17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég get borið um það, að þegar ákveðið var af útvarpsráði á sínum tíma að hefja lestur úr leiðurum dagblaðanna var það ekki vilji fréttamanna fréttastofu útvarpsins að þeir fengju það hlutverk að stytta þessa leiðara, enda hefur það verið svo í gegnum tíðina að þeir hafa orðið fyrir ýmsum pústrum, ef svo mætti segja, vegna þess að þurfa að stytta þessa leiðara og hafa viljað losna við það. Ég tel hins vegar að leiðaralesturinn sé nauðsynlegur, hann sé eðlilegur og hann sé sjálfsagður. Þetta þekkist í öllum útvarpsstöðvum í nágrannalöndum okkar. Er bæði sjálfsagt og eðlilegt að lesinn sé útdráttur úr leiðurum þar sem koma fram pólitískar skoðanir hinna ýmsu þjóðfélagshópa og afla. Ég tel þetta nauðsynlegt mál, eðlilegt og sjálfsagt. Mér finnst hins vegar jafneðlilegt að blöðin skili leiðurum í þeirri lengd, sem þau eða útvarpið eða fréttastofa útvarpsins ákveður, og hafi þá til þess sérstök form sem blöðin útfylla. Þá getur hver og einn ritstjóri ákveðið hvað hann vill að komi fram, hvað hann telur mikilvægast af því sem hann hefur skrifað í sinn leiðara. En þessa þjónustu held ég að landsmenn verði að fá og sé nauðsynlegt að þeir njóti hennar ekki síður frá blöðunum úti á landi en blöðunum hér í Reykjavík.