16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

17. mál, almannatryggingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér er til umr., eru lagðar til þær breytingar á lögum um almannatryggingar að færa tannlæknaþjónustu landsmanna frekar undir tryggingakerfið en verið hefur.

Það er engum blöðum um það að fletta, að mikilvægt skref var stigið í heilsuvernd landsmanna þegar með lögum frá 1974 var ákveðin þátttaka Tryggingastofnunar ríkisins og sjúkrasamlaga í tannlæknakostnaði ákveðinna þjóðfélagshópa. Vart er um það deilt, að tannvernd og tannlæknaþjónusta eru mikilvægur þáttur í heilsuvernd landsmanna og efalítið sú læknisþjónusta sem landsmenn flestir þurfa hvað mest að sækja til. Þessi þáttur heilbrigðisþjónustunnar í landinu hefur þó orðið nokkuð út undan og ekki skipað þann sess í heilsuvernd landsmanna sem nauðsynlegt er.

Af umr., sem urðu á Alþingi á þeim tíma, 1974, þegar tannlækningar voru að hluta teknar inn í tryggingakerfið, kemur fram að hér hafi aðeins verið stigið fyrsta skrefið í þeim áfanga að færa tannlækningar undir tryggingakerfið, en við það var miðað að ákveðnir aldurshópar fengju þá greitt úr tryggingakerfinu. Er um að ræða einkum börn og unglinga og elli- og örorkulífeyrisþega. Stór hluti þjóðarinnar stendur þó enn að öllu leyti fyrir utan tryggingakerfið í þessu efni og verður alfarið að kosta þennan nauðsynlega þátt heilbrigðisþjónustunnar.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að tannlæknaþjónustan er mjög dýr og alls ekki á allra færi að veita sér hana svo vel sé. Afleiðing þessa er augljós. Tannvernd margra er í algjöru lágmarki og tannskemmdir ná að þróast, oft á illt og óviðráðanlegt stig, og geta valdið slæmum tannsjúkdómum. Í öllum tilfellum eru þá aðgerðir gífurlega kostnaðarsamar og ekki nema á færi einstakra manna að ráða við, nema steypa sér út í miklar skuldir. Auk þess hefur verið á það bent, að slæmir tannsjúkdómar geta í vissum tilfellum leitt af sér ýmsa aðra sjúkdóma.

Sjálfsagt er því haldið fram af mörgum, að slæma tannsjúkdóma megi rekja til vanrækslu í mörgum tilfellum og að ekki sé leitað reglulega til tanneftirlits eða lækninga á tannskemmdum og öðrum tannsjúkdómum. Ég vil þó fullyrða að þar sé engu síður um að kenna þeim mikla kostnaði sem oft fylgir tannlæknaþjónustu. Fólk hreinlega veigrar sér við í lengstu lög að leita til tannlækna. Ég tel að mjög brýnt sé að koma á skipulegu tanneftirliti og tannvernd meðal landsmanna og að hið opinbera gefi meiri gaum að þessum þætti í heilbrigðisþjónustunni þannig að með raunhæfum aðgerðum megi draga úr alvarlegum tannsjúkdómum og kostnaðarsömum.

Kostnaðurinn við tannlæknaþjónustu og taxtar tannlækna eru auðvitað kafli út af fyrir sig sem ég ætla ekki hér að taka langan tíma í að ræða. En ég tel ekki ofmælt að það sé brýnt verkefni að stjórnvöld taki það mál fastari tökum en verið hefur. Vekur það raunar furðu að ekki skuli af stjórnvöldum frekar hafa verið farið ofan í kjölinn á því máli. Fyrir þessu þingi liggur frv., sem ég hef lagt fram um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, en í því frv. felst m. a. að taxtar tannlækna verði undir sérstöku eftirliti. Mun ég því bíða með að gera þeim þætti, sem snýr að því, betri skil þangað til það mál kemur hér til umr.

Mörg rök mæla með því, að tannlækningar falli í meiri og víðtækari mæli undir almannatryggingakerfið en nú er. Vil ég nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi má nefna, að vegna upplýsingaskorts er erfitt að koma við skipulögðum rannsóknum á tíðni hinna ýmsu tannsjúkdóma sem á megi byggja skipulega tannvernd og þátttöku hins opinbera í henni sem gildi gæti haft við fræðilega könnun á stöðu tannlækninga hér á landi. Til þess að slík rannsókn hafi raunhæft gildi yrði að taka með tannaðgerðir og tíðni þeirra hjá öllum aldurshópum. Sá grundvöllur skapaðist með meiri þátttöku hins opinbera í tannlæknaþjónustu, en í formi nákvæmlega sundurliðaðra greiðslukvittana fyrir tannaðgerðir opnaðist möguleiki á skipulögðum rannsóknum á tannsjúkdómum og þróun þeirra í framtíðinni. Grundvöll yrði þar með hægt að leggja að skipulegu fyrirbyggjandi starfi í tannlækningum.

Í öðru lagi má nefna, að þátttaka hins opinbera gerði mörgum kleift að leita fyrr með nauðsynlegar aðgerðir til tannlækna, sem þýðir sparnað og fyrirbyggjandi aðgerðir.

Í þriðja lagi: Draga mundi úr tíðni tannskemmda og alvarlegra tannsjúkdóma og komið yrði í veg fyrir að þeir þróuðust á erfitt og jafnvel óviðráðanlegt stig.

