16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

64. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. og heilbr.- og trmrh. fyrir undirtektir hans við efnisatriði málsins og þann skilning sem hann hefur á málinu og það að fenginni reynslu. Það er auðvitað alveg hárrétt hjá honum, að aðalatriði þessara máfa er að lögskráningin sé framkvæmd samkv. gildandi lögum á hverjum tíma. Á því var mikill misbrestur og við fengum í hendur átakanleg dæmi um það, að ekkjur stóðu uppi með börn sín og fengu ekki tryggingabætur vegna þess að viðkomandi lögskráningarstjórar höfðu ekki gegnt skyldu sinni. Þetta var m. a. vegna þess að á sínum tíma, þegar ákvæði um eftirlit lögskráningarinnar, um að tryggingar væru í gildi, voru sett inn í lögin, þá var ábyrgð lögskráningarstjóra tekin út. Það er stutt síðan ég flutti ásamt fleiri þm. frv., sem samþykki var hér á hv. Alþingi, þess efnis, að ef viðkomandi embættismaður gegndi ekki sinni skyldu og slíkir atburðir kæmu upp, þá væri ríkissjóður ábyrgur fyrir embættisafglöpum hans, fyrir hans trassaskap. Að sjálfsögðu getur þá ríkissjóður tryggt sig fyrir því, ef óttast er að slíkt hendi, en það eru — guði sé lof — ákaflega fá dæmi um það. En því miður eru þessi dæmi til eða voru til. Samkv. þeirri breytingu er auðvitað orðið ljóst, að ef lögskráningarstjóri á viðkomandi stað, en það eru margir aðilar sem gegna þessu starfi, gegnir ekki þessu starfi, þá á viðkomandi bótaþegi rétt á því að krefja ríkissjóð um þessar greiðslur. Síðan er það ríkissjóðs annaðhvort að tryggja sig fyrir þessu tjóni eða þá að sækja málið í hendur viðkomandi embættismanns fyrir vanrækslu í starfi.

Ég vil svo að lokum þakka og fagna því, að hæstv. félmrh. hefur sett menn til að athuga þetta mál nánar, ekki aðeins frá viðkomandi rn., heldur og frá samtökum sjómanna. Ég hefði talið rétt að samtök útgerðarmanna væru þarna einnig með því að þau eiga vissulega hagsmuna að gæta. Er alveg útlátalaust fyrir hæstv. ráðh. að bæta þeim aðila við til þess að þurfa ekki að fara að leita til þeirra á seinna stigi. En grunur minn er að þegar upp verður staðið muni þeir komast að þeirri niðurstöðu, að ein leiðin til að ná því fram, sem við þurfum að ná fram, að tryggja réttindi — og reyndar líka nokkrar skyldur sjómanna sem stunda sjómennsku á hinum smærri bátum, sé að breyta lögunum á þann veg sem hér er lagt til.