16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

17. mál, almannatryggingar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil segja það hér að að sumu leyti er hægt að taka undir tilganginn með þessum tillöguflutningi, því að alltaf er að sjálfsögðu hægt að bæta um í sambandi við aðstoð við fólk á heilbrigðissviðinu.

Ég vil taka það fram, að eins og allir hv. alþm. sjálfsagt vita hafði sú breyting á heilbrigðislöggjöfinni, sem gerð var á sínum tíma að því er varðar tannlækningar, mjög jákvæð áhrif. En ég vil nota tækifærið um leið og segja það hér, að ég tel að það þurfi enn frekar að herða það eftirlit eða þær aðgerðir, sem geta komið í veg fyrir tannskemmdir, með því að auka þátttöku í því eftirliti og þeim aðgerðum sem tannlæknar eiga að gera í sambandi við börnin og ekki hvað síst í skólum landsins. Það eru slíkar fyrirbyggjandi aðgerðir sem allir voru sammála um að þyrfti að auka. Ég er hræddur um að víða sé þarna enn pottur brotinn og tannlæknar fari e. t. v. ekki rétt að í sambandi við það sem lögin gera ráð fyrir. Og aðstaða til þess er víða ófullkomin. Úr þessu þarf að bæta.

En það, sem ég vildi aðallega tala hér um, er í framkvæmd þessara mála. Eins og allir vita er eftirlitið með gjaldtöku tannlækna í höndum Tryggingastofnunar ríkisins og hér er ekki um neitt smámál að ræða, eins og þegar hefur komið fram. Ég bar fram á Alþingi 1979 fsp. til hæstv. þáv. heilbrmrh. um þessi mál. Það kom fram í svari hans, sem og hér í þingskjölum, að þetta eftirlit er mjög ófullkomið. Tannlæknarnir ráða sjálfir hvenær þeir fá þetta eftirlit yfir sig. Þeir ráða því sjálfir hvernig þeir leggja fram gögnin. Í áliti tryggingatannlæknis kom í ljós — og það er opinbert álit — að þau gögn, sem tannlæknar í landinu leggi fram og nota til að fá þessar greiðslur í gegnum almannatryggingar, eru alls ófullnægjandi. Það er ekkert sönnunargildi í þessum gögnum.

Ég mun koma nánar inn á þetta atriði í fyrirspurnatíma, þar sem ég hef lagt fram á Alþingi fsp. um þetta mál. En ég verð að segja það alveg eins og er, að meðan ekki er búið að lagfæra svona augljósa galla, að vissir menn í heilbrigðiskerfinu geta tekið greiðslur úr hendi Tryggingastofnunar ríkisins eða frá ríkinu án þess að það eftirlit, sem lögin gerðu ráð fyrir að ætti að vera virkt, sé raunhæft, og fyrir liggur að þessi endurskoðun kemur ekki í veg fyrir misnotkun, þá er dálítið erfitt að samþykkja að halda áfram á þessari braut, jafnsjálfsagt sem það er að auka þátttöku ríkisins í tannviðgerðum og tanneftirliti, ekki síst með bórnum og unglingum, en þá er þetta eiginlega grundvallaratriði.

Ég hef gert mér talsvert far um það á undanförnum árum að reyna að kafa ofan í þetta mál. M. a. hef ég með höndum alla þá samninga sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert við Tannlæknafélag Íslands. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um hvernig gjaldskrá tannlækna er búin til, því að eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni er það furðulegt að tannlæknar, sem starfa við heilsugæslustöðvar víðs vegar um landið, nota sömu gjaldskrá og læknar sem reka og byggja upp sjálfstæðar lækningastofur víðs vegar, ekki síst hér á Reykjavíkursvæðinu. Þetta virtist eiga að vera leyndarmál og það reyndist miklum erfiðleikum bundið að útvega upplýsingar um hvernig taxti tannlækna væri búinn til. Þá kom í ljós, að þessi taxti er sniðinn eftir dýrustu aðstæðum sem tannlæknar hér á landi geta miðað við og varða eigið húsnæði, eigin tæki o. s. frv.

Mér finnst alveg furðulegt hvernig við stöndum núna á árinu 1981. Það er búið að vera að ræða um þetta í nokkur ár og Tryggingastofnun ríkisins viðurkennir að sú aðstaða til eftirlits með framkvæmd laganna, sem allir voru sammála um að setja, sé algjörlega ófullnægjandi, þannig að það sé ekki hægt á einn eða neinn hátt að sanna eða afsanna hvort viðkomandi taki rétt gjald fyrir tannlæknaþjónustuna. Þetta finnst mér aðalatriði málsins, þegar við erum um leið sammála um að það eigi að auka þennan þátt í tryggingakerfinu og aðstoða fólk til að fá þá meðferð sem æskileg er á þessu heilbrigðissviði.

Ég vil undirstrika það hér, að þetta er atriði sem verður að lagfæra. Það getur vel verið að það sé hægt að finna nýjar leiðir til greiðslu á þessum aðgerðum, en alla vega er málið stórt í mínum huga. Mér finnst að þegar um er að ræða fjárhæðir, sem nema 4–5 milljörðum gamalla króna til greiðslu frá því opinbera, sé ekki sama hvernig hún er tekin. Ég hef séð tekjureikning frá einum tannlækni sem er kannske með á annað hundrað millj. kr. í brúttótekjur án þess að þurfa að leggja sér til töng til að draga tönn úr manni, hvað þá annan kostnað. Þetta finnst mér gefa tilefni til þess, að hér sé um mál að ræða sem þurfi að taka föstum tökum.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að þetta er mál sem þarf að skoða vel, um leið og ég lýsi yfir að ég er samþykkur því, að hið opinbera greiði verulegt fjármagn á þessu heilbrigðissviði til fólks. En allra brýnast er að auka fyrirbyggjandi aðgerðir á þessu sviði og þá eigum við að byrja á börnunum og fylgja aðgerðunum síðan eftir.