15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál, enda veit ég ekki nægilega mikið um það til þess að halda um það langa ræðu. Ég vil þó fagna þeim orðum fjmrh., að þetta mál sé leyst til frambúðar, og ég vil gjarnan taka undir þau orð hans, að fortíðin ætti að skipta minna máli í því sambandi og um hana ættu ekki að fara ítarlegar umr. fram hér á Alþingi meðan menn hafa ekki málsatvik í höndum, þekkja tæplega stöðuna og rannsókn á eftir að fara fram.

Ég vil þó segja það, að mér þykir óeðlilegt að opinberir starfsmenn, tollverðir, þiggi laun frá þeim sem þeir eiga að hafa eftirlit með. Slíkt getur alltaf orðið tilefni ýmissa vangaveltna.

En það, sem kallar mig upp í þennan ræðustól nú, eru orð hv. 11. þm. Reykv. þar sem hann lét að því liggja áðan, að yfirmenn í tollgæslunni héldu undirmönnum sínum niðri eða legðu þá jafnvel í einelti vegna þess að þeir væru of duglegir við að uppræta smygl. Hér er náttúrlega um gífurlega alvarlega ásökun að ræða, og ég fæ ekki séð að það sé nokkur einasta leið fyrir alþm. að sitja undir þessum orðum án þess að þeim sé fundinn einhver staður. Hvað er spilling í einu þjóðfélagi ef það er ekki spilling ef yfirmenn tollgæslunnar bókstaflega standa — eftir þessum orðum — eins og varðhundar um smygl í landinu og banna undirmönnum sínum að uppræta smygl? Ef ég hef skilið þessa ræðu rétt, þá er hér verið að láta að því liggja.

Ég vil strax taka það fram, að ég trúi því ekki að þannig sé málum farið. En þessi orð og þessar aðdróttanir eru svo alvarlegar hér á Alþingi Íslendinga að það er alveg útilokað annað en að fjmrh. taki þessi orð til athugunar, ekki hvað síst þegar það er formaður þingflokks hans sem viðhefur þau hér í sölum Alþingis. Hér er bókstaflega vegið að öllu embættismannakerfi Íslendinga. Ef svona er komið í tollgæslunni, hvar erum við þá staddir með okkar ríkisrekstur? Þetta er svo alvarlegt mál að það hlýtur að vera krafa allra alþm., að fjmrh. athugi þessi ummæli og þeim verði fundinn staður, ella verði þau dregin til baka.