16.11.1981
Efri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það líður nú ört á fundartímann, svo að mér gefst ekki tækifæri til að svara mjög ítarlega því sem fram hefur komið hjá hv. þdm. Ég vil þó drepa á örfá atriði.

Hv. 3. þm. Vesturl. gerði nokkrar hóflegar aths. við framlagt frv. Ég get fallist á ýmislegt sem hann sagði, m. a. það, sem raunar ýmsir hafa tekið fram, að það læðist að manni sú hugsun, að með hóflegri fjölgun dómara, bættu húsnæði, auknum tækjabúnaði og bættri nútímatækni megi lagfæra býsna mikið í þessum málum. Og þá ættu menn að staldra aðeins við, en vera ekki haldnir af neinni þráhyggju, — að vilja endilega fá nýtt dómstig. Það er kannske eitthvað finna að hafa þrjú dómstig en þau tvö sem við höfum komist af með hingað til, en ég álít að menn þurfi að hugsa sig mjög vandlega um áður en þeir verða alfarið gripnir af þeirri hugsýn.

Þá er það, að lögréttufrv. gerir ráð fyrir fjölgun dómara um 10–20. Hv. 3. þm. Vesturl. varpaði því fram, hvort ekki væri réttara að fjölga hæstaréttardómurum upp í 10 í staðinn fyrir 8 samkv. framlögðu frv. Það má vel vera og ég vildi gjarnan að hv. þm. hugleiddu hvort ekki væri réttara að fjölga hæstaréttardómurum nú þegar upp í 10.

Hv. þm. vitnaði í viðtal við forseta Hæstaréttar. Ef ég hef skilið hv. þm. rétt held ég að það sé ekki rétt sem hann hafði eftir forseta Hæstaréttar. Ég held að hann hafi alls ekki talið þessa leið, sem farin er, neyðarúrræði, heldur væri hún eitt af þeim úrræðum sem koma til greina til að ráða bót á neyðarástandi.

Hv. 11. þm. Reykv. taldi, að frv. þetta leysti ekki mikil vandamál, og vitnaði í spásögn sem hann hefði haft í frammi fyrir nokkrum árum þegar hæstaréttardómurum var síðast fjölgað. Það er náttúrlega ekki nema gleðilegt þegar þm. gerast getspakir og geta í það vitnað nokkrum árum síðar. Hann tæpti á því, að hér kynni að vera um brot á stjórnarskránni að ræða. Það er vel að góðir lögmenn og lögfræðingar spreyti sig á því að fjalla um það í málefnalegri umræðu, hvort þessi breyting táknar eða hefur að geyma brot á stjórnarskránni. Ekki er svo að mínum dómi.

Mér finnst að fjölgun hæstaréttardómara úr 7 í 8 sé raunar alveg sjálfsögð og liggi á borðinu, miðað við þau rök sem undanfarið hafa verið færð fram fyrir fjölgun hæstaréttardómara, — a. m. k. nú síðast, þegar Hæstarétti var sérstaklega beint inn á þær brautir að dæma mál ýmist í þriggja eða fimm manna dómaraskor. Menn þurfa þó ekki að deila um að 5 plús 3 eru 8.

Það er laukrétt hjá hv. 11. þm. Reykv., að hér er um að ræða þriðja hornsteininn í okkar lýðræðisskipulagi. Þess vegna þarf vel að vanda til þeirra breytinga sem á ákvæðum um hann eru gerðar. Hann taldi að þetta mundi stórauka lausung í fari og störfum Hæstaréttar. Ekki er ég á því. Hann taldi að hér væri verið að skipta Hæstarétti í undirdeildir og drap m. a. á amerískt réttarfar í því sambandi. Ég veit að amerískt réttarfar er um margt mjög ólíkt íslensku réttarfari. Ég rifja upp eina sögu eftir minni frá 1950. Þá hafði gamall maður um áttrætt í einni af smáborgun Connecticut-fylkis lent í umferðarslysi. Hann hafði ekið bil sínum eftir götunni í algerum órétti og valdið bæði stórslysi og miklu verðmætatjóni. Ég hef þetta að vísu eftir minni. En þessi maður var sýknaður af öllu vegna þess að hann hafði alla tíð verið góður og grandvar og heiðarlegur borgari í sínu ríki.

Hv. 11. þm. Reykv. tók svo til orða, að við þyrftum að fá nýtt dómstig og lausnin lægi ekki í fjölda dómara. Ég held að nýtt dómstig hljóti að orsaka fjölgun dómara að verulegu leyti þegar fram í sækir.

