15.10.1981
Sameinað þing: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð sem ég vil fyrst og fremst beina til hv. þm. Friðriks Sophussonar. Þessi gáfaði og vígreifi ungi þm., sem ég hef gjarnan oft dáð fyrir skarpleik í hugsun og árvekni í þingmannsstarfi sínu, ekki síst hér í hv. Sþ., ræddi um það sem einsdæmi að tilraun væri gerð til þess að víkja opinberum starfsmönnum úr starfi fyrir dugnað og árvekni í starfi. Ég vil aðeins minna hv. þm. á, og hygg, þó ég vilji ekki bregða honum um æsku, að langminni hans stafi nokkuð af þeim fæðingarágalla, — að skipherra hjá Landhelgisgæslunni var á sínum tíma óvefengjanlega vikið úr starfi fyrir að taka fleiri togara í landhelgi heldur en valdamiklum aðilum gott þótti. Og af því að hv. þm. leyfði sér að nota hástigsnafnorð um þann verknað að skjóta vörum undan tolli og nefna það glæp í ræðu sinni, þá vildi ég einnig minna hann á það, að þremur vikum eftir að hin sögufræga faktúra fannst í tunnunni var flokkur hans, sem hann hyggst nú gerast varaformaður í, búinn að gera aðaleiganda tunnunnar að fjmrh.