16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

70. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., má segja að sé með nokkrum ólíkindum. Að vissu leyti vil ég taka undir nokkra þætti þess, en mér sýnist að aðrir séu miður fallnir til að ná fram að ganga. Ég hefði einhvern tíma talið það frekar til ólíkinda, að Alþfl.-menn stæðu að því að hverfa frá miðstýringu í innflutningi og dreifingu, þar sem þeir hafa þráfaldlega lagt til að sett yrði á stofn ríkisfyrirtæki til þeirra hluta, þó það hafi kannske verið ívið minna í seinni tíð heldur en var fyrr. Ég vil fagna því, að það hefur orðið að þessu leyti breyting á afstöðu þeirra til verslunarmálanna.

Ég tel að það sé vel þess vert að taka til skoðunar mál Grænmetisverslunarinnar. Ég tel þó að á síðari árum hafi orðið mikil breyting til batnaðar í þeim málum, bæði að því er varðar geymslu, dreifingu og úrval þeirra tegunda sem falla undir þetta vöruheiti. Og það er fyrst og fremst því að þakka, að framleiðslan hefur orðið sífellt margbreytilegri og tæknin, m. a. gervilýsing, og tilraunir á sviði ræktunar í gróðurhúsum hafa orðið til þess að lengja þann tíma sem við höfum getað notið innlendrar framleiðslu.

Ég er þeirrar skoðunar, að það eigi fullan rétt á sér, eins og vikið er að í þessu frv., að endurskoða það einkaleyfi sem Grænmetisverslun landbúnaðarins hefur núna.

Áður hét þessi verslun Grænmetisverslun ríkisins. Hún hefur að þessu leyti fjarlægst fyrri áhuga Alþf1., að nú er það Grænmetisverslun landbúnaðarins en ekki ríkisins, og ég tel það vera skref í rétta átt. Ég ætla ekki að gera það að umræðuefni sérstaklega núna. Þetta kemur til álita í nefnd sem ég á sæti í, landbn., og mun ég þar leitast við að fara í gegnum þetta og koma fram þeim breytingum sem mér sýnist að nauðsynlegt sé að gera.

Ég get ekki skilið svo við þetta mál að koma ekki aðeins að 7. gr., sem hér hefur áður verið rætt um, þ. e. að fella niður það ákvæði laganna að jafna verð á kartöflum í landinu. Ég verð að segja það, að ég er undrandi á að þeir menn, sem kenna sig við jafnaðarstefnu og hafa lagt á það áherslu að jafna verð á ýmsum nauðsynjavörum landsmanna, eins og bensíni, olíu og fleiri vörutegundum, skuli tefja það vera eitthvert höfuðatriði að dæma þá menn, sem búa fjær innflutningshöfninni, til þess að éta dýrari mat en þá sem eru á hafnarbakkanum hér. Það má deila um það, með hverjum hætti slíkir hlutir eru jafnaðir. en það er ótrúlegt að það skuli vera hugsjón flm. þessa frv. að afnema þennan jöfnuð.