16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

16. mál, verðlag

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingu á lögum um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti sem ég flyt ásamt nokkrum öðrum þm. Alþfl.

Tilgangur þessa lagafrv. er að setja undir sérstaki eftirlit gjaldskrár og verðtaxta sem settir eru einhliða af einstökum stéttum, þjónustuaðilum, fyrirtækjum eða öðrum einkaaðilum.Í frvgr. er kveðið á um að sérstakir starfsmenn Verðlagsstofnunar skuli sérhæfa sig í uppbyggingu slíkra gjaldskráa og verðtaxta og hafa reglulegt eftirlit með þeim. Einnig segir þar að skylt sé að senda rökstudda greinargerð þar sem á fullnægjandi hátt sé gerð grein fyrir einstökum kostnaðarliðum. Enn fremur þarf að tilgreina sérstaklega þóknunar eða álagningarhluta hverrar einstakrar verðlagningar. Allar gjaldskrár og verðtaxtar þurfa að hljóta samþykki verðlagsráðs að fenginni umsögn Verðlagsstofnunar.

Það verður að líta svo á, að ákvæði laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti séu með þeim hætti að Verðlagsstofnun hafi bæði heimild og vald til að hafa afskipti af einhliða settum gjaldskrám og verðtöxtum. Það verður að ætla að það sé einnig á þess valdi að ákveða að allar gjaldskrár og verðtaxtar þurfi að hljóta staðfestingu verðlagsráðs, þó hvergi sé að finna bein ákvæði er snerta meðferð Verðlagsstofnunar á gjaldskrám og verðtöxtum sem settir eru einhliða. Ef þetta er réttur skilningur vaknar sú spurning: Af hverju hefur Verðlagsstofnun einungis haft afskipti af gjaldskrám sumra aðila, sem selja vinnu sína og þjónustu eftir gjaldskrám og verðtöxtum, en annarra ekki? Það er ljóst samkvæmt upplýsingum, sem ég hef aflað mér, að nokkrir aðilar, sem selja þjónustu sína samkvæmt gjaldskrám, eru undir nánast engu eftirliti hjá Verðlagsstofnun. Má þar nefna lögfræðinga, endurskoðendur, arkitekta, verkfræðinga og tannlækna. Þegar sú er raunin hlýtur að vera nauðsyn að setja um það bein ákvæði í lögum að skylda Verðlagsstofnun til að hafa visst eftirlit með öllum einhliða settum gjaldskrám. Ég geri mér fullkomna grein fyrir því, að það er umfangsmikið starf að hafa virki eftirlit með þeim mörgu gjaldskrám sem settar eru fyrir selda þjónustu, en ég undirstrika og legg áherslu á að hjá því verður ekki komist.

Sennilegasta skýringin á því, að Verðlagsstofnun hefur ekki haft nægjanlegt eftirlit með einhliða settum gjaldskrám, hlýtur að vera sú, að Verðlagsstofnun hefur ekki aðstöðu til þess eða starfsmenn hennar til að geta haldið uppi virku eftirliti hvað þessu viðvíkur. En það er knýjandi að skapa henni þá aðstöðu. Stoð í lögum og bein ákvæði þar um hljóta að verða til þess að svo geti orðið. Reynslan sýnir að sá lagarammi, sem byggt er á, hefur ekki dugað til þess að halda uppi virku eftirliti og því er það mat flm. að bein ákvæði um þetta í lögum séu nauðsyn.

Í 1. gr. laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti kemur fram sem eitt af markmiðum laganna að stuðla að sanngjarnri skiptingu þjóðartekna. Þó um það megi deila, hvernig til hafi tekist um framkvæmd á skiptingu þjóðartekna sem í geti falist ákveðið þjóðfélagslegt réttlæti, má segja að varðandi veigamikinn þátt þess gildi ákveðnar leikreglur sem flestir verða að hlíta. Bæði vinnukaupendur og vinnuþiggjendur þurfa að hlíta ákveðnum leikreglum. Þeir þurfa að komast að samkomulagi um verð fyrir vinnuframlag sem báðir aðilar sætta sig við. Hvorugur aðili hefur einhliða ákvörðunarvald í þessu efni.

Auðvitað eiga sömu leikreglur að gilda um þjónustuaðila sem selja vinnu sína samkvæmt gjaldskrám. Það fyrirkomulag er vægast sagt óþolandi, að nokkrir aðilar fái að ráðskast með það sjálfir, hvaða verð þeir setja upp fyrir sína þjónustu, og séu þar með undanþegnir öllum almennum leikreglum í þessu þjóðfélagi. Svo virðist vera, að ákvörðunin sé einhliða á þeirra valdi hvað þeir setja upp fyrir sitt vinnuframlag. Ég vil t. d. spyrja varðandi þá aðila, sem eru undir engu eftirliti hjá Verðlagsstofnun í þessu efni, eins og lögfræðinga, endurskoðendur, arkitekta, verkfræðinga og kannske ekki síst tannlækna: Hefur nokkurn tíma verið skoðaður verðmyndunargrunnurinn í gjaldskrám þessara aðila? Er nokkuð vitað um hvernig þeir byggja upp sínar gjaldskrár? Er Verðlagsstofnun kunnugt um hve stór hluti gjaldskrárinnar er rekstrarkostnaður eða fjármagnskostnaður eða hvað sé lagt til grundvallar í því efni í gjaldskránni? Og aftur má spyrja: Hvað er lagt til grundvallar í verðskránni varðandi laun þessara þjónustuaðila? Grunur minn er sá, að litið sé vitað um þessi efni hjá Verðlagsstofnun. Ef lítið er vitað um verðmyndunargrunninn, hvernig gjaldskráin er uppbyggð, hvert sé vægi einstakra kostnaðarþátta í gjaldskránni, þá er ljóst að þær stéttir sem eru undir engu eftirliti í þessu efni geta skammtað sér laun og tekjur sjálfar.

Það væri ekki ónýtt fyrir hinn almenna launþega í þessu landi að vera í þessari aðstóðu og segja bara við atvinnurekendur og ríkisvaldið: Það er okkar skoðun að okkar vinnuframlag sé svo og svo mikils virði og það skal greiða. Þið hafið ekkert um það að segja. — En auðvitað er því ekki að heilsa og á ekki að vera. Launþegar þurfa að standa í margra mánaða samningaþófi til að fá leiðréttingu á sínum kjörum um örfá prósentustig meðan aðrar stéttir eru í þeirri aðstöðu að þurfa ekki að semja við einn eða neitt um hvað þeir skammta sér í laun og tekjur. Og hver þarf að borga brúsann af þessu fyrirkomulagi? Auðvitað launþegarnir sem þurfa að standa í margra mánaða samningaþófi um sínar tekjur. Þeir þurfa að greiða fyrir þá þjónustu, sem upp er sett af þessum aðilum, án þess að ríkisvaldið hafi nokkur afskipti af þeim gjaldskrám sem þessir aðilar setja upp.

Launþegar þurfa að hlíta leikreglum í þessu landi um kaup og kjör. Atvinnurekendur og launþegar þurfa að komast að samkomulagi um verð fyrir vinnuframlag sem báðir aðilar sætta sig við. Enginn á að vera undanþeginn þeirri leikreglu. Það hlýtur að vera krafa þjóðfélagsþegnanna til ríkisvaldsins, að það sjái svo um að nokkrar stéttir í þessu landi fái ekki óhindrað að ráðskast með, utan við allar eðlilegar leikreglur, hvaða verði þær meta sitt vinnuframlag — hvað þær skammta sér sjálfar í tekjur. Án alls opinbers eftirlits um hvað talist getur sanngjarnt og eðlilegt komast þessir aðilar upp með að skammta sér á óeðlilegan hátt sinn skerf af þjóðarkökunni án tillits til annarra.

Mjög er auðvitað misjafnt hvað allur almenningur þarf oft að leita til þeirra aðila sem hér hafa verið tilgreindir og eru undir nánast engu eftirliti hjá Verðlagsstofnun. Tannlæknar eru þó tvímælalaust sá aðili sem allur almenningur þarf mikið að leita til, og í grg. hef ég því valið að taka dæmi af þeim aðilum. Það er engum blöðum um það að fletta, að þjónusta þeirra er mjög dýr. Erfitt hefur reynst að hafa nokkurt eftirlit með gjaldskrám þessara aðila, ekki eingöngu hjá Verðlagsstofnun, heldur einnig að því er varðar að fá fram sundurliðun á greiðslukvittun fyrir þjónustu sem þeir veita og greidd hefur verið af almannatryggingum. Par að auki gefa þeir út lágmarkstaxta þannig að erfitt er að henda reiður á hvað greiða þarf fyrir þessa þjónustu.

