17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

326. mál, stytting á forystugreinum dagblaða í Ríkisútvarpi

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör við þessum litlu spurningum. En ég vil segja að það eru dálagleg mánaðarlaun sem fyrir þessa vinnu eru greidd, eða sú vinna virðist fara hægt fram, og minnir kannske á Aþenu, en alla vega ekki á Spörtu, hvernig þarna er unnið.

Á hinn bóginn vil ég líka undirstrika það, að ég hygg að varðandi leiðaralestur á morgnana væri hægt að vinna tvennt með því að láta blöðin sjá um að útbúa þá sjálf, ef þau svo kjósa: Það væri hægt að spara skattgreiðendum peninga, sem virðast vera allnokkrar upphæðir, og það væri hægt að koma í veg fyrir allan misskilning og öll leiðindi sem þarna hafa orðið á milli. — Ráðh. hefur nefnt þá leið og hann hefur nefnt það, að þeir, sem bera ábyrgð á fjármálum útvarpsins, hafi einnig látið í ljós áhuga á að sú leið sé farin. Ég sé ekkert athugavert við það, að um þetta morgunhorn gildi sömu reglur og t. d. Daginn og veginn, þann þátt sem er búinn að vera í áratugi í Ríkisútvarpinu og er algerlega sjálfstæður þáttur á ábyrgð þeirra sem hann flytja. Eins mætti vera með þetta leiðarahorn á morgnana. Það væri algerlega á ábyrgð þeirra sem leiðarann rita í blöðin og stytta. Þeir beri ábyrgð á því, en ekki aðrir. Þetta er lítil tillaga sem felur í sér að skattgreiðendum séu sparaðir peningar og komið í veg fyrir allt óþarfaamstur og öll óþarfaleiðindi. Ég sé allan vinning af þessu og ekkert annað.