15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þakklæti til hv. 3. þm. Reykv. fyrir að færa þetta mál hér inn í sali hv. Alþingis. Það er ljóst, að fram hafa komið í blöðum ýmsar hæpnar, svo að vægt sé til orða tekið, yfirlýsingar frá ýmsum opinberum embættismönnum, og það er jafnframt ljóst, að fyrirtæki það, sem hv. 3. þm. Reykv. á aðild að, kemur ekki þessu máli beinlínis við, verður hins vegar leiksoppur innri baráttu í viðkomandi opinberum stofnunum.

Það hefði vissulega verið ástæða til að ræða hér um tollamál, tollgæslu, tollkrítarmál og slíkt, og ég leyfi mér af þessu tilefni að minna á ummæli sem komu fram hér á s. l. þingi um að sett hefði verið nefnd til að kynna sér og skila áliti um tollkrítarmál. Sú nefnd átti að skila áliti í júní s. l. Mér hefur verið sagt að stjórnarþm. — aðeins stjórnarþm. — hafi fengið frv.-drög til skoðunar. Það er samt sem áður einkennilegt, að í nýframlögðu fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir að þetta frv. verði lagt fram á þessu þingi, nema þá að það tæki gildi um áramótin 1982–1983, því að í tekjuáætlun frv. er hvergi að finna áætlun þess efnis, að tollkrítarfrv. eigi að verða að lögum. Þetta er annað mál, sem ég vil þó minna á í þessu sambandi, því starfsemi þess fyrirtækis, sem hér hefur borið á góma, og þetta nýja frv., sem nú er í höndum stjórnarþm., eiga auðvitað ýmislegt sammerkt.

En það, sem mig langar til þess að minnast sérstaklega á, er sú ræða sem hv. 11. þm. Reykv. flutti áðan. Í henni kom fram mjög alvarlegur áburður í garð opinberra embættismanna, bæði tollgæslustjóra og tollstjóra, og þar var því beinlínis haldið fram, að til þess að menn kæmust áfram í þessum tveimur störfum yrðu menn að svíkjast um í starfi. Og það mátti skilja orð hv. ræðumanns á þá leið, að ef menn væru duglegri en aðrir við að upplýsa svik og smygl, þá ættu menn á hættu að vera reknir úr starfi. Þetta er auðvitað ekki aðeins áburður á tollstjóra og tollgæslustjóra, heldur á alla starfsmenn þessa embættis, því að auðvitað verður að skilja þessi ummæli svo að þeir, sem fá uppreisn og upphefð hjá slíkum stofnunum, hljóti að vera stórsvindlarar og smyglarar. Ekki skal ég leggja dóm á það, hvort rétt sé, það þekki ég ekki eins náið og hv. 11. þm. Reykv. virðist þekkja það mál. En ég vil að það komi hér skýrt fram, að hv. 11. þm. Reykv., sem virðist vera gerkunnugur þessu máli, er formaður í þingflokki Alþb. þar sem hæstv. fjmrh., æðsti yfirmaður þessara tveggja embættismanna, situr. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðh.: Er hann sammála því sem formaður þingflokks Alþb. kom hér með og flutti í þingræðu? Er hann sammála þessum alvarlega áburði? Ef svo er, hvað ætlar hann til bragðs að taka? Ætlar hann að láta fara fram opinbera rannsókn í þessu máli? Ætlar hann að fylgja þessu máli eftir? Ætlar hann að koma til leiðar að glæpum af þessari tegund, sem hv. 11. þm. Reykv. bar þessum embættismönnum á brýn, fækki eða þeim verði hætt? Hvað ætlar æðsti yfirmaður þessara tveggja embættismanna að gera? Ef hann er hins vegar ekki sammála formanni þingflokks Alþb., þá ber hæstv. fjmrh. að koma hér í ræðustól sem yfirmaður þessara tveggja manna og bera blak af þeim og segja hv. 11. þm. Reykv. frá skoðun sinni á málinu. Hæstv. ráðh. getur ekki þagað í þessari stöðu.