17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

331. mál, gróði bankakerfisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni blasir það við, að neyðarástand er brostið á í undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, fiskiðnaði og sjávarútvegi. Fyrirtækin hringinn kringum landið ramba á barmi gjaldþrots. Þau verða ekki rekin áfram og fólkið heldur ekki áfram að hafa atvinnu með einhverjum bókhaldskúnstum. Það er hægt með því að prenta seðla, en þá fýkur í öll skjól í áflogunum við verðbólguna.

Hver hefur beðið um gengisfellingu af stjórnarandstöðuflokkunum? Hverjir eru þeir? Það er dálítið annað þó að menn skýri frá bláköldum staðreyndum, að gengið er kolfallið fyrir löngu og miklu meira en menn voru að burðast við að skrá það upp á nýtt á dögunum. Hve mikið hefur t. a. m. dollarinn hækkað í verði í tíð þessarar hæstv. ríkisstj., um hve mörg prósent, hjá stjórn sem lýsti yfir að hún ætlaði ekki að nota gengisfellingarleiðina til þess að fljúgast á við verðbólguna og heill flokkur hefur sem stefnuskráratriði hjá sér að snúast gegn því að fara gengisfellingarleiðina?

Nei, það er þokkalegt — eða hitt þó heldur, þegar svo er komið fyrir undirstöðuatvinnuvegum okkar, að við þurfum að verja tímanum til að hlusta á önnur eins endemi og farið hafa hér fram á milli hv. stjórnarliða. Þeir þrætast á um það, hvort þá greini á um leiðir. Því getur maður ekkert áttað sig á vegna þess að þeir hafa enga stefnu til lausnar. Það liggur í orðunum sitt á hvað og menn geta ráðið í að e. t. v. muni þá greina á. Það er vegna þess að þetta er einn allsherjar ruglingur. Þeir hafa enga fastmótaða stefnu í málinu. Ef svo væri, þá væri hægt að greina nákvæmlega hvort um víxlstrauma væri að tefla. Mönnum sýnist sitt hvað, þeim sjálfum, af því að þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð.