16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

66. mál, iðnráðgjafar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um iðnráðgjafa, 66. máli þessarar deildar, á þskj. 69, en frv. þetta felur í sér ráðstafanir sem miða að því að efla ráðgjafarþjónustu í iðnaði landsmanna. Frv. tekur sérstaklega mið af þörfum landsbyggðarinnar í þessu efni um leið og það skírskotar til frumkvæðis samtaka sveitarfélaga, iðnþróunarfélaga og annarra áhugaaðila um uppbyggingu iðnaðar, ekki síst á landsbyggðinni. Heimildarákvæði frv. um stuðning ríkisins við ráðningu iðnráðgjafa taka þó einnig til höfuðborgarsvæðisins og þannig jafnt til allra landshluta eða kjördæma.

Ráðstafanir þær, sem frv. gerir ráð fyrir, má skoða sem einn þátt í stefnu ríkisstj. að bæta aðstöðu til iðnrekstrar í landinu.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að samtök sveitarfélaga eða iðnþróunarfélög, sem ákveða að ráða til sín iðnráðgjafa, geti notið til þess fjárstuðnings úr ríkissjóði. Heimild sú, sem frv. felur í sér um framlag ríkisins í þessu skyni, miðast við launakostnað við störf eins manns á starfssvæði hlutaðeigandi samtaka, þ. e. samtaka sveitarfélaga eða iðnþróunarfélags, þó þannig að umdæmi hvers iðnráðgjafa verði aldrei minna en eitt kjördæmi.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að iðnþróunarfélög, sem stofnuð yrðu, geti verið ráðningaraðilar iðnráðgjafa, og í 2. gr. frv. er kveðið á um þau skilyrði sem slík félög þyrftu að uppfylla í þessu sambandi. Iðnráðgjöfunum er ætlað að starfa að fjölmörgum verkefnum, einkum á sviði ráðgjafar, upplýsingamiðlunar, tengsla af ýmsu tagi og fræðslu.

Í 3. gr. frv. er leitast við að skilgreina helstu verkefni iðnráðgjafanna, en það mun eðlilega ráðast nokkuð af aðstæðum á hverju svæði hvaða verkefni eru brýnust talin. Veigamestu þættirnir í starfi væntanlegra iðnráðgjafa munu ótvírætt verða að aðstoða fyrirtæki eða aðila, sem eru að hefja iðnrekstur, við að greina þörf sína fyrir margvíslega sérfræðiaðstoð og að mynda tengsl milli aðila í iðnaði í heimabyggð við tækni- og þjónustustofnanir iðnaðarins.

Iðnráðgjöfunum er m. ö. o. ætlað að hafa mjög náin tengsl við tæknistofnanirnar. Til að tryggja þau tengsl í reynd er í 4. gr. frv. gert ráð fyrir að Iðntæknistofnun Íslands verði falið að hafa forustu um samræmingu á störfum þessara ráðgjafa.

Ráðstafanir þær, sem í frv. felast, eiga sér hliðstæður bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Langt er síðan lagður var með lögum grundvöllur að ráðgjafarþjónustu í landbúnaði, þ. e. starfsemi héraðsráðunauta. Munu margir hv. þm. geta borið vitni um hverja þýðingu störf þessara ráðunauta hafa haft fyrir landbúnaðinn.

Á síðustu árum hafa samtök sveitarfélaga víða um land og ýmis samtök um iðnrekstur látið sig iðnaðarmál varða í vaxandi mæli og lagt áherslu á stuðning ríkisins við áætlanagerð og samræmingu á iðnþróunaraðgerðum. Hér á hv. Alþingi hafa líka á síðustu árum verið samþykktar allmargar þáltill. um áætlanagerð um eflingu iðnaðar í einstökum landshlutum og byggðarlögum. Líta má á þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, sem mjög veigamikinn þátt til að efla slíka áætlanagerð og alveg sérstaklega framkvæmdir á grundvelli mótaðrar stefnu. Auk tengsla við tæknistofnanir iðnaðarins þurfa iðnráðgjafarnir að vera tengiliðir heimabyggðarinnar við þær stofnanir sem vinna að áætlanagerð um iðnþróun, og á ég þar m. a. við byggðadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Við undirbúning þessa frv. hefur verið leitast við að hafa sem víðtækast samráð við þá aðila, er málið einkum snertir. Þannig var efni frv. kynnt landshlutasamtökum sveitarfélaga á mótunarstigi á liðnu sumri og álit aðila, sem hafa tjáð sig um meginefni þess sem í frv felst, hefur undantekningarlaust verið jákvætt. Einnig hefur efni frv. og fyrirhuguð tilhögun ráðgjafarþjónustunnar verið kynnt forstöðumönnum tæknistofnana iðnaðarins. Sama máli gegnir um þá deild Framkvæmdastofnunar sem fjallar um byggðaáætlanir.

