15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég sagði það í minni fyrri ræðu, að ég hefði haft tækifæri til þess á undanförnum árum að fylgjast með máli Matthíasar Andréssonar innan tollgæslunnar. Ég hef gert það vegna þess, að það gildir sjálfsagt hið sama um mig og marga aðra alþm., að til okkar leita ýmsir einstaklingar og aðilar í þjóðfélaginu sem telja sig þurfa og eiga meiri rétt en þeir hafa fengíð í reynd og telja að verið sé að brjóta á þeim. Það vill svo til, að ég hef fylgst með þessu máli ekki bara síðustu dagana og síðustu vikurnar, heldur frá fyrstu dögum þess að ég var kosinn á Alþingi Íslendinga. Og málið hefur haldið áfram stig af stigi síðan. Sá eini lærdómur, sem ég get dregið af þeim kynnum sem ég hef af þessu máli, er að yfirmenn tollgæslunnar, eins og ég sagði áðan, geri sér sérstakt far um það að hindra í starfi, lækka í virðingarstiga starfskerfisins, jafnvel launastiga, þá einstaklinga sem greinir á við þá, yfirmennina, um hvaða aðferðum og hve mikilli hörku eigi að beita við þetta eftirlit. Þegar ég nú í dag les þá yfirlýsingu í Tímanum frá tollstjóra, að hann hafi krafist brottvikningar þessa tiltekna tollvarðar úr starfi eingöngu á grundvelli þessa fyrirkomulags um yfirvinnugreiðslur, sem allir hafa vitað um og allir hljóta að vera sammála um að eru eðlilegar, — á því eina formsatriði hafi hann krafist brottvikningar úr starfi, þá er það fyrir mér lokapunktur í langri sögu sem ég er búinn að fylgjast með hér á undanförnum árum. Það gefur tilefni til þess, eins og ég sagði áðan, að þeir aðilar — ég endurtek það hér: að þeir aðilar, sem hafa krafist opinberrar rannsóknar í málinu, verði væntanlega sammála um að allt samskiptamál yfirmanna tollgæslunnar við þennan tiltekna tollvörð verði tekið til skoðunar, allar hliðar þess máls. Ég fullyrti ekkert um samskipti við aðra tollverði, það þekki ég ekki, það skal ég ekkert um segja. Ég sagði hins vegar og segi það aftur, að ef þessi saga eins og hún birtist mér er lýsandi dæmi um þá starfshætti, sem þarna eru, þá er mikið að. Ef það hins vegar kemur í ljós, að þarna hefur verið um hreint persónubundið dæmi að ræða, þá eiga yfirmenn tollgæslunnar eftir að skýra hvers vegna þeir hafa komið svona fram við þessa tilteknu persónu, þá er það mál óútskýrt.

Ég vil þess vegna að gefnu því tilefni, sem hér hefur komið fram, endurtaka það sem ég sagði áðan, að vegna þess sem gerst hefur jafnt og þétt, ekki allan tímann, heldur jafnt og þétt á síðustu árum og nú síðast sérstaklega með tilliti til þeirra yfirlýsinga og upplýsinga, sem hafa komið fram frá yfirmönnum tollgæslunnar sjálfum í blöðum, er nauðsynlegt að þetta mál verði allt saman athugað. Ég vænti þess, að þær yfirlýsingar, sem fjmrh. kom fram með hér, séu sömu ættar og ég hef verið að setja hér fram hvað það snertir að nauðsynlegt sé að þetta mál sé allt saman athugað.

Ég hef rætt þetta mál á undanförnum árum við ýmsa stjórnendur þessa kerfis, bæði í tíð fjmrh. og í tíð fyrrv. fjmrh. Ég ætla ekki að rekja þá sögu hér; þeir gera það sjálfir á þeim tíma þegar þeim þykir henta, ef þeim þykir henta svo. En við skulum gera okkur grein fyrir því, hv. alþm., að í þessu landi er mikið um stóra karla sem þykjast hafa vald til þess að ráðskast með undirmenn sína og almenning í landinu, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson réttilega gagnrýndi hér áðan. Og það er skylda okkar hér að standa vörð um það, að sérhverjir starfsmenn, sérhverjir einstaklingar í þessu landi fái að njóta fyllsta réttlætis og engir svokallaðir toppar í þessu embættiskerfi eða einhverju öðru kerfi í krafti embættis síns, í krafti valds síns og í krafti þeirrar leyndar, sem oft og tíðum hvílir um það sem gerist innan þessara stofnana, beiti undirmenn sína eða almenna borgara í þessu landi misrétti.

Mér er ljóst að þau orð, sem ég lét falla hér áðan, hv. þm. Friðrik Sophusson og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, eru alvarleg. Það er vissulega rétt. En líka er alvarleg sú yfirlýsing sem kemur fram hjá tollstjóra í dag, að hann hafi krafist brottrekstrar þess starfsmanns sem hér er verið að tala um, því að hvað er alvarlegra gagnvart einum opinberum embættismanni heldur en að krefjast þess að hann verði rekinn, eins og hv. tollstjóri hefur nú upplýst að hann hafi gert kröfu um. Hann beitir valdi embættis síns á forsíðu Tímans í dag til að flytja almenningi í landinu þá brottrekstrarkröfu. Ég tel rétt til þess að standa vörð um þennan einstakling, þennan starfsmann tollgæslunnar sem hér hefur verið rætt um, Matthías Andrésson, að nota ræðustól Alþingis í dag til þess að sýna þm. og þjóðinni að það eru fleiri hliðar á þessu máli og að mínum dómi eiga yfirmenn tollgæslunnar eftir að svara mörgum stórum og alvarlegum spurningum um framgöngu sína í máli þessa tollvarðar á undanförnum árum.

Ég vænti þess og ég endurtek það að lokum, herra forseti, um þá kröfu um opinbera rannsókn, sem hefur komið fram hjá þessum yfirmönnum, að þeir verði sammála um að hún verði líka látin ná til þess að rekja þetta mál allt saman frá upphafi til enda. Ef það reynist þá koma í ljós að sá lærdómur, sem ég hef dregið af kynnum mínum af þessari sögu, er rangur, þá er ég fyllilega reiðubúinn til þess að taka tillit til þess og taka mið af því. Hitt tel ég hins vegar nauðsynlegt, að yfirmenn kerfisins séu ekki síður teknir til rannsóknar en sá undirmaður sem þeir bera þungum sökum á forsíðu Tímans í dag, því að lýðræðið á Íslandi er ekki bara lýðræði fyrir yfirmennina eða lýðræði fyrir toppana í kerfinu. Lýðræðið á Íslandi er fyrst og síðast lýðræði fyrir almenna borgara, hvern og einn sem hefur ekkert annað sér til varnar en þann almenna rétt og þær almennu siðareglur sem eiga að tíðkast í því samfélagi sem við viljum hafa í heiðri. Þess vegna hef ég notað þennan ræðustól í dag til að kalla toppana til ábyrgðar.