til í landinu á lager, sem var ekki áður, — að hún sé gersamlega óþarft fyrirtæki. Ég trúi því ekki, að hæstv. fjmrh. sé þarna sammála tollgæslustjóra, sínum æðsta embættismanni á þessu sviði. En ef hann er það ekki, þó óska ég eftir að hæstv. ráðh. sem æðsti embættismaður tollstjóraembættisins, hvort sem það er tollgæslan eða tollstjóraembættið, láti þennan embættismann sinn opinberlega taka til baka þessi ummæli sín.