15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Albert Guðmundssyni, 3. þm. Reykv., fyrir að hefja máls hér á Alþingi á þeirri deilu sem staðið hefur síðustu daga um Tollvörugeymsluna og fleiri atriði sem snerta samskipti yfirmanna tollgæslunnar í landinu við undirmenn sína. Það er rétt, sem komið hefur fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni og hæstv. ráðh., að það sem snýr að opnun Tollvörugeymslunnar er leyst. En það er langt frá því að það mál, sem snýr að samskiptum yfirmanna tollgæslunnar í landinu við sína undirmenn, sé leyst.

Ég hef fylgst um nokkurra ára skeið með framgöngu yfirmanna tollgæslunnar gagnvart Matthíasi Andréssyni tollverði, og ég vil lýsa því yfir hér, að ég tel ekki síður ástæðu til að rannsaka ákvarðanir og framgöngu yfirmanna tollgæslunnar í þessum málum heldur en þau ummæli sem hér hefur verið vitnað til í blöðum, vegna þess að það eru margvíslegar ástæður til þess að ætla að það eina, sem þessi tollvörður, Matthías Andrésson, hafi til saka unnið, sé að vera of áhugasamur fyrir smekk yfirmanna sinna um að leita að tollsvikum og koma upp um afbrot í innflutningi til landsins eða tollsvik. Og þau ummæli, sem koma fram hjá Birni Hermannssyni tollstjóra í Tímanum í dag, sýna mér fyllilega og sanna að það hljóta að vera einhver önnur sjónarmið, sem ráða ummælum hans og aðgerðum gagnvart þessum tiltekna starfsmanni, heldur en deilan um Tollvörugeymsluna. Það kemur fram í blaðaviðtali við Björn Hermannsson tollstjóra í Tímanum í dag, að hann hafi óskað eftir því uppi í ráðuneyti, að Matthíasi Andréssyni yrði vikið úr stafi — og fyrir hvað? Jú, fyrir það eitt, að þetta fyrirtæki, Tollvörugeymslan, þurfti að hafa opið lengur til þess að geta sinnt atvinnurekstrinum í landinu heldur en reglur um opnun opinberra fyrirtækja gerðu ráð fyrir. Vegna þess, að tollstjóraembættið neitaði að greiða venjulegar launagreiðslur þeim starfsmanni, sem þurfti til þess að geta haldið starfseminni í gangi með þessum hætti, og yfirmenn Tollvörugeymslunnar gripu til þess ráðs að leggja þarna fram greiðslur með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, þá er það talið af tollstjóra brottrekstrarsök. Ég spyr hv. alþm.: Er það eðlilegur háttur málsins að telja svo mikilvægt þetta litla atriði, með hvaða hætti greiðslurnar fara fram? Þetta voru engar leynigreiðslur. Þetta voru greiðslur sem voru taldar fram og allir vissu um, engar leynigreiðslur. Þetta er auðvitað ekki brottrekstrarsök, heldur er ástæðan sú, að yfirmenn tollgæslunnar hafa í áraraðir verið á eftir þessum manni. Og ég tel það alvarlegt mál þegar yfirmenn tollgæslunnar í landinu gera sér sérstakt far um það að hindra í starfi, lækka í starfi og síðan flæma úr starfi ágætan starfsmann sem virðist hafa það eitt til saka unnið að vera áhugasamari en margir starfsbræður hans um að upplýsa svindl, ólöglegan innflutning eða tollsvik. Fyrst yfirmenn tollgæslunnar hafa krafist opinberrar rannsóknar á ákveðnum ummælum vil ég héðan úr þessum stól óska eftir því, að þeir verði jafnreiðubúnir til þess, verði þess óskað, að allur þessi málarekstur í gegnum liðin ár verði tekinn til opinberrar skoðunar vegna þess að það er löng saga og við sem hér erum á Alþingi kosnir til þess að tryggja það, að þegnar landsins sinni störfum sínum rétt og vel og þeir, sem falinn er opinber trúnaður í landinu, geri það rétt og vel. Við eigum kröfu til þess, að þeim grun, sem atburðarás síðustu ára varðandi þessar deilur gefur óneitanlega tilefni til að fram komi, sé eytt.

Ég er ekkert hissa á þeim ummælum sem komu fram hjá tollstjóra og tollgæslustjóra í blöðum í gær og í dag. Þau eru í stíl við annað sem þessir ágætu embættismenn hafa látið frá sér fara í þessum málum á undanförnum árum.

Það hefur staðið hér í landinu töluverð deila um það, hún hefur að vísu ekki farið mjög hátt, en töluverð deila um það, með hvaða hætti tollgæslan í landinu ætti að vera. Það hafa verið settar fram tillögur frá yfirmönnum tollgæslunnar sem hafa verið umdeilanlegar. Það hafa verið einstakir starfsmenn, bæði sá sem hér um ræðir og aðrir, sem hafa viljað fara aðrar leiðir, sem hafa viljað beita grimmari aðferðum við tollleit heldur en yfirmenn þeirra hafa viljað samþykkja. Það er nauðsynlegt að allt þetta mál verði tekið til skoðunar.

Það er vissulega rétt sem hæstv. fjmrh. sagði, að það mál, sem snertir opnun Tollvörugeymslunnar sjálfrar, er væntanlega leyst. En hið eldra mál er að mínum dómi miklu alvarlega en deilan um opnun Tollvörugeymslunnar sjálfrar. Það er deilan um það, hvort það sé rétt, sem við teljum margir eftir að hafa kynnt okkur þetta mál á undanförnum árum, að yfirmenn tollgæslunnar geri sér far um að draga úr starfskröftum og síðan jafnvel leita eftir tilefnum að flæma úr starfi þá tollverði sem eru of áhugasamir um að koma upp um svik.