Í samningi milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins, sem gerður var 1975, kemur fram að 80% af gjaldskrárfjárhæðum svari til rekstrarkostnaðar tannlækna. Ekki vil ég leggja á það mat. hvort þessi verðmyndunargrunnur er réttur, en ljóst er þó að verulegur hluti af verði gjaldskrárinnar er laun tannlækna. Því til staðfestingar vil ég — með leyfi forseta — fá að vitna í athyglisverðar tölur. sem fram komu á Alþingi í janúar 1980, en þar kemur fram eftirfarandi hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni, — í fsp. hans til heilbrrh. um eftirlitsskyldu Tryggingastofnunar ríkisins á gjaldtöku tannlækna. Með leyfi forseta sagði hv. þm.:

„Þegar sú breyting á heilbrigðísþjónustu gekk í gildi, að ríki og sveitarfélög greiða tannlæknaþjónustu, sbr. 44. gr. laga um almannatryggingar, varð fljótlega ljóst að þessi breyting varð miklu meiri að umfangi kostnaðarlega en almennt hafði verið reiknað með. Sérstaklega voru mörg sveitarfélög vanbúin að mæta þessum miklu útgjöldum, sem jafnframt juku gífurlega hlut sjúkrasamlaga. Þess eru dæmi, að á s. l. ári — þ. e. á árinu 1979 — „nam þessi kostnaður í sveitarfélagi með um í 100 íbúa 7–10 millj. kr., þ. e. 50% kostnaður vegna tannlækninga skólabarna, sem þýðir 14–20 millj. kr. tekjur viðkomandi tannlæknis á árinu aðeins vegna skólabarna.

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 1979 voru áætluð laun hjá tannlæknadeild um 750 millj. kr. Og í áætlun fyrir I 980 er gert ráð fyrir launum til skólatannlækna í hálfu starfi hjá borginni, rúmlega 400 millj. kr. Í blaðaskrifum á s. l. ári“ — þ. e. 1979 — „kom fram að laun skólatannlækna hjá Reykjavíkurborg á. s. l. ári hafa numið 17–28 millj. kr., sé miðað við heils árs starf, eða 70–112 þús. kr. á dag. Hvort hér er um að ræða nákvæmar tölur vil ég ekki fullyrða, en augljóst er að hér er um gífurlegar fjárhæðir að ræða. Því er nauðsynlegt að fá að vita hvernig Tryggingastofnun ríkisins framkvæmir eftirlit með þessum útgjöldum.

Erfitt er að gera sér ljóst hvernig taxtar tannlækna eru gerðir. Miðað við upplýsingar, sem ég hef aflað, er miðað við rekstur eins manns stofu í 60 m2 húsnæði í ársbyrjun 1979 sem nemur 21 millj. kr. á ári. Þar er launaliðurinn um 51%, efni 11,6% og aðstoðarstúlka 10.7%. Síðan eru alls konar rekstrarliðir, þ. á m. afskriftir um 8%. Hvergi er sýnt hver breyting verður ef tannlæknir er í fríu húsnæði og gengur að fullbúinni tannlæknastofu. Þetta er aðeins brot af þessu vandamáli“, sagði hv. þm. Alexander Stefánsson.

Þessar tölur renna stoðum undir það, að þó að lítið sé vitað um verðmyndunargrunninn í gjaldskrá tannlækna er þó ljóst að laun tannlækna sjálfra eru töluvert hár liður í gjaldskránni. Megintilgangurinn með starfsemi Verðlagsstofnunar hlýtur að vera að vernda hag neytenda og tryggja þeim sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir vöru og þjónustu. l il að ná því markmiði getúr þurft að velja mismunandi leiðir, eins og raunar kemur fram í lögum um verðlag. samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. enda ekki algilt að sama fyrirkomulag henti í öllum tilfellum til að tryggja sem hagstæðasta verðlagningu á vörum og þjónustu.

Það er skoðun flm. þessa frv., að sá skortur, sem er á eftirliti með gjaldskrám og verðtöxtum þeirra aðila sem ég hef hér tilgreint, og vera má að sé um að ræða fleiri aðila, tryggi lítt þann grundvallarþátt í starfsemi verðlagsstofnunar sem er að vernda hag neytenda. Ef reynslan er sú, að nokkrar stéttir eru undanþegnar öllu eðlilegu eftirliti með sínar gjaldskrár, þrátt fyrir að telja megi að slíki eftirlit rúmist innan þeirrar lagaheimildar sem fyrir hendi er. verður löggjafarvaldið að grípa aftur inn í og setja um það skýr ákvæði þannig að tryggt sé að haldið sé uppi virku eftirliti með gjaldskrám og lögin kveði skýrt á um hvernig búið skuli að Verðlagsstofnun til þessa að hún geti sinnt hlutverki sinu í þessu efni.

