17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

331. mál, gróði bankakerfisins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það eru ekki tók á að fara út í umr. um þessi mál, en ég vil þó nota tíma minn til að leiðrétta það sem hv. fyrirspyrjandi sagði og er rangt. Hann sagði að ársreikningar Seðlabankans væru sjálfendurskoðaðir. Í 30. gr. laga um Seðlabankann stendur eftirfarandi:

„Bankaráð ber ábyrgð á endurskoðun reikninga bankans, og skal sérstök endurskoðunardeild starfa við bankann undir umsjón þess. Auk þess skal formaður bankaráðs, og í forföllum hans varaformaður, ásamt sérstökum bókhaldsfróðum endurskoðanda, sem til þess er ráðinn af bankaráði, fylgjast með framkvæmd endurskoðunar og gera reglulegar athuganir á bókhaldi og eignum bankans.“

Það skal upplýst, að þessi sérstaki bókhaldsfróði endurskoðandi er utanaðkomandi endurskoðandi og áritar reikninga bankans, sem ég vænti að hv. fyrirspyrjandi, þó hann sé nú ekki hér í salnum, en umboðsmaður hans mun vera hér, hafi lesið þegar þessi fsp. var sett fram. Áritun þessi er á bls. 66 í reikningum bankans og undirrituð af Stefáni Svavarssyni löggiltum endurskoðanda, sem er utanaðkomandi endurskoðandi. Ég harma að hv. fyrirspyrjandi skuli vera-ég vænti þess að það sé ekki vísvitandi — að ala á tortryggni í garð bankans. Þetta vildi ég leiðrétta.

Í öðru lagi vildi ég leiðrétta það, að eigið fé Seðlabankans er ekki 70 millj. sem stendur þó að það hafi verið 36 millj. um s. l. áramót. Það hefur ekki endanlega verið gert upp vegna þess að það er ekki vitað um rekstrarniðurstöðu bankans, en það er mun minna en hv. umboðsmaður fyrirspyrjanda lét í ljós.

Ég vil að öðru leyti vísa hér til greinargerðar bankaráðs og bankastjórnar um þetta mál. Þar eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Íslandi og þessi greinargerð var samþykkt í bankastjórn og bankaráði einróma.