15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vegna spurninga hv. þm. Friðriks Sophussonar verð ég að bæta hér við örfáum orðum.

Það liggur fyrir að þetta mál er ákaflega flókið og margslungið og rekur sig mörg ár aftur í tímann. Það liggur líka fyrir að til stendur að fram fari rannsókn á þessu máli. Og þá spyr ég: Finnst mönnum við hæfi að ég sem yfirmaður tollgæslu fari að kveða upp fyrir fram dóma í þessu máli? Auðvitað ekki. Auðvitað væri það mjög óeðlilegt og óviðurkvæmilegt.

Það er rétt að yfirmenn tollgæslunnar hafa talið eðlilegra að viðkomandi starfsmaður hætti hjá tollgæslunni. Niðurstaðan hefur hins vegar orðið sú hjá rn., að viðkomandi starfsmaður var fluttur til. Hann fékk annan starfsvettvang og er nú tollvörður í Hafnarfirði. Á hinn bóginn get ég alveg hiklaust sagt það og vona að það sé skoðun allflestra þm., að ekki er eðlilegt að opinber starfsmaður fái laun frá einkafyrirtæki sem hann er settur til að gæta. Að því leyti tel ég að það hafi verið formlega rangt fyrirkomulag, að greiðslur til þessa starfsmanns gengju ekki alfarið í gegnum tollgæsluna og tollstjóra. Þetta atriði held ég að sé svo augljóst að ekki þurfi um að deila. En þannig getur þetta verið, að erfitt er að fullyrða að einn valdi þá tveir deila, og ég tel að málið í heild þurfi það ítarlega rannsókna við að fráleitt væri að kveða upp dóma í því að svo stöddu.