16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

17. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er hreyft þörfu máli. Þegar lögin um almannatryggingar voru sett var ákveðið að heimila að Tryggingastofnunin tæki þátt í kostnaði við tannviðgerðir eftir reglum sem ákveðnar verða hverju sinni af heilbr.- og trmrn. Það er m. ö. o. eitt af heimildarákvæðum almannatryggingalaganna sem hér er um að ræða. Það er þess vegna unnt með stjórnvaldsákvörðun, þ. e. reglugerð, að ákveða að þessar heimildir nái til fleiri aðila samkv. þeim upplýsingum sem ég hef frá mínum samstarfsmönnum í heilbr.- og trmrn.

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi þáttur í okkar heilbrigðisþjónustu sé sá lakasti og að það sé brýn nauðsyn að við tökum á þessum málum hér og að ríkisstj. fari yfir þessi mál og þá sérstaklega auðvitað hvað þau kosta, en hér er um að ræða mjög verulega fjármuni. Á árinu 1982 er áætlað að verja til tannviðgerða 45.3 millj. nýkr. eða 4.5 milljörðum gkr. eingöngu í þennan lið sjúkratrygginganna. Menn sjá því hvað hér er í raun og veru um gríðarlega stórt verkefni að ræða. Ástæðan til þess, að menn hafa ekki þegar tekið ákvörðun um að tannviðgerðir almennt og tannlækningar verði teknar inn í sjúkratryggingarnar, er ábyggilega sú, að menn hafa ekki séð fram úr því hvaða kostnað slíki hefði í för með sér.

Ég hef þess vegna beðið samstarfsmenn mína í heilbr.- og trmrn. um að reyna að áætla hvaða kostnað vissar úrbætur í þessum efnum hefðu í för með sér. Stendur sú athugun nú yfir. Þar hefur komið margt til greina. Þar kemur til greina þessi leið, sem hv. þm. Alþfl. leggja til, að beinlínis verði tekið fram að tiltekinn hluti af tannlækningakostnaði skuli greiddur af sjúkratryggingunum. En það kæmi líka til greina önnur leið sem ég hef látið kanna sérstaklega og er með í sérstakri athugun. Hún er í því fólgin, að menn fái skattafslátt vegna þessarar þjónustu út á þær kvittanir sem þeir leggja fram fyrir hana. Ég tel að með því móti væru slegnar tvær flugur í einu höggi og stuðlað jafnframt að öruggari framtölum fyrir þá þjónustu sem hér er verið að greiða fyrir. Þetta er hins vegar ekki alveg einfalt mál, þannig að ég hef í sjálfu sér ekki gert upp hug minn endanlega í þeim efnum, hvort þessa leið á að fara eða þá leið að greiða þetta beint í gegnum sjúkratryggingarnar. Það væri líka hugsanlegt að fara báðar leiðirnar, þ. e. að vera bæði með eitthvert afsláttarkerfi og eins þá leið sem hér er stungið upp á, en það á þá að vera hægt að gera með reglugerð, þ. e. ef farin yrði sú leið sem lögð er til í 1. og 2. gr., ef þær upplýsingar eru réttar sem mínir embættismenn hafa greint mér frá.

Varðandi þessi mál almennt er ég þeirrar skoðunar, eins og ég sagði, að þau séu í raun og veru einn lakasti þáttur okkar heilbrigðisþjónustu. Það er ekki vansalaust á ofanverðri 20. öld að þeim málum skuli háttað eins og raun ber vitni. Það er ábyggilega þannig, að fólk hlífist við að leita til tannlækna vegna þess gífurlega kostnaðar sem það hefur í för með sér, einkum og sér í lagi fyrir stórar fjölskyldur, þó að þær muni að sjálfsögðu meira en aðra um þá greiðslu sem nú er um að ræða á hluta af tannviðgerða- og tannlækningakostnaði.

