16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

64. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt fjórum öðrum þm. Sjálfstfl. endurflutt þetta frv., sem við, nokkrir þeirra sem erum flm. að því nú, fluttum fyrir áratug. Þá fluttum við þetta frv. í framhaldi af mikilli baráttu sem stóð þá yfir og bar nokkurn árangur í sambandi við bættar líf- og örorkutryggingar sjómanna. Þessar ráðstafanir voru þó bundnar við skip sem lögskráð var á, en eins og gildandi lög segja til um eru það skip sem eru 12 brúttórúmlestir að stærð og stærri.

Síðan þetta var hefur margs konar þróun orðið á þeim sviðum og ber allt að einum brunni i mínum huga og þeirra sem flytja þetta frv. með mér, að á vegum lögskráningar eigi að vera nauðsynlegt eftirlit með skyldum og réttindum sjómanna og reyndar líka þeirra sem gera skipin út, því að það eru lagðar kvaðir á þá sem lögskráningin á einmitt að sjá um að sé framfylgt. Þar á ég við að tryggingar séu í gildi þegar skráð er á skipin, útgerðarmenn hafi séð um að svo sé.

Á síðasta þingi voru samþykktar mjög þýðingarmiklar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Ég held að allir þeir, sem hafa fylgst með framkvæmd þess máls óski þess, að um nokkurra áratuga skeið hefði verið í gildi löggjöf eins og sú sem við erum hér flm. að. Það er nefnilega þegar komið í ljós að það er afskaplega erfitt að sanna sjómennsku þeirra manna sem ekki hafa verið lögskráðir á skip, en það á við um flestalla fiskimenn einhvern tíma þeirra starfsævi, þegar þeir hafa verið á skipum sem eru minni en l2 brúttórúmlestir. Reyndar er þetta líka erfitt fyrir þá sem hafa alla sína tíð verið á stærri skipum, m. a. vegna trassaskapar þeirra sem hafa átt að gæta viðkomandi gagna. Það tel ég þó að þurfi ekki að vera neitt vandamál lengur, þegar sú tækni er komin til sem við þekkjum í sambandi við filmur af skjölum, t. d. opinberum skjölum sem varðveita þarf til langs tíma.

Það er ekkert óeðlilegt að lögskráningin verði bundin við það sem við leggjum til í frvgr., þ. e. að miða hana við skip og báta sem eru 6 m eða lengri, mælt milli stafna. Þau stærðarmörk, sem um er getið, eru í ýmsum lögum: í lögum um skipamælingar, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, um eftirlit með skipum og í lögum um skráningu skipa. Það er því engin nýlunda fyrir löggjafann að miða við þessa stærð. Þótt þessu muni fylgja nokkur aukakostnaður og umstang fyrir þá, sem með málið eiga að fara, og reyndar líka þá, sem starfa á þessum skipum, þá tel ég að með þessu sé svo mikið að vinna að ekki eigi að horfa í það.

Gömul ákvæði eru til um sjóferðabækur sjómanna, en ég held að það sé mikil hætta á að þær glatist á langri starfsævi. Hins vegar á geymsla slíkra gagna eins og lögskráningin er hjá opinberum aðilum ekki að þurfa að glatast þótt nokkrir áratugir líði, eins og ég hef þegar bent á. Eldri menn gleyma á hvaða skipi þeir voru, hve lengi og hvaða ár. Í sambandi við breytingarnar á Lífeyrissjóði sjómanna hafa komið upp erfiðleikar við framkvæmdina. Það er að sjálfsögðu alls ekki nóg að vísa til þess, sem valinkunnir menn geta vottað, þegar menn þurfa að leita eftir réttindum sínum, sem eru þýðingarmikil einmitt fyrir sjómenn vegna þess áfanga sem þeir náðu í sambandi við sín starfskjör og þó sérstaklega við lífeyrisréttindi sín.

Ég vil, herra forseti, leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr.vísað til 2. umr. og sjútvn. Ég tel að málíð eigi heima þar þótt einu sinni hafi verið brotið út af því og þetta mál sent til annarrar nefndar, hv. allshn. Hér áður fyrr minnir mig að þetta mál hafi verið í höndum sjútvn.

Efni lögskráningarlaganna er mál sem varðar aðila sem standa að útgerð og siglingum. Að þeim málum starfar m. a. sjútvn. Alþingis og því tel ég að málið eigi heima þar.

Um leið og ég legg þetta til vil ég óska eftir því, að sú nefnd eða önnur, ef önnur till. verður samþykki um nefnd er taki við þessu máli — líti á 4. gr. umræddra laga. Ég hef fengið ábendingu um það frá valinkunnum mönnum, að athuga þurfi ákvæðið í 3. og 5. tölulið. Í 3. tölulið er fjallað um þegar nýr maður er ráðinn erlendis á íslenski skip, 5. töluliður fjallar um þegar íslenskur sjómaður er ráðinn á erlent skip hér á landi. Það hafa borist fregnir af að fulltrúar úr erlendum sendiráðum hafi kvartað yfir því, að þeir hafi ekki verið kallaðir til þegar hér hefur verið lögskráð á skip frá þeirra þjóð, þótt við gerum þá kröfu erlendis, að þessa sé gætt gagnvart okkar eigin þegnum þegar skráð er í erlendri höfn. Virðist sjálfsagt að verða við því að kanna þetta atriði nánar, og óska ég eftir að viðkomandi nefnd geri það.

Ég legg til, eins og ég tók fram, herra forseti, að málinu verði vísað til sjútvn. og 2. umr.