17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

331. mál, gróði bankakerfisins

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef þegar talað þrisvar sinnum, þar af einu sinni áður á náð hæstv. forseta. Ég þakka enn og aftur fyrir það tækifæri að fá að koma hér upp. Það hefur verið beint til mín mörgum spurningum sem ég hef því miður ekki tíma til að svara öllum, en skal þó reyna að drepa á tvö til þrjú kjarnaatriði.

Þm. Sjálfstfl. í Ed., t. d. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og einnig Lárus Jónsson, óskuðu og kröfðust gengisfellingar hvað eftir annað fyrir nokkru. Um það fór fram ítarleg umr. í Ed., sem vitnað var til hér í Sþ. Það þýðir ekkert fyrir þm. Sjálfstfl. að koma núna og afneita þeim orðum. Þau liggja fyrir í þingskjölum.

Hins vegar er það skiljanlegt, að hv. þm. Pétur Sigurðsson og Friðrik Sophusson skuli vera eins taugaveiklaðir og fram kom hér í þeirra ræðum. Hv. þm. Friðrik Sophusson boðaði í Morgunblaðinu á laugardagsmorguninn að fram undan væru margra mánaða verkföll og kjaradeilur, en heyrði svo í útvarpinu um leið og hann las viðtalið við sjálfan sig að náðst hefðu kjarasamningar milli ASÍ og VSÍ. Þessum aðilum hefur því ekki tekist það sem þeir ætluðu sér að láta gerast, að hér ætti sér stað þróun í þjóðfélaginu sem væri launafólki í landinu óhagstæð.

Við hv. þm. Sverrir Hermannsson vil ég segja það, að það getur vel verið að hann telji að atvinnulífið í landinu sé illa statt. En forsvarsmönnum Framkvæmdastofnunar ríkisins hefði þá verið sæmra að sinna þeim skipulagsmálum og þeirri áætlanagerð og því uppbyggingarstarfi fyrir atvinnulífið í landinu, sem þeir eiga að gera samkv. lögum stofnunarinnar, en að vera að byggja einhverja ósmekklegustu glæsihöll, sem nokkur ríkisstofnun á Íslandi hefur byggt, og ætla svo að koma og reyna að sannfæra almenning á landinu um að útsýnið úr glerhöllinni við Rauðarárstíg, sem er upplýst með sérstöku rafeinda- og sjálfstýrðu hita- og ljósa- og gluggakerfi, sé ákjósanlegasti staðurinn til að skynja atvinnulífið á Íslandi. Ég tel að sá málflutningur sé ekki líklegur til að bera árangur.