Það var minnst hér af hv. þm. á taxta tannlækna og að þeir þyrftu að vera undir sérstöku eftirliti. Undir það tek ég. Þeir eiga að vera undir sérstöku eftirliti nú þegar, en það er auðvitað slaki eftirlit, ekki nærri nógu gott. Það mætti og þyrfti gjarnan að vera miklu betra. Þáttur í því samningaþófi, sem hefur verið í gangi við Tannlæknafélag Íslands nú undanfarið ár, er einmitt um að þetta eftirlit verði bætt mjög verulega og teknar verði upp samræmdar sundurliðaðar greiðslukvittanir fyrir þá þjónustu sem þessir aðilar veita, þannig að auðveldara sé að hafa eftirlit með því, hvernig þjónustan er innt af hendi og hvaða greiðslur menn þurfa að láta af hendi til tannlæknanna.

Ég held að hér sé um að ræða mál sem við þurfum að taka ákveðnum tökum. Ég hef fullan vilja til þess og er ánægður með að það er komið hér á dagskrá. Ég minni að vísu á að þetta mál er raunar á dagskrá líka í Sþ. Þar liggur fyrir fsp. frá hv. þm. Alexander Stefánssyni um svipuð mál, en hún hefur ekki komist að af ýmsum ástæðum að undanförnu, vegna þess að aðrar fsp. hafa tekið lengri tíma og vegna þess að menn hafa viljað ræða önnur mál í fyrirspurnatímum. Það er sem sagt greinilegt að menn eru mjög með hugann við þetta. En þá er nauðsynlegt að menn átti sig ekki einasta á því, hvaða réttlætismál er hér á ferðinni, því að mér heyrist að um það séu allir sammála, heldur þurfa menn að átta sig á því, hvaða kostnað þetta hefur í fór með sér og með hvaða hætti er unnt að grípa til ráðstafana sem eru þannig að þær upplýsi það hið fyrsta, hver heildarkostnaðurinn gæti orðið í þessum efnum.

Ég lít þannig á, að núverandi fyrirkomulag í þessum málum, greiðslur sjúkratrygginga af tannlækningakostnaði, sé aðeins skref sem stigið hafi verið á réttri braut og að við eigum að sjálfsögðu að setja okkur það mark að þessi þáttur verði meðhöndlaður með svipuðum hætti og öll okkar heilbrigðisþjónusta þegar markinu er náð og menn hafa gert upp við sig með hvaða hætti þetta verður best gert.

Nú vil ég einnig láta það koma fram hér sem mína skoðun, að ég tel að núverandi greiðslufyrirkomulag til tannlækna — og raunar til sérfræðinga í læknastétt að sumu leyti líka — sé í rauninni algjörlega óhafandi. Hér er um að ræða greiðslur fyrir hvert viðvik sem þessir menn inna af hendi, og gera það vafalaust oftast vel sem betur fer. Ég held að það eigi að halda þannig á málum að læknar allir, sérfræðingar og tannlæknar meðtaldir, verði á fastlaunakerfi eins og aðrir launamenn hér í þjóðfélaginu. Ég vil láta það koma fram hér, að við höfum um nokkurt skeið verið með í athugun með hvaða hætti þetta gæti gerst hér í Reykjavík, þar sem menn hafa verið með svokallað númerakerfi í gangi um langt skeið. Í Reykjavík eru í starfi um 20–25 „númeralæknar“, sem svo eru kallaðir, og það hefur vafist fyrir yfirvöldum á undanfórnum árum, eins og eðlilegt er vegna þess að málið er flókið, að koma því þannig fyrir að þessir menn flyttust yfir á fastlaunakerfi og yrðu heilsugæslulæknar og Reykjavík yrði þar með skipt í heilsugæsluumdæmi. Ég vil geta þess, að samninganefnd, sem við höfum verið með í gangi síðan í júní, hefur komist að alveg ákveðinni niðurstöðu um fyrirkomulag í þessum efnum. Reykjavík yrði þá skipt í heilsugæsluumdæmi og þar með sköpuðust forsendur til að heimilislæknar yrðu á fastlaunakerfi. Þar með væri stigið skref í rétta átt, sem síðan þyrfti að ná til allra starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar, einnig tannlækna.