12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, en þær hafa verið miklar og langar eins og öllum er kunnugt þó að umbúðirnar hafi reyndar stundum verið æðimiklar hjá sumum og efnisþátturinn kannske þeim mun rýrari.

Það er rétt, sem sagt hefur verið, að hér er verið að fjalla um mjög mikilvæg mál, — mál sem varða sjálfstæði okkar og framtíð, ekki bara Íslendinga, heldur mannkynsins alls. Ég held að það karp, sem hér hefur verið haft uppi um heimsóknir og því um líkt, þjóni litlum tilgangi. Ég tek undir það með hæstv. utanrrh., að það sé mikilvægt að menn fari sem víðast og kynnist sem flestum sjónarmiðum. Við eigum síst af öllu að einangra okkur.

Ég held líka að sá stórbrotni fyrirlestur, sem var haldinn hér í dag varðandi það starf sem unnið væri á vegum upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna, gefi ekki tilefni til mikilla umræðna. Ég minnist þess, að samkvæmt ýmsum kenningum úr röðum Alþb. og Sósíalistaflokksins, forvera hans, átti menningu okkar að stafa stórkostleg hætta af varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Við höfum haft reisn til að halda okkar stefnu og okkar menningu uppi alveg án tillits til þess og ég get ekki séð að henni hafi stafað nein hætta af dvöl varnarliðsins hér. Alveg á sama hátt treysti ég okkur til að halda reisn okkar gagnvart hverjum þeim erlendum aðilum sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri við okkur.

En þessar umræður hafa í rauninni snúist kannske fyrst og fremst um tvo efnisþætti sem ástæða er til þess að líta á. Hið fyrra er vígbúnaðarkapphlaupið og hið síðara er staða Íslands í öryggismálum.

Ef við lítum fyrst á vígbúnaðarkapphlaupið og það, sem ég tel vera einlæga ósk okkar allra, að draga úr því, þá þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu fávíslegt og hættulegt þetta kapphlaup er. Það hefur verið rakið hér mjög greinilega í dag, hver ógn stafar af þessu kapphlaupi, ekki bara fyrir okkur Íslendinga, heldur fyrir heimsbyggðina alla. En þá tel ég að við eigum líka að spyrja okkur sjálf: Hvers vegna er þetta vígbúnaðarkapphlaup? Hvað er það sem fóðrar þetta vígbúnaðarkapphlaup? Á hverju nærist það? Ég tel að það nærist á tortryggni. Meðan sú tortryggni er til, heldur þetta kapphlaup áfram. Það er einungis með því að eyða þessari tortryggni sem við getum vænst raunverulegs árangurs í takmörkun vígbúnaðar. Það mundu vera gagnslaus pappírsplögg sem væru sett upp, þar sem talað væri um að takmarka þetta vígbúnaðarkapphlaup, ef stórveldin sjálf tryðu ekki að það ríkti jafnvægi milli þeirra og þau gætu gengið úr skugga um að slíkt jafnvægi væri ríkjandi. Ef það væri ekki mundi pappírssamkomulag af þessu tagi ekki endast stundinni lengur því að í hvert sinn, sem eitthvert stórveldanna teldi að á hlut sinn væri gengið og það stæði verr að vígi, mundi það ekki treysta sér til að halda slíkt samkomulag. Þess vegna eru lykilorðin í því að ná fram afvopnun og tryggja þannig friðinn í heiminum að jafnvægi og gagnkvæmni ríki milli stórveldanna.

Ekki verður komist fram hjá því að líta fyrst og fremst til stórveldanna í þessu efni. Þess vegna hljótum við líka að leggja okkur fram um að fá stórveldin til þess að ræðast við um þessi efni. Allar þær hugmyndir, sem komið hafa fram að undanförnu, t. d. á vegum alþjóðahreyfingar jafnaðarmanna, hafa miðað að því að fá stórveldin til þess að ræðast við. Þær viðræður eiga að hefjast að nýju í lok þessa mánaðar. Við skulum vona að þær skili árangri.

Þær hugmyndir, sem uppi hafa verið um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, eru tilboð um að það gæti verið liður í stærra samkomulagi. En engum af leiðtogum jafnaðarmanna á Norðurlöndum eða í Evrópu hefur dottið í hug að yfirlýsingu af því tagi ætti að gefa einhliða og án tillits til umhverfisins eða hverjir samningar væru á milli stórveldanna. Þetta vil ég að mönnum sé fullkomlega ljóst. Lykillinn að því að ná tökum á vígbúnaðarkapphlaupinu, að draga úr vígbúnaði og koma upp eftirliti með því, er að það ríki jafnvægi milli stórveldanna í fyrsta lagi og í annan stað að eyða tortryggni þeirra í milli.

