16.11.1981
Efri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Finnur Torfi Stefánsson:

Forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar sagði að hann hefði verið að flytja okkur staðreyndir í sinni fyrri ræðu. Mér heyrðist það miklu frekar vera staðhæfingar sem þm. flutti okkur. Ég var einungis að benda honum á leið til að sannreyna að staðhæfingar hans væru staðreyndir. Ég get hins vegar tekið undir það, að auðvitað er rétt að hæstaréttardómarar sinna ýmsum störfum. Þeir hafa ýmis aukastörf. Hver er skýringin á því? Hún er fyrst og fremst sú, að þetta eru yfirleitt hæfir hámenntaðir menn með dýrmæta þjálfun. Það eru einkum stjórnvöld sem í gegnum árin hafa sóst ákaft eftir því að reyna að hagnýta sér starfskrafta og þjálfun dómaranna í ýmis önnur störf. Það eru því raunverulega ríkisstjórnir á hverjum tíma sem ráða mestu um þetta. Þm. sagði miklu meira en þetta. Við vitum að allir dómararnir hafa ýmis önnur störf. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. segði að vegna aukastarfanna vanræktu dómararnir sín dómarastörf. Það leyfi ég mér að kalla dylgjur. Það er einmitt það sem ég var að benda honum á að væti unnt að sannreyna. Nú heyrðist mér á hv. þm. Ólafi Ragnari að hann drægi töluvert mikið í land í seinni ræðunni. Mér finnst það gott. En það er líka misskilningur hjá honum, að það þurfi einhvern tillöguflutning á Alþingi til að sannreyna staðhæfingar hans. Það eru aðrar og miklu auðveldari leiðir til. Það er velkomið að verða hv. þm. úti um lögfræðilega aðstoð til að gera þetta ef hann hefur hug á því síðar.

Hvað varðar þessa aðstoðarmenn, þá kann vel að fara svo, að þeir muni í tímans rás vinna mikið af störfum í Hæstarétti þegar þeir verða ráðnir þar. Mér finnst það samt ekki aðalatriðið hver raunverulega vinnur. Spurningin er fyrst og fremst um ábyrgðina og að dómararnir beri ábyrgðina. Það munu þeir gera eftir frv. Ég er ekki endilega sannfærður um að það sé nein þörf á að fara að lögbinda einhverjar frekari reglur um þessa aðstoðarmenn. Mér finnst fara miklu betur á því, að Hæstiréttur ráði því sjálfur. Það er ekki þörf á því, að Alþingi sé að skipta sér í smáatriðum af innanhúsmálum í Hæstarétti. Mér finnst einmitt þvert á móti stuðla að sjálfstæði réttarins að hann ráði slíku sjálfur.

Ég get hins vegar tekið undir það sem hefur komið fram hjá mönnum, bæði hjá hv. þm. Ólafi Ragnari og eins 3. þm. Suðurl., að það er víðar en á þessu sviði sem þörf er á að bæta úr í okkar dómstólakerfi. Eins og ég gat um raunar í minni fyrri ræðu mun allur húsnæðisskortur og allur aðbúnaður dómstóla víða mjög lélegur, t. d. hjá Borgardómi Reykjavíkur sem hefur verið nefndur hér. Ég get tekið eindregið undir þau sjónarmið.