16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

17. mál, almannatryggingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir, sem þetta frv. hefur fengið. Mér finnst þær gefa tilefni til þess, að það sé hægt að vona að á þessu máli verði tekið á þessu þingi á þann hátt að færa tannlækningarnar frekar undir tryggingakerfið.

Það er tvennt, sem mig langar að tala hér um, sem fram kom í máli hæstv. ráðh. Hann hefur greinilega hugleitt þessi mál mikið og verið með það til skoðunar hvernig mætti taka á þessu máli. Hann talaði um að hann hefði talið kannske æskilegra að fara leiðina gegnum skattafslátt eða gegnum skattakerfið. Ég vil upplýsa það hér, að ég hafði einmitt hugsað þá leið líka, að fara gegnum skattakerfið með þetta, og hafði reyndar tilbúið frv. um þá leið, að það skyldi leyfa frádrátt sem nemur 50% af kostnaði við tannlækningar sem er ekki endurgreiddur að hluta eða öllu leyti frá almannatryggingum. Ég bar þetta undir skattasérfræðinga í fjmrn. og þeir töldu alla vankanta á að fara þá leið með tannlækningarnar, að fara með þær gegnum skattakerfið, töldu miklu eðlilega, að þar eð þetta væri þegar undir almannatryggingakerfinu væri farin sú leið. Þess vegna var það að ég flutti frv. í þá veru að setja þetta frekar undir almannatryggingakerfið.

Varðandi það, sem hæstv. ráðh. minntist á, að það væru heimildir fyrir hendi í almannatryggingalögunum og að löggjöf væri þess vegna óþörf, þá tel ég að þetta sé ekki rétt vegna þess að þegar farið er í gegnum lögin um almannatryggingar er talað um vissa aldurshópa. Þar eru þrjú heimildarákvæði fyrir hendi sem fjalla um tannlæknaþjónustu. Þar er í fyrsta lagi heimild til að greiða 75% kostnaðar vegna aðgerða á 17–18 ára unglingum. Þar er heimild til að hækka greiðslu kostnaðar fyrir bótaþega, þ. e. elli- og örorkulífeyrisþega, í 75% og í 100% fyrir langsjúki fólk á stofnunum. Í þriðja lagi er með sama hætti heimilt að hækka greiðslur í 100% fyrir vangefna. Ég held að þessar þrjár heimildir, sem ég sé í þessum lögum, hafi allar að mestu verið nýttar og ekki séu fyrir hendi í almannatryggingalögum nein ákvæði sem heimila framkvæmdavaldinu að taka tannlækningar frekar undir tryggingakerfið en hér er gert. Þess vegna er það mín skoðun, að það þurfi ný ákvæði til að setja þetta frekar undir tryggingakerfið.

Ég vil ítreka þakklæti mitt til þeirra, sem hér hafa tekið til máls, tekið undir þetta frv.