12.11.1981
Sameinað þing: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég bjóst ekki við að þurfa að tala hér aftur, en hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur tókst að koma þessum umr. aftur niður á dylgjuplanið og þá lágkúru sem einkenndi hluta af þessum umr. Hún lét sér það sæma að dylgja í lok ræðu um ferð mína á friðarráðstefnu á Álandseyjum. (RH: Það var bein spurning.) Já, það voru dylgjur. Hv. þm. vissi að ég var búinn að tala mig hér dauðan, eins og kallað er og þurfti að leita á náðir forseta til þess að geta svarað. Auðvitað kann þm. dylgjuaðferðina, að láta spurningar liggja í loftinu og láta menn geta í eyðurnar. Auðvitað var tilgangur spurningarinnar að reyna að gera tortryggilega þátttöku mína í þessum fundi.

Mér er sérstök ánægja að því að upplýsa hv. þm. um það, hverjir fjármögnuðu þessa ráðstefnu og þessa ferð. Það sýnir mönnum að veruleikinn er oftast nær miklu einfaldari en allar samsæriskenningarnar vilja reyna að láta hann lita út fyrir að vera. Allir þátttakendur í þessari Álandseyjaráðstefnu fjármögnuðu sínar ferðir og þátttöku sjálfir og borguðu til hennar þátttökugjald hver og einn, nema lítill hópur einstaklinga sem var boðið að vera aðalfyrirlesarar á þessari ráðstefnu. Í þessum hópi voru menn eins og Jens Evensen frá Noregi, þm. Jytte Hilden frá Danmörku, þm. frá Svíþjóð, prófessor frá Finnlandi og örfáir aðrir einstaklingar. Ferðakostnaður þessara einstaklinga var greiddur af þeim sem að ráðstefnunni stóðu. Þeir fjármögnuðu þennan ferðakostnað á eftirfarandi hátt: Í fyrsta lagi með hluta af þátttökugjöldum þeirra annarra sem á ráðstefnunni voru. Í öðru lagi með sérstökum styrk frá landsstjórninni á Álandseyjum. Menntmrh. Álandseyja sat í undirbúningsnefnd þessarar ráðstefnu og Álandseyjastjórn bauð ráðstefnunni að halda fund í þinghúsi Landsstjórnarinnar á Álandseyjum. Síðan veittu tveir, þrír opinberir norrænir sjóðir og sænskir sjóðir litla styrki til að fjármagna kostnaðinn við þessa ráðstefnu.

Þetta er, hv. þm., svarið við því, hverjir stóðu að því að fjármagna þessa ferð. Það er ekkert dulið við það. Það er ekkert leynilegt við það. Þetta eru einu erlendu aðilarnir, — ég vil láta það koma hér skýrt fram, — sem hafa greitt nokkurn ferðakostnað af mínum ferðum á undanförnum mánuðum og misserum til að ræða málefni friðarhreyfinganna erlendis eða hér.

Ég vona að þar með, herra forseti, þurfi ég ekki oftar hér eða annars staðar að svara spurningum sem fram eru settar með hugarfari lágkúrunnar, hugarfari tortryggninnar, hugarfari þess sem sáir ávallt frækornum tortryggni í garð annarra en sinna eigin manna.