16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

81. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég skil vel sjónarmið þeirra flm. og er einn af þeim sem leitað hefur verið til um þetta málefni. Hvernig sem á því stendur er einmitt talað hér um sömu prósentu og ég ræddi um að væri eðlileg í því sambandi. En ég held að um leið og þessi breyting yrði gerð, sem mér sýnist vera réttlætismál, sé mikil spurning hvort ekki beri að endurskoða það, að sumir sumarbústaðir eru alfarið skattfrjálsir, þ: e. ef þeir eru í eigu stéttarfélaga. Þetta hefur skapað þó nokkuð mikið misræmi á milli sveitarfélaga og getur komið þannig út, að sveitarfélög hreinlega telji mun hagkvæmara fyrir sig að stuðla að því, að það séu aðeins einstaklingar sem byggi þar sumarbústaði, en ekki stéttarfélög. Mér sýnist að það mál væri ekki óeðlilegt að skoða í tengslum við þetta, því að vissulega getur það átt sér stað að um það megi deila, hvort eignarformið sé ekki fyrst og fremst skráningaratriði milli stéttarfélags og einstaklinga, ef ekki er ein regla látin ganga fyrir alla og ein regla þar með yfir öll sveitarfélög, hvort sem þau veita leyfi til byggingar sumarbústaða fyrir einstaklinga eða fyrir stéttarfélög.

Ég vildi koma þessu á framfæri um leið og ég lýsi því yfir, að ég tel að hér sé um mjög eðlilega breytingu að ræða.