16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

66. mál, iðnráðgjafar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir stuðning við þetta mál sem hér er flutt. Ég treysti því, að sá hugur, sem fram kemur hjá þeim, endurspegli vilja hér í hv. þd. þannig að þetta frv. geti orðið fyrr en seinna að lögum.

Eins og hér var minnst á af hv. síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Vesturl., er þegar nokkur reynsla fengin af starfi iðnráðgjafa í nokkrum landshlutum, en þeir hafa verið ráðnir með nokkrum stuðningi af iðnþróunarfé sem fékkst af aðlögunargjaldi sem innheimt var á síðasta ári. Sú reynsla lofar vissulega góðu og hefur örvað sveitarfélög og samtök þeirra til að stíga þessi skref, ekki aðeins á einum stað á landinu, heldur munu það vera orðnir fimm landshlutar sem hafa tryggt sér slíka starfskrafta. En ráðningaraðilar munu einnig fastlega vænta þess, að ríkisvaldið komi til móts við þessa starfsemi með áframhaldandi stuðningi.

Hér var vikið að því af hv. 10, þm. Reykv., að fjármagn þyrfti að tryggja til starfseminnar og það væri ekki markað í fjárlagafrv., eins og ég raunar gat um í framsöguræðu minni. Um það var rætt við mótun fjárlagafrv., að þetta mál kæmi til umr. og afgreiðslu í sambandi við meðferð fjárlagafrv. í fjvn. Ég veit ekki annað en samráðh. mínir í ríkisstj. beri góðan hug til þessa málefnis og verði reiðubúnir að stuðla að því ásamt stuðningsmönnum sínum hér á hv. Alþingi, að fjármagn fáist á næsta ári til að hægt sé að nýta þær heimildir sem frv. gerir ráð fyrir, ef lögfestar verða

Ég tek einnig undir það, sem hér hefur fram komið h já tveimur hv. þm. í þessari umr., að mikil nauðsyn er á að styrkja meira en orðið er Iðntæknistofnun Íslands sem gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki í þeirri iðnþróun sem við í hv. deild erum áreiðanlega allir sammála um að nauðsynleg sé hérlendis. Það skiptir mjög miklu máli, að þessi stofnun, Iðntæknistofnun Íslands, eins og reyndar aðrar þjónustustofnanir iðnaðarins, verði efld og ríkisvaldið sjái sér fært að stuðla að því með brýnustu fjárveitingum til starfsemi þeirra.