Þá hefur við samningu frv. verið reynt að hagnýta upplýsingar um hliðstæða ráðgjafarþjónustu á öðrum Norðurlöndum, einkum í Noregi og í Danmörku, en samskipti hérlendra tæknistofnana við systurstofnanir í þessum löndum hafa aukist mjög á síðustu árum. Í Noregi og Danmörku hefur verið lögð áhersla á að koma á fót svæðisbundinni ráðgjafarþjónustu fyrir iðnaðinn, og verkefni svæðamiðstöðvanna hafa í mörgum tilvikum verið af sama toga og gert er ráð fyrir varðandi þá þjónustu sem frv. þetta kveður á um.

Ljóst er að varðandi skipulag þessarar þjónustu hér verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Í stað þess að stofna hér eins konar útibú frá tæknistofnunum iðnaðarins í hverjum landshluta þótti ráðlegra að fara þá leið, sem gert er ráð fyrir í frv., að tengja þjónustuna heimaaðilum, samtökum sveitarfélaga eða iðnþróunarfélögum sem nú eru að komast á fót í sumum landshlutum eða eru þegar risin.

Hver sem þróunin yrði varðandi skipulag þessarar þjónustu er afar mikilvægt að heimamenn standi að henni með öflugu starfi og fjárhagslegum stuðningi. Eins og ég gat um áður er í frv. lagt til að stuðningur ríkisins við þau samtök, sem ákveða að ráða til sín iðnráðgjafa, nemi sem svarar beinum launakostnaði og er þá átt við föst laun, umsamda yfirvinnu og launatengd gjöld. Ef þessi kostnaður er lagður til grundvallar varðandi stuðning ríkisins við ráðgjafarþjónustuna mundi framlag þess nema um 180 þús. kr. á ári vegna starfs hvers iðnráðgjafa sem heimild yrði veitt fyrir. Heildarútgjöldin mundu hins vegar ráðast af því, hve margir landshlutar eða kjördæmi mundu hagnýta sér þennan stuðning.

Rétt er að hafa í huga að enda þótt til komi stuðningur sem svarar ígildi launakostnaðar mun margvíslegan annan kostnað leiða af þessari starfsemi, þ. ám. ferða- og skrifstofukostnað. Ég hygg að ekki þurfi að skýra það fyrir hv. þm. þessarar deildar, a. m. k. ekki þeim sem úr strjálbýli koma, hvaða kostnað ferðalög hér innanlands hafa í för með sér. Iðnráðgjafarnir þurfa ótvírætt að ferðast mjög mikið, ekki aðeins innan landshlutanna í því skyni að heimsæk ja fyrirtæki og ræða við ýmsa aðila, heldur munu þeir oft þurfa að leggja leið sína hingað til Reykjavíkur þar sem eru þær stofnanir sem þeir þurfa að halda uppi tengslum við. Framangreindan kostnað verða ráðningaraðilar, þ. e. heimamenn, að taka á sig, og miðað við fjárhagslegt bolmagn sveitarfélaga og samtaka þeirra munu landshlutarnir þurfa að mynda samstöðu um sérstök úrræði til að standa undir sínum hluta af slíkum kostnaði.

Stofnun iðnþróunarfélaga og e. t. v. svæðisbundinna iðnþróunarsjóða í tengslum við slík félög er nú á undirbúningsstigi í sumum landshlutum. Þetta er sú leið sem mörgum, sem um þessi mál hafa fjallað, finnst vænlegust sem bakhjarl við starfsemi iðnráðgjafa.

