16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 85 leyfi ég mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Meðflm. mínir að þessu skjali eru hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, Matthías Bjarnason, Guðmundur G. Þórarinsson, Vilmundur Gylfason, Karvel Pálmason, Jóhanna Sigurðardóttir, Birgir Ísl. Gunnarsson og Pétur Sigurðsson.

Frv. er svohljóðandi:

1. gr.: 3. mgr. 5. gr. laganna orðist svo:

Skylt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Sama gildir um slíka lífeyrisþega sem ekki hafa verulegar tekjur umfram elli- og örorkulífeyri.

2. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ég leyfi mér að lesa grg. Hún er svohljóðandi:

„Í 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga segir að sveitarstjórnum sé heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Komið hefur í ljós að margt af því fólki, sem rétt hefur til að njóta góðs af heimildarákvæði þessu, gerir sér ekki grein fyrir þessum rétti sínum og sækir ekki um niðurfellingu eða lækkun á fasteignasköttum sínum.

Þá hefur einnig komið í ljós að rétthafar treysta sér oft ekki til að standa í slíkum bréfaskriftum við opinberar stofnanir.

Rétt og skylt er að geta þess, að flest sveitarfélög sýna lipurð og tillitssemi í þessum efnum. En þar sem í hlut á efnalítið fólk, sem verður að lifa á elli- og örorkulífeyri og hefur ekki gjaldþol til greiðslu slíkra fasteignaskatta, þykir flm. eðlilegt að breyta þessari heimild sveitarstjórna í skyldu.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það er skýrt hvað hér er átt við. Ég lýk máli mínu með því að gera till. um að vísa þessu frv. til fjh.- og viðskn. og 2. umr.