16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

27. mál, samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja, að menn hafi áhuga á málefnum þjóðkirkjunnar. Hins vegar hlýtur hver og einn að gera það upp við sig sem einstaklingur og maður, hvar hann stendur í trúarsöfnuði, og ég býst við að flestir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi ekki sett sinum starfsmönnum nein skilyrði á því sviði, hvort sem þeir eru ritstjórar eða annað í þeirra röðum. Ég er ekki heldur búinn að sjá að það sé fyrir fram vist, að allir þingflokkar á Alþingi séu á hverjum tíma svo kristilega sinnaðir að það sé fengur að því að fá þá til stuðnings inn í slíka nefnd sem hér er verið að leggja til. Ég fyrir mitt leyti verð að segja það eins og er, að ég vil hafa vinsamleg samskipti við þjóðkirkjuna, en sem beinast og persónulegast samband sem einstaklingur við þá menn sem þar starfa, og tel engan feng í að fá einhvern sérstakan millilið á milli mín og hennar.