Í athugasemdum við frv. kemur fram að hámarkskostnaður ríkissjóðs vegna laga þessara gæti orðið, miðað við núverandi verðlag, átta sinnum 180 þús. kr. eða tæplega 1.5 mill j., þ. e. 1440 þús. kr. á ári. Við þetta gætu síðan bæst u. þ. b. laun eins starfsmanns hjá Iðntæknistofnun vegna samræmingar á störfum iðnráðgjafa þar. Líklegt er þó að heildarútgjöldin verði eitthvað lægri fyrst í stað þar sem nokkurn tíma tekur fyrir samtök sveitarfélaga, sem ekki hafa þegar ráðið til sín iðnráðgjafa, að ganga frá slíkri ráðningu og skipuleggja starfsemi hennar.

Í fyrirliggjandi fjárlagafrv. fyrir næsta ár er ekki gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum í þessu skyni, en iðnrn. gerði fjárlaga- og hagsýslustofnun grein fyrir fyrirhugaðri lagasetningu um þessi efni og síðan par erindi þar að lútandi sent til hv. fjvn. Ég vænti þess, að frv. þetta fái greiða leið hér í gegnum hv. Alþingi og að hv. fjvn. sjái sér fært að ætla nokkurt fjármagn til þessarar ráðgjafarstarfsemi þegar á næsta ári.

Ég tel nauðsynlegt að víkja hér nánar að nokkrum atriðum sem snerta efni og framkvæmd þeirra ráðstafana sem frv. felur í sér.

Þegar verið er að fara inn á nýjar brautir varðandi stuðning við iðnþróun í landinu liggur í augum uppi að ekki verður séð fyrir hversu til tekst um framkvæmdina í einstökum atriðum. Hér er því með vissum hætti um tilraun að ræða, enda gert ráð fyrir að lögin verði endurskoðuð og staðan endurmetin að nýju eftir fjögur ár í ljósi þeirrar reynslu sem þá hefur fengist.

Ég tel að sú umræða, sem nú fer fram um eflingu iðnaðar í einstökum landshlutum og landinu almennt, og undirbúningur sá, sem hafinn er að stofnun iðnþróunarfélaga, gefi ástæðu til bjartsýni að því er varðar jarðveg fyrir störf iðnráðgjafanna. Sama máli gegnir um það frumkvæði sem sveitarfélög í einstökum landshlutum hafa haft um myndun iðnþróunarsjóða. Ég minni í því sambandi á framtak sveitarfélaga á Suðurlandi, en þar hafa flest sveitarfélög bundist samtökum um að greiða í iðnþróunarsjóð 1% af árlegum tekjum sínum. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að eflingu atvinnulífs á svæðinu, þar með talið að veita styrki til athugana á ýmsum viðfangsefnum í iðnaði. Þannig má segja að markmið þessa sjóðs falli vel að þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að iðnráðgjafi mundi beita sér að samkv. frv.

Á fundum landshlutasamtaka sveitarfélaga víðar en á Suðurlandi — fundum sem haldnir hafa verið á þessu ári — hafa verið gerðar samþykktir um að fela stjórnum viðkomandi sveitarstjórnarsambanda að kanna undirtektir við stofnun iðnþróunarfélaga og iðnþróunarsjóða. Þegar á heildina er litið má því segja að víða sé verið að undirbúa jarðveginn fyrir iðnþróun og þessar aðgerðir falli vel að þeim hugmyndum sem frv. þetta byggist á.

Ég vil leggja áherslu á að við meðferð þessa frv. leitist menn við að hafa í huga þær aðstæður og það umhverfi sem iðnfyrirtæki, ekki síst smáfyrirtæki á landsbyggðinni, búa við varðandi möguleika á hvers konar ráðgjöf. Hugmyndin er ekki sú, að iðnráðgjafarnir leysi allra vanda í þessu efni, heldur miklu frekar að þeir aðstoði fyrirtækin við að greina vandamálin og miðla upplýsingum um hvers konar ráðgjafar sé þörf og hvar aðstoð sé að fá. Í mörgum tilvikum munu tæknistofnanir iðnaðarins geta veitt þá aðstoð sem með þarf, en því aðeins getur iðnráðgjafinn haft milligöngu um þessi efni að hann sé í góðum tengslum við tækni- og þjónustustofnanir iðnaðarins svo sem ráð er fyrir gert samkv. frv. Herra forseti.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. hér í hv. deild verði frv. vísað til hv. iðnn.