16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

66. mál, iðnráðgjafar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., ber að sjálfsögðu að skoða í nefnd eins og önnur frv. sem koma frá ríkisstj. og einstökum þm. Ég býst við að sjálfstæðismenn séu þessari hugmynd að mörgu leyti samþykkir, enda kemur það fram í till. til þál. um iðnaðarstefnu, sem 19 sjálfstæðismenn hafa flutt hér á þingi, að lagt er til að iðnráðgjafar taki til starfa, þó þannig að þeir starfi fyrst og fremst á vegum sveitarfélaga. Það er án efa líklegra til árangurs að tengingin við stofnanir iðnaðarins eigi sér frumkvæði heima fyrir og þá einkum og sér í lagi hjá sveitarfélögum eða svokölluðum iðnþróunarfélögum, sem hæstv. ráðh. nefndi í sínu máli. Það, sem þó hlýtur að skipta langsamlega mestu máli um iðnþróun hér á landi, er að rekstrarskilyrði séu í landinu fyrir iðnaðinn ekki síður en aðra atvinnuvegi. Eins og allir vita eru slík rekstrarskilyrði fyrir arðbæran iðnað ekki til í landinu nú.

Það er reyndar furðulegt til þess að vita, að hæstv. ráðh., sem stóð að því í ríkisstj. á árinu 1980, 30. mars, að samþykkt var þar till. um að starfsskilyrðanefnd yrði sett á laggirnar og skilaði áliti í júlí sama ár, skuli una því, að sú nefnd hefur enn ekki opinberlega skilað áliti, — enda var hún ekki sett á laggirnar fyrr en í sept. 1980 eða tveimur mánuðum eftir að hún átti að ljúka störfum samkv. tillögu hæstv. ráðh. Heyrst hefur þó að frumtillögur nefndarinnar hafi borist ýmsum aðilum án þess þó að stjórnarandstaðan hafi fengið tækifæri til að kynnast þessum tillögum. Það er auðvitað það sem mestu máli skiptir varðandi framtíð iðnaðar hér á landi, hvort tekið verður á slíkum málum sem þar er um fjallað af einhverju viti. Það gerir gæfumuninn um það, hvort hér fær að þróast iðnaður. Iðnráðgjafar, hvort sem þeir eru einn eða hundrað, hafa enga þýðingu ef atvinnugreinin hefur ekki rekstrargrundvöll.

Hæstv. ráðh. vísaði síðan máli sínu til hv. fjvn. og sagðist vona að fjvn. sæi til þess, að heimildin í 1. gr. frv. yrði notuð. Ég skal gjarnan nefna það í hv. nefnd þar sem ég á sæti. Málinu verður reyndar ekki vísað þangað. En ég bendi hæstv. iðnrh. á að hæstv. fjmrh. er í sama þingflokki og hæstv. iðnrh. og þannig er gengið frá hnútum í fjárlagafrv., frv. þeirra beggja, að Iðntæknistofnun Íslands hefur verið skorin niður við trog, en það er einmitt á hennar vegum og í tengslum við hana sem iðnráðgjafarnir eiga að starfa. Það skýtur þess vegna dálitið skökku við þegar þessu máli er vísað til nefndarinnar. Auðvitað veit hæstv. ráðh. mætavel, eins og allir aðrir þm., að það er ríkisstj. sem ber ábyrgð á fjárveitingunum. Það er hún sem markar stefnuna í skattamálum og hefur þess vegna áhrif bæði tekju- og gjaldamegin varðandi fjárlagafrv. Ég vil þess vegna skora á hæstv. iðnrh. að taka málið upp innan hæstv. ríkisstj. og beita sér fyrir því, að fjármagn fáist til stofnana iðnaðarins þannig að hægt verði að koma draumum hans í kring á hinu háa Alþingi.

Að lokum vil ég segja það, að í þessu frv. er bryddað upp á talsverðum nýmælum varðandi síðustu greinina. Það segir í aths. við 5. gr., að lagt sé til að lögin verði endurskoðuð að fenginni nokkurri reynslu af starfi iðnráðgjafa og gildistími þeirra verði því takmarkaður við árslok 1985. Þetta er að mínu viti góð regla. Hún er alþekkt úti í heimi. Hún er notuð í Bandaríkjunum og kallast þar „sunset legislation“.

Á þessa aðferð minntist hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson í máli sínu í síðustu viku því til stuðnings, að inn í landið væru að læðast ýmsar bandarískar hugmundir, í því skyni orðnar til að heilaþvo íslenska þm., sem hefðu nefnt þessar hugmyndir hér á hinu háa Alþingi. Þetta var nefnt sem dæmi ásamt svokallaðri „núllgrunnsaðferð“, eða „Zero Base Budgeting“, um hugmyndir um hvernig stórveldin reyndu að ná tökum á íslenskum þm. til að koma til skila stórhættulegum aðferðum. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hefur hann fengið leyfi formanns þingflokks Alþb. til að flytja svona stórhættulegt mál inn á hið háa Alþingi?

Auðvitað er þetta í gríni sagt. Málatilbúnaður hv. þm. Ólafs Ragnars var grín frá upphafi til enda og það er ánægjulegt að hæstv. ráðh. lætur slíkt sem vind um eyru þjóta. Þetta var auðvitað eins konar innskot, en að meginstefnu til tel ég að hér sé bryddað á máli sem ástæða sé til að kanna gaumgæfilega og geti komið að gagni í iðnþróun hér á landi, — ekki síst ef rekstrarskilyrði eru fyrir hendi. Ég veit að sjálfstæðismenn í iðnn. munu þess vegna skoða þetta mál með jákvæðu hugarfari.