17.11.1981
Sameinað þing: 20. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

331. mál, gróði bankakerfisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hefur lengi viðgengist að menn hafi fengið að taka til máls, eftir að þeir hafa talað sig dauða, til að bera af sér sakir, en það var auðvitað ekki við því að búast, að hv. 11. þm. Reykv. gæti farið að venjulegum leikreglum hvað það snertir, heldur reyndi hann mjög á þolinmæði forseta með ósæmilegum aðdróttunum að þm. eftir að hann hafði talað mun lengur en þingsköp heimiluðu honum. Raunar lýsir það einungis geði þessa manns.

Ég kveð mér nú aðallega hljóðs til að undirstrika það, að mjög ber á milli hjá einstökum þm. stjórnarflokkanna hvernig ástandið er í atvinnumálunum. Annars vegar viðurkennir hæstv. viðskrh. að atvinnuvegirnir eru reknir með verulegum halla, þannig að eitthvað þurfi til að koma, og tekur sérstaklega fram í því sambandi að málinu sé ekki þannig háttað að hægt sé að taka fé úr viðskiptabönkunum til að rétta grundvöll atvinnuveganna. Hann talar einnig um að ekki sé hægt að nýta gjaldeyrissjúðinn til að greiða rekstrarhalla atvinnuveganna. Auðvitað er þetta rétt hjá hæstv. viðskrh. Það er auðvitað skammgóður vermir að ganga á eignirnar til að bera uppi rekstrarhallann. En þetta lýsir um leið úrræðaleysi ríkisstj. og sýnir okkur að innan hennar er engin samstaða um aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum.

Það er svo aðeins enn eitt dæmið um málflutning Alþb. fyrr og síðar, að formaður þingflokks Alþb. skuli reyna að gefa í skyn hér að það hafi myndast einhver óeðlilegur gróði. Hann tvítók orðið gróði í ræðu sinni. Hann gefur í skyn að það sé þessum gróða að kenna að atvinnuvegirnir eru reknir með halla, það hafi orðið óeðlileg gróðamyndun í Seðlabankanum. Fróðlegt væri að fá frekari upplýsingar um hvort fulltrúi Alþb. í stjórn Seðlabankans hafi gert einhverja sérstaka könnun með úttekt á þessum málum eða hafi yfirleitt gert nokkru sinni athugasemd við rekstur bankans. Ég þori að fullyrða að svo sé ekki.