Hinu skulum við ekki gleyma, að það er reginmunur á vestrænum lýðræðisþjóðum annars vegar og einvaldsþjóðum kommúnista í austri. Þess vegna verða þær ekki heldur lagðar að jöfnu, eins og talsmenn Alþb. hafa gert hér í dag. Við eigum samleið með vestrænum lýðræðisþjóðum, en við hljótum að fordæma þá kúgun sem þjóðirnar í austri búa við undir einræðisskipulagi kommúnismans.

Ég tók eftir því í umræðunum hér í dag, að ekki einungis lögðu talsmenn Alþb. stórveldin í austri og vestri að jöfnu í þessum efnum, sem er auðvitað rangt, heldur lögðu þeir ofurkapp á að hvítþvo sig af tengslum við Rússa. En hvernig svo sem þeim þvotti er varið fer hitt ekki fram hjá neinum, að sú stefna, sem Alþb. hefur boðað, hefur fallið saman við stefnu Rússa. Þetta eitt gefur manni tilefni til að huga sérstaklega að því hvað mennirnir eru að tala um. Ef einhver efast um að þetta tvennt fari saman þarf hann í rauninni ekki að lesa annað en Soviet News.

Ég tók eftir því líka í málflutningi Alþb.- manna hér, að þeir tortryggðu mjög þau eftirlitsstörf sem unnin eru á Keflavíkurflugvelli. Ég held að hitt sé ljóst, að eftirlitið, einmitt það að menn fylgist hver með öðrum, sé mjög mikilvægur þáttur í því að friður haldist. Ég held að einmitt með því, að stórveldin fylgist hvert með öðru, eigum við frekar von á að friður haldist og það sé reyndar líka lykillinn að því að ná fram afvopnun að stórveldin fáist til þess að fylgjast hvert með öðru og geti þannig sjálf gengið úr skugga um hvernig valdajafnvæginu er háttað.

Í þessu samhengi hefur líka verið rætt um stöðu Íslands í öryggismálum. Þar heldur Alþb. því fram, að Ísland eigi að vera hlutlaust og óvopnað. Alþb.- menn segja: Eins og málum er nú komið, — þeir hafa kannske ekki sagt það svo mjög hér í dag, en þeir hafa oft sagt það áður, erum við skotmark fyrir Sovétríkin. Við erum skotmark Sovétríkjanna. En ef við breyttum núverandi skipulagi og færum yfir í það hlutleysi, sem Alþb. hefur boðað, er ég sannfærður um að það hæfist kapphlaup milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, milli austursins og vestursins, um áhrifamátt sinn á þessu svæði. Við værum þá ekki skotmark annars, heldur í rauninni beggja. Við værum að auka hættuna á átökum hér í kringum okkur og við værum að auka umsvifin í hafinu í kringum okkur.

Reynslan er sú, að sú skipan, sem hefur verið, hefur tryggt frið á þessum slóðum. Því skulum við ekki gleyma. Breytt skipan, t. d. hlutleysi, mundi raska valdajafnvæginu. Það mundi auka umsvifin í kringum okkur og það mundi verða til þess að skapa óróleika sem við vissum ekki hvar mundi enda. Ég held að strand kjarnorkubúna kafbátsins við Karlskrona í Svíþjóð sanni enn betur en fyrr að hlutleysið tryggir ekki varnir lands, tryggir ekki öryggi lands. Það er sá lærdómur sem við getum m. a. dregið af strandi kafbátsins við Karlskrona.

Talsmenn Alþb. töluðu um það í dag, að nauðsyn bæri til að breyta kjarnorkuvopnastefnu NATO. En menn geta ekki og mega ekki tala um þessi mál svo einhliða. Það næst enginn árangur nema breytt stefna verði báðum megin tjaldsins, bæði af hálfu austursins og vestursins. Við eigum vitaskuld að leggja áherslu á það, — og ég tel að við höfum gert það, — að stórveldin ræðist við og dragi úr vígbúnaði sínum, svo fáránlegur sem hann er. En við skulum ekki gera það undir þeim formerkjum að raska því jafnvægi sem þó hefur ríki að undanförnu og hefur tryggt hér frið.

Menn lýsa því gjarnan með mörgum orðum hve margar borgir megi leggja í rúst og hve marga menn megi drepa í einu vetfangi eins og vígbúnaðinum er nú háttað. Þetta eru auðvitað réttar lýsingar. En þær sanna aðeins eitt, að stefnan á og verður að vera sú, að það komi aldrei til þess, að einu einasta skoti verði hleypt af. Stefna okkar, hver einasta ákvörðun okkar, verður að miða að því, að það verði aldrei þrýst á neinn hnapp. Leiðin til þess er vitaskuld að viðhalda valdajafnvæginu, ekki að raska því, og af því verðum við að taka mið í hverri einustu ákvörðun okkar og af því verðum við að taka mið þegar við berjumst fyrir afvopnun, eins og ég tel að við höfum gert. En við þurfum að gera það í langtum ríkari mæli. Það er svo mikið í húfi.