Í fjórða lagi: Sundurliðun og nákvæm greiðslukvittun skapar einnig virki eftirlit með gjaldtöku tannlækna. Varðandi þennan síðasta lið vil ég nefna að það er brýnt, eins og lagt er til í þessu frv., að skylda tannlækna til að leggja fram sundurliðaða greiðslukvittun um verkþætti í þeirri þjónustu sem þeir veita. Í þau sex eða sjö ár, sem tannlæknaþjónusta hefur verið að hluta til undir tryggingakerfinu, hefur verið mjög erfitt að hafa nokkurt eftirlit með gjaldtöku tannlækna vegna þess að þær greiðslukvittanir, sem tannlæknar gefa, eru mjög óaðgengilegar til nokkurs eftirlits. Það verður að teljast lágmark, þegar tannlækningar eru greiddar af opinberu fé, að svo sé um hnútana búið að hægt sé að hafa virkt eftirlit með gjaldtöku. Tryggingastofnun ríkisins hefur nú um langan tíma staðið í samningaþófi við tannlækna til að fá þá til að leggja fram viðunandi greiðslukvittun. En það er auðvitað alveg fráleitt að nauðsyn sé að standa í löngu samningaþófi við tannlækna til að fá þá til að leggja fram viðunandi greiðslukvittun fyrir þjónustu sem greidd er af opinberu fé. Það kvittanaform, sem tannlæknar hafa hingað til fengist til að leggja fram, hefur ekkert raunhæft upplýsingagildi til eftirlits með gjaldtöku tannlækna, auk þess sem ljóst er að sundurliðuð greiðslukvittun, þar sem koma fram helstu verkþættir, er mikilvæg til að hægt sé að koma við skipulögðum rannsóknum á tíðni hinna ýmsu tannsjúkdóma sem á megi byggja skipulega tannvernd, ekki síður en þær koma að gagni við fræðilega könnun á stóðu tannlækninga hér á landi. Allt ber því að sama brunni, að nauðsynlegt sé að skylda tannlækna til að leggja fram sundurliðaða greiðslukvittun í því formi sem Tryggingastofnunin óskar eftir og hún þarf á að halda til að geta haldið uppi eftirliti.

Að þessu sinni er lagt til í þessu frv. að tryggingakerfið greiði 25% kostnaðar við tannviðgerðir, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúaraðgerðir, fyrir þá sem ekki nú þegar falla undir almannatryggingakerfið, en við gullfyllingar, krónu- og brúaraðgerðir, sem eru einn dýrasti þáttur tannlæknaþjónustunnar, verði greidd 20% kostnaðar. Í tryggingakerfinu er nú aðeins greitt fyrir börn og unglinga og þess háttar aðgerðir, en það er sá aldurshópur sem hvað minnst þarf á þess konar þjónustu að halda. Því liggja í raun ekki fyrir þar neinar tölur um hvað meiri háttar aðgerðir við slíka þjónustu kosta, en ekki er óalgengt að heyra hjá þeim, sem hafa þurft að leita sér slíkrar tannlæknaþjónustu, að algengur kostnaður sé 30–40 þús. kr. þegar um mjög miklar aðgerðir er að ræða, en ef til þarf að koma auk gullfyllingar ýmsar tannholdsaðgerðir, auk brúaraðgerða, þá geti kostnaðurinn farið í 60 þús. kr. Það sjá allir, að fólk með lágar og meðaltekjur getur engan veginn staðið undir þeim kostnaði og mundi það létta verulega ef ríkisvaldið greiddi 20% kostnaðar við þessar aðgerðir.

Víðast hvar í nágrannalöndum okkar hefur hið opinbera viðurkennt meira en hér á landi nauðsyn þessarar þjónustu í heilsuvernd landsmanna og komið meira til móts við kostnað fólks í þessu sambandi en hér á landi er gert. Í Bretlandi má t. d. nefna að mjög fjölmennir hópar eru undanþegnir öllum greiðslum, en heildarupphæð fyrir meðferð þeirra, sem greiða þurfa að hluta fyrir tannlæknaþjónustu, fer þó ekki fram úr ákveðnu hámarki sem verið hefur um 1/5 hluti kostnaðar.

Flm. þessa frv. telja, að með tillögunum, sem hér eru kynntar, sé ekki farið of geyst í að setja tannlækningar frekar undir tryggingakerfið en verið hefur, en bent á nauðsyn þess að stiga það skref að færa þær frekar undir tryggingakerfið.

Það er ljóst, að erfitt er að gera sér grein fyrir kostnaði þessu samfara, enda erfitt að gefa sér nokkrar forsendur til útreiknings kostnaðar í þessu sambandi þar sem hvergi liggur fyrir nein úttekt á heildarkostnaði við tannlækningar hér á landi eða gögn sem af megi draga ályktanir í þessu efni. Telja flm. hæpið að greiða hærri prósentuhlut fyrr en slík úttekt liggur fyrir, en í framhaldi af því mætti ákveða frekari stefnumörkun í þessu máli. Flm. benda á í grg. að lægri prósentuhlutur kæmi vissulega til greina, þar sem úttekt liggur ekki fyrir á heildarkostnaði. Prósentuhluturinn má þó ekki vera svo lítill að hann rýri gildi könnunar sem í framhaldi af þessu yrði gerð á heildarkostnaði landsmanna við tannlækningar, en með því fyrirkomulagi, sem hér er lagt til, opnuðust einmitt þeir möguleikar að gera könnun á heildarkostnaði við tannlækningar á Íslandi og könnun á stöðu tannlækninga hér á landi.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til heilbr.- og trn.