16.11.1981
Neðri deild: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég er mjög svo samþykkur því frv. sem hér er til umr. Þar sem ég þekki best til, í Vestmannaeyjum, og sjálfsagt í miklu fleiri sveitarfélögum hafa heimildir tekjustofnalaga til niðurfellingar fasteignaskatts hjá efnalitlum elli- og örorkulífeyrisþegum þegar verið notaðar í langan tíma á sama hátt og frv. gerir ráð fyrir. Þar er fólk ekki látið sækja um þetta og sækja um hitt, eins og því miður er gert sums staðar og í stórum stíl hér í Reykjavík.

Útsvarsnefnd kaupstaðarins er falið að sjá um að fella þetta niður — eða lækka þar sem það á við, eins og lög gera ráð fyrir — án umsókna, og það er afskaplega auðvelt í framkvæmd. Það á alls ekki að þurfa að skjóta sér á bak við það, að þetta sé mjög erfitt í framkvæmd. Það er óhæfa að láta slíka niðurfellingu vera undir því komna, að hver og einn sæki um niðurfellingu. Gamla fólkið þekkir ekki alltaf sinn rétt, eins og hv. flm. gat réttilega um, og það er undir hælinn lagt hvort einhver aðstandenda gamla fólksins skiptir sér af þessu eða ekki. Það er á fleiri sviðum sem þetta á reyndar við. Allir, sem eiga rétt til slíks, eiga að njóta þess. Það eiga framkvæmdavaldið og löggjafinn að sjá um. — Ég styð þetta frv. eindregið.