16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

17. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þá hugsun, sem fram kemur í frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur o. fl.. og tek undir það, að of lítið hefur verið gert að því að auka við þær heimildir sem fyrir eru í lögum nr. 95 frá 1975, en það hefur, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að sjálfsögðu strandað á peningum.

Ég vil hins vegar vekja athygli hv. flm. á því, að mér finnst hér stungið upp á alrangri aðferð við að auka greiðslu sjúkrasamlagsins í tannviðgerðum. Ég held að það sé gjörsamlega óraunhæft að stinga upp á því, sem hér er gert, að allir skuli nú þegar koma inn í 25% kostnaðar. Ég held að eðlilegt framhald af því, sem gert var ráð fyrir í lögunum þegar þau voru sett, sé að hækka aldur þeirra sem þessarar þjónustu njóta. Það hefur verið gert lítillega með lögum nr. 59 frá 1978, en þá var veitt heimild til að greiða 75% aðgerðar á 17–18 ára unglingum, en áður höfðu lögin einungis náð til 16 ára einstaklinga.

Það kom í ljós þegar upphaflegu lögin voru sett, en eins og menn muna voru tannviðgerðir vanfærra kvenna greiddar að nokkru, að frá því að konur voru 16 ára og þar til konur fóru að eiga börn vildu tannlæknar almennt halda því fram, að þetta tímabil hefðu þær vanrækt tannhirðu sína, og töldu að þetta ákvæði laganna hefði beinlínis komið þannig út að það hefði verið niðurrífandi fyrir almenna tannhirðu kvenna í landinu. Þess vegna var þetta afnumið. Ég átti sjálf sæti í nefnd, sem um þetta fjallaði. og skal ekki neita því, að mér var það nokkuð sárt að fella þetta ákvæði út, en við beygðum okkur, þær tvær konur sem í þeirri nefnd sátu, fyrir þeim ómótmælanlegu rökum sérfræðinga að þetta væri ekkil rétt leið til að stuðla að almennri og betri tannhirðu manna. Þar kom jafnframt fram samróma álit þeirra, að eðlilegt framhald á framgangi þessa máls væri að hækka hægt og sígandi, eftir því sem efni landsmanna leyfðu, aldur þeirra sem þessarar þjónustu njóta. Mér þykir sjálfsagt að athuga það mál þegar frv. kemur til heilbr.- og trn.

Ég tel hins vegar, að þær hugmyndir, sem menn hafa viðrað hér um skattafrádrátt, séu heldur hæpnar, og er ekki viss um að ég treysti mér til að styðja þær. Ég held að miklu eðlilegri leið væri sú sem ég hef hér minnst á.

Ég held líka að það sé mál til komið að athuga hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins. Eins og öllum er kunnugt greiða sveitarfélögin 15% af kostnaði sjúkrasamlaga eða þar um bil. Þetta er auðvitað verulegur baggi á sveitarfélögunum. Sem dæmi get ég tekið að árið 1980 greiddi Sjúkrasamlag Reykjavíkur hvorki meira né minna en 878 millj. 478 þús. kr. til tannviðgerða þess litla hóps sem nýtur greiðslu sjúkrasamlags, og helmingskostnaður Reykjavíkurborgar í tannlækningum skólabarna var 600 gamlar millj. Þetta eru samtals 1478 gamlar millj. Ég held að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir geti þá sagt sér nokkuð sjálf, að þessar upphæðir margfaldast vitanlega þegar inn koma fleiri hópar, ef þessi 25% kostnaðargreiðsla ætti að koma á alla aldursflokka í einn. Ég er hrædd um að það sé einmitt fólkið sem nýtur dýrustu tannviðgerða — fólk svona frá tvítugu og þar yfir. Þannig held ég að þetta frv. sé því miður óraunhæft kostnaðarlega séð, en það þýðir ekki að ekki sé auðvelt að vera sammála hugsuninni sem að baki þess liggur.

Ég vil taka undir þau orð sem hæstv. heilbr.- og trmrh. sagði hér áðan um greiðslur til tannlækna. Það er auðvitað undarlegt að tannlæknar, t. d. skólatannlæknar og heilsugæslutannlæknar, skuli ekki vera með mánaðarlaun eins og aðrir launþegar. Eins og þetta er framkvæmt nú er ekki annað að sjá en að tannlæknar fái ókeypis aðstöðu undir starfsemi sína, en síðan greiðslur nokkuð á borð við þær sem þeir fá sem fjármagna sínar tannlæknastofur sjálfir. Þetta hlýtur auðvitað að vera með öllu óeðlilegt og valda miklum útgjöldum fyrir hið opinbera.

Ég mun ekki hafa mörg fleiri orð um þetta. Þó vil ég aðeins minnast á eitt mál sem ég held að ástæða væri fyrir nefndina að skoða í sambandi við meðferð þessa máls, en það eru greiðslur til þeirra einstaklinga sem þurfa á miklum tannviðgerðum að halda og tannsmíðum vegna sjúkdóma. T. d. eru mörg dæmi um krabbameinssjúklinga sem fá þann sjúkdóm í munn eða andlit og hafa orðið að bera verulegan kostnað af mjög dýrum tannsmíðum sjálfir. Það ætti að vera tiltölulega einfalt fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. að gefa út dagskipun um leiðréttingu þessara mála. Slík mál hafa gjarnan farið fyrir tryggingaráð, en mér er fullkunnugt um að þessar greiðslur hafa ekki verið inntar af hendi nema að litlu leyti. Skoðun mín er sú, að slíkar greiðslur ættu hiklaust að greiðast að fullu af sjúkrasamlagi.

Að öðru leyti fagna ég því, að þetta frv. er fram komið. Það gefur hv. heilbr.- og trn. tækifæri til að fjalla um þessi mál.