17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

331. mál, gróði bankakerfisins

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Mig langar til að leyfa mér að óska eftir skýrari svörum hæstv. viðskrh. um tvö atriði sem hefur borið á góma hér í umr.

Það er orðið ljóst að ekki verður gengið á gjaldeyrisvarasjóðinn, heldur verður einungis tekinn hinn eiginlegi hagnaður Seðlabankans og það fé látið renna til atvinnurekenda. Það kom fram í máli hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, að þetta fé er fé sparifjáreigenda og þjóðarinnar allrar, og ríkisstj. ætlar nú að taka þetta fé og afhenda atvinnurekendum. Ég held að ríkisstj. verði að útskýra nokkuð vandlega fyrir þinginu og þjóðinni allri hvaða skýringar eru á þessu. Hvernig getur hún talið réttmætt að taka fé sparifjáreigenda og láta lítinn hóp atvinnurekendur í landinu — njóta góðs af því?

Í annan stað er ljóst að ríkisstj. ætlar að beita þeim úrræðum til lausnar vanda atvinnuveganna að auka peningamagn í umferð, auka seðlaprentun, en það er gamalt úrræði. Það er alls ekki komið nægilega vel í ljós af hálfu ríkisstj. hvaða áhrif svona úrræði hefur á verðbólguþróunina. Það er einkum mjög lærdómsríki fyrir Alþb.-menn að fá nákvæmlega álit ráðh. á því, hvaða áhrif aukin seðlaprentun hafi á verðbólguþróun. Það er hollt fyrir Alþb.- menn að hlusta á þetta því um alllangt skeið hafa þeir lagt allhart að launþegum í landinu að halda aftur af kaupkröfum sínum og reyna að halda kaupinu niðri með það fyrir augum að vinna gegn verðbólgudraugnum. Alþb.-mönnum hefur orðið mjög ágengt í því efni að halda niðri kaupi. En spurningin er þessi: Eruð þið ekki að eyðileggja öll þau hugsanlegu góðu áhrif með því að hleypa öllu upp í seðlaprentuninni?