17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

331. mál, gróði bankakerfisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Þessi umr. ætlar að enda eins og hún hófst — með ólíkindum. Hún hófst með búktali og svo kveðast þeir nú á hv. 11. þm. Reykv. og formaður þingflokks Alþb. sem biðja um línu frá hæstv. ráðherrum, og straumarnir ganga á misvíxl í þessu eins og öðru.

Ég vildi gjarnan fá álit hv. 11. þm. Reykv. á því, hvaða aðgerð hann álítur það vera þegar ímyndaður eða bókfærður hagnaður í Seðlabanka er tekinn til að verja til rekstrar atvinnufyrirtækja í landinu. Er einhver munur á því — ef spurt er beint — og prentun seðla? Hann á auðvitað meiri kröfu en ég á skýrum svörum frá hæstv. ríkisstj. Í raun og veru snýst spurningin um það: Til hvaða ráða ætlar hæstv. ríkisstj. að grípa í þeim aðventunauðum sem atvinnuvegir Íslands eru staddir í um þessar mundir? Það er beðið um þetta svar. Ef þeir hyggjast ætla að halda í við verðbólguna með einhverjum hætti er lausnin áreiðanlega ekki sú, sem Alþb.- menn benda á og hæstv. sjútvrh. hefur vissulega tönnlast á, að auka seðlaprentun í Seðlabankanum — alveg áreiðanlega ekki. En ég legg á það áherslu, að hið háa Alþingi, ekki einvörðungu stjórnarliðar, þetta varðar okkur alla, fari að fá eitthvað fast undir fætur með það, til hvaða bragða á að grípa þegar neyðin bankar á dyr hringinn í kringum landið í höfuðatvinnuvegum okkar.