15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann gaf mér við mínum málflutningi og óskum, en eru þó ekki að öllu fullnægjandi. Ég vil undirstrika nokkur atriði til að valda ekki misskilningi og að hv. þm. hafi myndina rétta.

Þessar deilur, sem hafa verið í Tollvörugeymslunni — ég vil undirstrika það, eru ekki deilur Tollvörugeymslunnar við tollgæsluna eða nokkurn annan. Þetta eru deilur milli tollgæslunnar og starfsmanns eða starfsmanna hennar sem hafa kostað Tollvörugeymsluna mikið erfiði og tekjutap, má segja, á margan hátt og líka einstaklinga sem við fyrirtækið skipta. Það er ekki tjón sem skiptir nokkrum þúsundum, heldur milljónum, ef ekki hundruðum milljóna, vegna þess að talning þess tollvarðar, sem tollgæslan hafði þó sem sinn umboðsmann á staðnum, var ekki marktæk og allt það tjón, sem kom í ljós við opnun umbúða, var ekki tekið til greina vegna þess að tollskýrslur fengust ekki viðurkenndar. Þá á ég við að þær voru ekki teknar til greina af tryggingafélögunum. Hjá stærsta eiganda og notanda Tollvörugeymslunnar, Sambandi ísl. samvinnufélaga, er tjónið hvað mest. Deilan sem slík er því ekki deila Tollvörugeymslunnar við neinn, heldur deila innan embættis, og ég fagna því, að hún skuli vera endanlega leyst þannig að fyrirtækið, sem er stærsta tollstöðin í landinu, er áfram starfhæft.

Við tollvörugeymslumenn erum ekki að festa okkur í neinu því sem snertir fortíðina. Það út af fyrir sig væri stórmál. En það eru embættismenn hins opinbera sem dag eftir dag láta hafa eftir sér ummæli í blöðunum sem við getum ekki setið undir, að fyrirtækið sé svo litið áríðandi þrátt fyrir allt að það skipti engu máli hvort það er opið eða lokað. Þarna eru nýir viðskiptahættir sem teknir voru upp á sínum tíma, og ég held að þjóðfélagið geti ekki án þess verið. Það er farið að eiga svo stóran þátt í hinu daglega viðskiptalífi þessarar þjóðar að hér er ekki um neitt smámál að ræða. Ef þm. halda það, þá er það bara af því að þeir vita ekkert um hvað við erum að tala eða hvað Tollvörugeymslan er eða hvaða þjónustuhlutverki hún gegnir við þjóðfélagið í heild. Það eru þessar fullyrðingar fram og til baka, sem ganga nú dag eftir dag, sem ég óska eftir að æðsti yfirmaður þessara manna stöðvi eða að öðrum kosti láti þá sanna. Það er gefið í skyn að Matthías tollvörður hafi þegið þarna einhverjar greiðslur sem eru óeðlilegar. Það á því að koma í ljós.

Ég vil undirstrika það hér, og þá í framhaldi og að gefnu tilefni frá hv. síðasta ræðumanni, að umræddur tollvörður, Matthías, hefur í alla staði gegnt hlutverki sínu sem tollvörður í þessari stærstu tollstöð landsins lýtalaust. Við höfum ekkert yfir honum að kvarta sem samstarfsmanni og má segja okkar yfirmanni á staðnum því að við getum ekki gert neitt sem tollvörugeymsla án þess að tollgæslan leyfi.

Það gleður mig að ummæli tollgæslustjóra og tollstjóra eru ekki studd af hæstv. ráðh. Ummælin eru ekki viðhöfð í samráði við ráðh. og embættismennirnir verða sjálfir að standa við sín ummæli. Þetta er út af fyrir sig ágætt. Ráðh. frábiður sér alla ábyrgð á því sem þeir segja í þessu tilfelli. En ég óskaði eftir því, að hann gengi lengra en segja hér á þingi að hann væri ekki ábyrgur fyrir þessum ummælum, hann fyrirskipaði þeim að draga þau til baka. En þarna kemur fram sá embættismannahroki sem þjóðfélagið allt fyrirlítur og á að hætta. Þessir menn eru þjónar fólksins, en ekki yfirmenn, og það er rétt, sem kom fram hér hjá hv. síðasta ræðumanni, að þannig á málið að vera. En þeir haga sér eins og yfirmenn. Þetta eru launþegar hjá fólkinu, launþegar hjá þjóðinni, hvaða titil sem þeir bera innan starfsgreinarinnar. Það hlýtur þá að vera mál almennings hvernig opinberir aðilar koma fram við þá sem við þá þurfa að skipta, og það er ekkert smámál.

Ég vil líka geta þess, að Tollvörugeymslan greiðir tollvörðum og tollþjónum sem starfa í Tollvörugeymslunni og til þess er lagður ákveðinn skattur á vöruafgreiðslur. Auðvitað væri eðlilegt að laun og annar kostnaður við tollgæsluna og tollþjónustuna væru greidd í þessari tollstöð á sama hátt og alls staðar annars staðar, af tolltekjum ríkisins. Skipafélögin greiða ekki mér vitanlega tollgæsluna hjá þeim og er ég þó stjórnarformaður eins skipafélags. Það gerir tollþjónustan sjálf. Þessir aðilar vinna hjá tollstjóraembættinu og vinnuveitandinn á að greiða laun þeirra. En í Tollvörugeymslunni er það hún sjálf sem er ekki aðeins ábyrg fyrir því að greiða þeim laun, en samkv. lögum eða reglugerð — ég man ekki hvort er — er Tollvörugeymslunni gert að skyldu að útvega tollgæslunni eða tollstjóraembættinu allt það sem þeim dettur í hug að biðja um og þurfa að eigin mati að nota til síns starfs. Það er alveg fráleitt. Auðvitað á tollstjóraembættið að útvega sínum mönnum öll þau tæki og allt það, sem þeir þurfa til að gegna sínum störfum, og greiða þeim laun af tolltekjunum. Ég hefði gaman af því ef hæstv. fjmrh. vildi einhvern tíma innan skamms — ekki núna, ég geri ekki þá kröfu — gefa upplýsingar um það, hvað þær tolltekjur eru miklar sem Tollvörugeymslan innheimtir fyrir ríkissjóð, og bera það saman við hvað tollstjóraembættið sjálft innheimtir. Við skulum sjá á hvorn hallar.

Ég undirstrika það, að sú lausn, sem er fengin á því máli sem varð til þess að Tollvörugeymslan varð óstarfhæf í nokkra daga, hún er góð og enginn á meira og betra þakklæti skilið en hæstv. ráðh. Hann gekk í það strax að leysa málið til frambúðar. Og ég verð að segja það alveg eins og er, að á stjórnarfundi í Tollvörugeymslunni var málið rætt þannig, þó að lausn væri í sjónmáli, að miðað við framkomu embættismanna og þá sérstaklega þessara embættismanna við fólk almennt mættum við búast við einhverjum hefndarráðstöfunum. Ef úr því verður lofa ég hv. Alþingi því, að frá því skal ég skýra ef starfsemi Tollvörugeymslunnar gengur eitthvað öðruvísi hér eftir en hingað til því að Tollvörugeymslan sjálf á hér enga sök.