17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

331. mál, gróði bankakerfisins

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það kemur mér nokkuð á óvart að heyra formann þingflokks Alþb., hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, halda því fram að hann sé sammála sjútvrh. um að nú þurfi að taka hluta af gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar og úthluta til einhverra tiltekinna atvinnufyrirtækja. Ég veit ekki betur en að fyrir nokkrum dögum hafi sami þm. verið að lýsa því úr þessum ræðustól, hvað þessi fyrirtæki stæðu sterk og öflug, og tók m. a. sérstakt dæmi um að eitt af þessum fyrirtækjum hefði sjálft getað fjármagnað kaup á stóru og voldugu fiskiskipi án þess að þurfa að fá lánsfjárfyrirgreiðslu nokkurs staðar frá. Af orðum hans mátti ekki annað marka en allt væri í lukkunnar velstandi í atvinnulífi þjóðarinnar. Þess vegna finnst mér ástæða til að spyrja þennan hv. þm. hvort hann sé kominn á þá skoðun núna, að atvinnulífið standi svo veikum fótum að það þurfi að verja gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar til að greiða fyrirtækjum í sjávarútvegi einhverja rekstrarstyrki og hvenær hv. þm. hafi þá komist á þá skoðun, því að hann var á annarri skoðun fyrir nokkrum dögum.