Um það er ákveðið í þessu frv., að sérstakir starfsmenn Verðlagsstofnunar skuli sérhæfa sig í uppbyggingu gjaldskráa og verðtaxta, enda ekki ósennilegt að gjaldskrár séu eins mismunandi að uppbyggingu og þær eru margar og til þurfi að koma sérþekking og kunnátta til að raunhæfu eftirliti verði uppi haldið. Vera má að þetta sé ein skýringin á því, að Verðlagsstofnun hefur ekki haft betra eftirlit með gjaldskrám en raun ber vitni. Er örugglega umfangsmikið verk og flókið að fara ofan í saumana á öllum gjaldskrám svo vel sé, en ég undirstrika og legg áherslu á að hjá því verki verður ekki komist og löggjafarvaldið verður með stoð í lögum að búa svo um hnútana, að Verðlagsstofnun geti sinnt hlutverki sínu.

Í frvgr. er einnig lagt til að með gjaldskrám og verðtöxtum verði skylt að senda inn rökstudda grg. til að auðvelda allt eftirlit. Er það fyrirkomulag nauðsynlegt þannig að hægt sé að gera sér grein fyrir vægi einstakra kostnaðarþátta í gjaldskránni svo að álagningahluti hverra einstakra verðþátta í heildarmyndinni sé ljós. Til að hægt sé að meta hvað réttlætir hækkanir gjaldskráa og verðtaxta er rökstudd greinargerð um hvern þátt fyrir sig í verðmynduninni því mjög nauðsynleg, enda mjög afgerandi þáttur í þeirri breytingu sem hét er lögð til.

Það fyrirkomulag, sem gilt hefur í sumum tilfellum, að gefnir séu út lágmarkstaxtar, er vægast sagt mjög óeðlilegt og lítt í samræmi við tilgang laganna frá 1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Því er lagt til í þessu frv. að ekki sé heimilt að gefa út lágmarkstaxta eða ákveða lágmarksverð. Líta verður því á útgefna taxta sem hámarkstaxta. Þetta fyrirkomulag tryggir mun betur að neytandi viti hverju sinni hvers hann má vænta í kostnaði þegar hann sækir sér þjónustu sem greiðsla er krafin fyrir samkv. einhliða settum gjaldskrám og verðtöxtum.

Einnig er kveðið á um í frv. að gjaldskrárnar skuli hverju sinni auglýstar á þann hátt að aðgengilegar séu almenningi, þannig að á hverjum tíma sé þeim, sem leita þurfa sér þjónustu sem greitt er fyrir samkv. gjaldskrám og verðtöxtum, I jóst hvert sé leyfilegt verð fyrir þá þjónustu. Er það vitaskuld stór þáttur í virku eftirliti, að neytandanum sé kunnugt um leyfilegt hámarksverð fyrir þjónustu sem greitt er fyrir samkv. gjaldskrám.

Í frv. eru tekin af öll tvímæli um það, að allar gjaldskrár og verðtaxtar þurfi samþykki verðlagsráðs. Sýnir það sig að slíkt ákvæði er nauðsynlegt þegar reynslan er að nokkrir aðilar þurfa ekki að leita til Verðlagsstofnunar til að fá samþykki og staðfestingu verðlagsráðs á sínum gjaldskrám. Það kann að vera að flestar gjaldskrár þessara aðila séu sendar Verðlagsstofnun til kynningar, en ljóst er að þær hafa ekki þurft að hljóta samþykki Verðlagsstofnunar áður en farið var að vinna eftir þeim. Liggur í hlutarins eðli að nauðsynlegt er að breyta því fyrirkomulagi þannig að allir aðilar, sem setja gjaldskrár og verðtaxta, búi við sömu skyldu í þessu efni.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. Ég legg áherslu á að það er brýnt að Alþingi taki á þessu máli og taki til athugunar hvort ekki sé nauðsynlegt að setja nánari ákvæði og skyldur varðandi gjaldskrár í lög, þegar í ljós hefur komið að mikið skortir á að virkt eftirlit sé upp með gjaldskrám og verðtöxtum sem sett eru af ýmsum þjónustuaðilum.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska eftir að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.