Hann talaði um að dómarar Hæstaréttar væru á kafi í öðrum málum og sinntu ekki störfum sínum sem skyldi. Þó að hægt sé að benda á að hæstaréttardómarar sinni ákveðnum aukastörfum og þá helst sem lögfræðingar á erlendum vettvangi, held ég að þessi staðhæfing sé fjarri því að vera á rökum reist. Það hefur ævinlega verið talið að dómarar Hæstaréttar væru hlaðnir störfum og sinntu þeim mjög vel, a. m. k. er það almenn skoðun. En þetta atriði er eitt af því sem hægt er að kanna. Ég vænti þess, að hv. þd. og sú nefnd, sem fær þetta frv. til umfjöllunar, kanni þessi mál mjög rækilega með aðstoð okkar í rn. og hæstaréttardómaranna sjálfra.

Hv. 3. landsk. þm. talaði um, að seinvirkt réttarkerfi vekti vantrú fólksins, og taldi þetta frv. til bóta. En hann skaut fram þeirri aths., að ekki væri tryggt að hin svonefnda lögréttuleið yrði nokkur hraðbraut í þessum málum. Ég efast stórlega um að svo verði. Það er algerlega óreynt hvort hin svonefnda lögréttuleið muni greiða úr eða hraða málsmeðferðinni nokkuð verulega. Þar þarf ýmislegt annað að koma til greina. Við vitum að það er ekki þar með sagt, þó að ráðnir verði lögréttudómarar, að það verði skjótvirk aðferð að fækka dómurum annars staðar.

Um aðstoðarlögfræðinga í Hæstarétti er það að segja, að þetta er margra ára ósk Hæstaréttar. Hér er í fyrsta sinn gert ráð fyrir að til móts við þessa ósk verði að einhverju leyti gengið. Ég er algerlega á því máli, að þar sé valin rétt stefna.

Hv. 3. þm. Suðurl. gerði nokkrar aths. við þetta mál í heild og gat þess, að málum hefði tekið að seinka mjög á síðasta áratug og orsakir þess væru annað tveggja úrelt kerfi eða ónógur aðbúnaður. Þetta er rétt h já hv. þm. En þó að hann léti þess getið, að lögréttufrv., ef samþykki yrði, hefði ekki í för með sér nettóaukningu dómara nema sem næmi fjórum samkv. einfaldri reikningsaðferð, 15÷11, þá tel ég þetta mjög hæpna ályktun af hans hálfu. Hitt er rétt hjá honum, að dómstólar og við skulum segja embætti sýslumanna úti um land hafa verið í fjársvelti mörg undanfarin ár. Þeim hefur verið neitað, eins og hann sagði, um fé og fólk. Að þeim þarf að búa miklu betur en gert er, auka tækni, bæta húsnæði og annan aðbúnað. Ég man þegar ég tók fyrst við sýslumannsstarfi í Dalasýslu 1955, að þá var ég aleinn á skrifstofunni í fyrstu og þurfti að gera allt sjálfur, vélrita hvert einasta bréf á gamla ritvél sem þar var til, og þannig mætti lengi telja.

Hv. 11. þm. Reykv. taldi svo í síðari ræðu sinni að aðbúnaður að Borgardómi hér í Reykjavík væri hreint hneyksli. Ég vil ekki samþykkja þetta. Ég held að aðbúnaður að Borgardómi, þó að hann sé í leiguhúsnæði, sé mjög sæmilegur og að þar sé ekki sérstakur málahali. Hins vegar vil ég benda hv. þm. á það, að á síðasta ári aflaði ég eða dómsmrn. nýrrar lóðar fyrir nýtt dómhús, sem væntanlega rís á góðum stað í borginni innan ekki allt of margra ára.

Ég læt nú þessum aths. lokið, hvort sem umr. lýkur nú eða ekki. En ég bendi á, áður en ég lýk máli mínu, að lögréttufrv. hefur verið lagt fram, ef ég man rétt, fimm sinnum. Því hefur alltaf verið fylgt, að ég ætla, nokkuð skilmerkilega úr hlaði. En það hefur verið talað fyrir daufum eyrum. Það hefur ekki vakið neinar umræður (Gripið fram í.) Einu sinni komst það til hinnar deildarinnar, það er rétt. En ég held að umr. hafi ekki verið tiltölulega miklar.

Með þessu frv., sem ég legg hér fram um breytingu á hæstaréttarlögunum, er stefnt að hraðari meðferð mála, en jafnframt að auknu réttaröryggi. Það, sem gleður mig eftir þessa umr. hér síðdegis í Ed. er það, að menn eru þó byrjaðir að hugsa og ræða um þessi mál. Ég vona að þeir fylgi því eftir með því að láta frv. hafa greiða för um hv. þingdeild.