16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

70. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vek athygli á því, að þarna er ekki gerð nein breyting á þeim reglum sem nú gilda um að íslensk framleiðsla hafi algeran forgang umfram innflutning. Ekki er gert ráð fyrir að innflutningur á grænmeti verði heimilaður fyrr en séð er að hin innlenda framleiðsla dugar ekki til að fullnægja eftirspurninni.

Í sambandi við orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, vil ég aðeins leyfa mér að benda mönnum á að þá fyrst þegar innflutningur var gefinn nokkuð frjáls á ávöxtum til landsins voru landsmönnum tryggðar nægar birgðir af nýjum ávöxtum, sem voru munaðarvara á þeim árum t. d. þegar ég var að alast upp og er ekki mjög langt síðan. Ég held að við þurfum ekki að óttast að Íslendingar fái ekki nægilega mikið úrval af góðu grænmeti og grænmetisvörum til landsins þó svo einkasöluleyfi Grænmetisverslunar landbúnaðarins verði afnumið. Ég held þvert á móti að afnám slíks einkaleyfis mundi tryggja okkur Íslendingum að við fengjum úrval góðs grænmetis á öllum tímum árs, sem við búum ekki við í dag. Það er mikill munur, herra forseti, á því úrvali, sem við búum við varðandi nýja ávexti úr búðum, eða því, sem okkur hefur a. m. k. til skamms tíma verið boðið upp á varðandi grænmeti.