16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

66. mál, iðnráðgjafar

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég lýsi stuðningi mínum við efni þessa frv. Ég vil þó benda á að það er ekki nægilegt að hæstv. iðnrh. berjist fyrir hagsbótum íslensks iðnaðar ef hæstv. ríkisstj. vinnur að öðru leyti gegn þessum sömu hagsmunum. Það er t. d. ekki nægilegt að hæstv. iðnrh. vilji styðja íslenskan skipasmíðaiðnað, sem hann vissulega vill gera, ef hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. leyfa hömlulausan innflutning erlendis frá á notuðum skipum á tombóluprís vegna þess að fyrir þessi skip er ekkert að gera úti í heimi.

Ég á sæti í iðnn. þessarar hv. deildar og mun þar gera efnislegar athugasemdir við frv., en ég vildi ekki láta hjá líða að lýsa strax yfir stuðningi við efni þess.